Njóttu Góðgætis

Vegan smákökur í ferðalagið

15. júní, 2017

Mér finnst algjör snilld að eiga kökur eins og þessar til í frystinum og geta gripið með mér þegar að ég veit að ég verð á flækingi yfir daginn. Þessar reyndar komust aldrei í frystinn því þær kláruðust svo hratt, en markmiðið er að gera annan skammt og eiga í frystinum til að grípa í þegar maður fer á flakk í sumar. Það þarf þó alls ekkert að frysta þær, ég vil bara eiga byrgðir af mat í frystinum til að grípa í þegar að maður hefur ekki tíma eða nennir ekki að útbúa sér mat og annað gotterí.

Vegan smákökur í ferðalagið    20 – 25 stk

 • 2 chia egg (2 msk möluð chia fræ + 8 msk vatn)
 • 100g kókosolía
 • 50g kókospálmasykur
 • 150 ml heimagerð möndumjólk
 • 300g haframjöl
 • 100g kókosmjöl
 • 1/2 tsk salt
 • 1/2 tsk vanilla
 • 1/2 tsk kanill
 • 1 tsk matarsódi
 • 100g rúsínur
 1. Byrjaðu á því að útbúa chia ”eggin”. Malaðu chiafræ í kaffikvörn og hrærðu saman við vatn í lítinn bolla. Hrærðu vel í þessu og leyfðu þessu að standa.
 2. Malaðu haframjöl í matvinnsluvél eða blandara og settu síðan í stóra skál.
 3. Bættu restinni af þurrefnunum saman við.
 4. Þeyttu saman kókosolíu og kókospálmasykri. Þú þarft ekki að bræða kókosolíuna áður en þú þeytir þetta saman!
 5. Bættu chia eggjunum saman við og blandaðu þessu vel saman. Bættu svo möndumjólkinni út í.
 6. Bættu næst þurrefnunum saman við blönduna.
 7. Þegar að allt er vel blandað saman skalt þú bæta rúsínunum saman við.
 8. Kældu deigið í 30-60 mín í ísskápnum. Taktu svo deigið út og mótaðu kökurnar með höndunum. Mér finnst gott að búa til kúlur og pressa þær svo niður með höndinni og móta kökurnar aðeins. Kökurnar fletjast ekkert að viti út svo að maður verður að móta þær akkurat eins og maður vill hafa þær.
 9. Bakað við 170°C í 20-25 mín.

Það þarf nú varla að minnast á það en það er örugglega dásamlegt að bæta smá súkkulaði við uppskriftina, svona til að gera þær aðeisn sparilegri. Ég nota ombar súkkulaði mjög mikið í bakstur en það fæst t.d. í nettó. Það er laust við unna sætu, mjólkurvörur og glúten – mjög hreint og gott.

-Anna Guðný

You Might Also Like

1 Comment

 • Reply Helga Maria 16. júní, 2017 at 19:21

  Vá þessar líta ekkert smá vel út! Hlakka til að smakka 😄

 • Leave a Reply