Njóttu Hádegis- og Kvöldmatar Jólanna

Sveppasósan sem fullkomnar allt!

Ég man þegar að ég var að alast upp að þá notaði maður oft duft í til að útbúa sósur, hrærði það saman við það rjóma og jafnvel rjómaosti. Sem kom nú alltaf mjög vel út og var bæði þægilegt og einfalt að gera. En það að útbúa sínar eigin sósur frá grunni er svo 10x betra fyrir bæði líkamann og 1000x betra fyrir bragðlaukana þína. Það er svo mikil ást fólgin í því að útbúa góða sósu. Leyfa henni að malla, smakka til og aðlaga að sínum bragðlaukum. Það er svo mikill áfangi þegar maður nær að útbúa sósu sem maður er sáttur við og þegar að sósan er góð; þá er máltíðin á allt öðru plani.

Sjálf gæti ég borðað góða sósu eintóma og þessi sósa er ein af þeim. Hún er það góð að ég geri hana oft og borða ekkert annað með henni en kartöflumús, þannig finnst mér hún njóta sín svo vel og hver munnbiti er svo himneskur að orð fá því ekki líst!

Sveppasósa

 • 100 g laukur
 • 2 hvítlauksrif
 • 270 g sveppir (má blanda t.d. kastaníusveppum, ostrusveppum og flúðasveppum)
 • 1,5 msk brúnt misomauk (fæst í melabúðinni og veganbúðinni)
 • 2 msk tamarisósa
 • 1/2 kite hill rjómaostur (fæst í veganbúðinni)
 • 3 dl vatn
 • 1/2 dl rauðvín (má sleppa) 
 • 2 msk ferskt timían
 • Svartur pipar
 1. Byrjaðu á því að steikja laukinn upp úr grófu salti á meðalháum hita. Reyndu að sleppa því að nota olíu og láta laukinn steikjast upp úr eigin safa. Ef hann festist getur þú sett smá olíu eða vatn.
 2. Næst bætir þú sveppunum, timíaninu og hvítlauksrifunum saman við. Sama hér, leyfðu sveppunum að steikjast upp úr eigin safa og hrærðu vel í.
 3. Bættu svo misomaukinu og tamarisósunni saman við. ATH þetta bæði er mjög salt svo ekki salta sósuna meira nema smakka hana til.
 4. Bættu svo rjómaostinum, rauðvíninu og vatninu saman við.
 5. Smakka svo til með svörtum pipar og salti ef þarf.

Kartöflumús

 • 500 g kartöflur
 • 1,5 dl möndlumjólk
 • 1 tsk salt
 • Svartur pipar
 1. Byrjaðu á því að sjóða kartöflurnar í potti, kældu þær svo aðeins og taktu hýðið af þeim.
 2. Stappaðu þeim svo saman við möndlumjólk, salti og pipar.

Þessi máltíð er fullkomin fyrir unga sem aldna og það má vel bera fleira fram með henni eins og t.d. bakaðar gulrætur, grænar baunir og/eða grænmetisbollur. Sveppasósan mun einnig smellpassa með hnetusteikinni og/eða portobello wellingtoninu yfir hátíðirnar.

Njóttu elsku hjarta og endilega deildu með mér í athugasemd hér að neðan ef þú prufar að útbúa þessa uppskrift <3

Ást & hlýja til þín,

Anna Guðný

You Might Also Like

No Comments

Leave a Reply