Meðlætið spilar ótrúlega stóran þátt í góðri jólamáltíð og er því mikilvægt að það passi með því sem maður ætlar að hafa í jólamatinn. Í ár verður innbökuð sveppasteik í aðalhlutverki í jólamatnum á mínu heimili og verður dásamlegt rauðrófu & perusalat eitt af meðlætunum sem verður á boðstólnum með henni. Þetta fallega salat er ekki bara stórkostlega nærandi fyrir augað heldur er það algjör veisla fyrir braðglaukana. Rauðrófur og perur passa svo vel saman og er þessi samsetning af hráefnum algjört sælgæti. Það er erfitt að narta ekki í það meðan beðið er eftir að maturinn verður tilbúinn.
Rauðrófu & perusalat
- 280 g bakaðar rauðrófur
- 280 g lífr. perur
- 5 msk kasjúsósa
- 1/2 handfylli ferskt dill
- 1 msk rauðvínsedik
- smá salt
- Nokkrar ristaðar heslihnetur
- Byrjaðu á því að baka heilar rauðrófur í ofni við 180°C. Settu þær í eldfast mót og skvettu smá olíu yfir þær. Þær eru tilbúnar þegar þú getur stungið í gegnum þær. Leyfðu þeim svo að kólna, afhýddu þær og skerðu niður í teninga.
- Afhýddu peruna og skerðu hana niður í teninga.
- Settu öll hráefnin saman í skál og hrærðu þessu vel saman.
- Gott er að bera salatið fram með ristuðum heslihnetum. Ég baka þær á blæstri við undir&yfir hita við 150°C í 10-15 mín.
Ef að þú hefur ekki tíma til þess að útbúa kasjúsósuna þá ætti sýrði ”rjóminn” frá oatly að ganga í þessari uppskrift. Hafðu þá í huga að þú þarft þá sennilega minna af honum.
Ég man svo vel þegar að maður var yngri og það eina sem aðfangadagur snerist um var að opna pakkana að jólamáltíð lokinni. En nú nokkrum árum seinna, þá snýst þetta bara um að útbúa bragðgóðan sem manni líður vel af. Núna kann maður loksins að njóta matarins og er ekki að skófla honum í sig á ógnarhraða til þess að reyna að komast sem fyrst í pakkana. Það er nefnilega þannig að þegar að maður gefur sér tíma í að tyggja og njóta matarins þá er maður tengdari líkama sínum og hættir líklega fyrr að borða en þegar að maður borðar of hratt. Í verðlaun fær maður að maður getur auðveldlega staðið upp frá borði án þess að vera of saddur.
Njóttu jólamáltíðarinnar <3
-Anna Guðný
2 Comments
Raudr’ofur, eru tad beets.
já 🙂