Þessa köku er ég búin að vera með í huganum lengi og ákvað ég loksins að láta verkin tala og útbúa þessa dásemd. Ég skil ekki afhverju ég gerði það ekki fyrr því að hún var svo ótrúlega auðveld í framkvæmd og bragðast stórfenglega. Það sem að ég er ánægðust með í þessari uppskrift minni er að hún er aðallega sætt með döðlum. Það gerir stórkostlegt karamellubragð og áferðin á kökunni er svo fullkomin, hún er alveg silkimjúk. Kexbotninn passar svo fullkomlega á móti karamellunni. Hann dregur kökuna aðeins niður á jörðina að mínu mati og leyfir karamellubragðinu að njóta sín.
Það sem að er svo frábært við svona kökur er að þú getur útbúið þær löngu áður en þú ætlar að njóta þeirra því að þær geymast í frysti. Tilvalið ef maður er að fara að halda matarboð eða veislu og maður vill flýta fyrir sér. Ég hef reyndar ekki hugmynd um hvað svona kaka geymist lengur í frysti, þær klárast alltaf svo fljótt á þessu heimili. En ef þær eru í góðu loftþéttu íláti þá ættu þær alveg að geymast í dágóðan tíma myndi ég halda.
Karamellubomba
Botn
- 100g heslihnetur, ristaðar
- 4 dl haframjöl, malað
- 1/2 dl kókosolía
- 2 msk möndusmjör
- 3 msk kókospálmasykur
- 1/3 tsk vanilluduft
- 1/4 tsk gróft salt
- Byrjaðu á því að setja heslihneturnar í ofninn við 150°c í 12 mínútur
- Malaðu síðan haframjölið í blandara/matvinnsluvél þar til það er orðið að mjöli.
- Blandaðu síðan öllum hráefnunum saman í matvinnsluvél.
- Settu bökunarpappír í formið, síðan setur þú botninn og bara rétt klappar á hann. Alls ekki þjappa honum of fast niður en samt aðeins svo að hann verði ekki of laus í sér.
- Settu botninn í frystinn meðan að þú útbýrð karamellulagið.T
Karamellulag
- Þykkni úr 1 kókosmjólk
- 1,5 dl fínt hnetusmjör
- 100g döðlur sem legið hafa í bleyti
- 1/2 tsk vanilluduft
- 1 dl kókosolía, fljótandi
- 1/2 tsk gróft salt
- Til þess að ná þykkninu úr kókosmjólkinni hefur reynst mér best að hafa hana í kæli yfir nótt eða í frysti í 2-3 klst. Þá ætti þykki parturinn að skilja sig frá kókosvatninu.
ATH! ekki henda kókosvatninu í vasinn, það er frábært að nýta það í þeytinga. - Best er að láta döðlurnar liggja í bleyti yfir nótt, ef þú nærð því ekki þá máttu setja sjóðandi vatn yfir þær í 20-30 mínútur.
- Skelltu öllum hráefnunum saman í matvinnsluvél og láttu þetta vinna eins lengi og þú hefur þolinmæði fyrir. Þetta á að vera alveg silkimjúkt.
- ATH! Taktu 2,5 msk af karamellulaginu og legðu til hliðar, þú þarft að nota það í súkkulaðilagið.
- Taktu botninn úr frystinum, settu karamellulagið á og settu kökuna aftur í frystirinn.
Súkkulaðilag
- 2,5 msk af karamellulaginu
- 60g kókosþykkni
- 40 ml döðlusíróp
- 1/2 dl kakó
- 1/2 dl kókosolía
- 1/4 tsk gróft salt
- Settu öll hráefnin saman í matvinnsluvél og láttu hana vinna þar til að þetta verður silkimjúkt. Ég hvet þig til að smakka til súkkulaðilagið og aðlaga það þínum bragðlaukum. Ef þú vilt bæta við meiri af döðlusírópi eða kakói þá gerir þú það.
- Taktu kökuna úr frystinum og bættu súkkulaðilaginu við. Settu hana síðan aftur í frysti.
- Þegar að þú ætlar að bjóða upp á kökuna mæli ég með að láta hana standa þangað til að þú getur auðveldlega skorið hana. Þessi kaka er langbest þegar að maður fær að njóta karamellunar þegar hún er orðin silkimjúk.
2 Comments
Hæ. Girnileg uppskrift. Í súkkulaðiþykknið ertu þá aftur að nota þykka partinn úr kókosmjólkinni – þarf þá tvær dósir?
Hæhæ, takk fyrir 🙂 Já það passar!