Njóttu Góðgætis

Jólabomban í ár

13. desember, 2017

Ég hef aldrei það sama í eftirrétt um jólin heldur er ég alltaf að prufa eitthvað nýtt. Að þessu sinni langaði mig í góða hráköku sem að væri algjör sælgætisbomba því að það er nú einu sinni jólin. Útkoman var vonum framar, en kakan bragðast dásamlega. Ef að ég gæti leyft þér að smakka í gegnum skjáinn myndi ég klárlega gera það, því þú verður að smakka þessa dásamlegu köku. Ég veit að hún mun slá í gegn hjá öllum þeim sem smakka hana, sama hvernig mataræði fólk er á. Karamella&jarðaber passa svo vel saman með vanillulaginu og haframjöls’’crumble’’-ið setur algjörlega punktinn yfir i-ið. Ég gerði kökuna í lítið form (15cm í þvermál) en það er ekkert mál að stækka uppskriftina ef að þú ætlar að gera hana fyrir fleiri en 4.

Ég mæli með að þú lesir aðferðarlýsinguna í þessari uppskrift. 

Jólabomban 2017                                                                                         fyrir 4

Botn

 • 100g haframjöl
 • 2 msk kókospálmasykur
 • 3 döðlur
 • 3 msk bráðin kókosolía
 • gróft salt
 1. Byrjaðu á því að setja plastfilmu eða bökunarpappír í formið sem þú ætlar að nota fyrir kökuna.
 2. Næst skalt þú setja öll innihaldsefni botnsins saman í matvinnsluvél. Settu blönduna svo í botninn á forminu og þjappaðu aðeins niður, en alls ekki of mikið samt. Settu þetta síðan í frysti.
 3. Skerðu niður fersk jarðaber og settu á botninn þegar að hann er orðinn frosinn. Settu þetta síðan aftur í frysti.

Vanillulag

 • Þykkni úr 1 dós af kókosmjólk, fryst í 2 klst fyrir notkun
 • 70g kasjúhnetur, lagðar í bleyti í 2-3 klst
 • 2 msk kókosolía
 • 3 msk hlynsíróp
 • 1 msk kakósmjör
 • ½ tsk vanilluduft
 • ¼ tsk salt

Því næst skalt þú gera vanillublönduna með því að setja öll innihaldsefnin saman í blandara. Blandaðu vel og lengi. Þegar að blandan er orðin silkimjúk hellir þú henni á botninn og setur kökuna aftur í frysti.

Karmellusósa

 • 50 g kókosolía
 • 40 g kókospálmasykur
 • 100 ml milkadamiamjólk, ósæt (eða önnur plöntumjólk)
 • 1/4 tsk vanilluduft
 • 1/6 tsk salt

Settu öll innihaldsefnin saman í pott á lágum hita og leyfðu þessu að bráðna öllu saman. Hækkaðu aðeins hitann og leyfðu þessu að malla í svolitla stund. Hrærðu reglulega í sósunni svo hún brenni ekki við. Leyfðu sósunni svo að kólna og verða við herbergishita.

Áður en að þú setur karamellusósuna á kökuna er mikilvægt að kakan sé ekki of köld því að þá skilur karamellan sig þegar að hún snertir kökuna. Ég mæli með að þú látir kökuna standa í 40-60 mínútur áður en þú setur karamelluna á hana og prufir fyrst að setja smá karamellu áður en þú setur hana alla á til að sjá hvernig hún verður þegar hún kólnar á kökunni. Síðan myndi ég setja kökuna aðeins aftur í frysti áður en þú berð hana fram ef að hún hefur þiðnað of mikið. Kakan verður svo í fínu lagi eftir það.

Ég bar síðan kökuna fram með ristuðum heslihnetum sem að fullkomnuðu þetta alveg.

             Þessi færsla er unnin í samstarfi við heilsu. 

You Might Also Like

No Comments

Leave a Reply