Njóttu Hádegis- og Kvöldmatar

Innbökuð sveppasteik

Jólin snúast aðallega um að borða góðan mat hjá mér og hefur það verið þannig síðan ég man eftir mér. Ég hef alltaf verið gríðarlega matsár og ég man það eins og það hafi gerst í gær þegar að ég var u.þ.b. 12 ára með ælupest um jólin og gat ekkert borðað. Síðan þá hefur matseðill og innihaldsefni jólamáltíðarinnar gjörbreyst á mjög jákvæðan hátt. Þó að ég borði plöntumiðaða og hreina fæðu í dag er jólamaturinn og öll jólin umvafin góðum mat. Eftir að ég varð vegan finnst mér mjög gaman að uppgötva hvað er hægt að gera góðan mat á hollan máta án þess að dýr og afurðir þeirra komi við sögu. Ef ég á að vera alveg hreinskilin þá hef ég aldrei borðað eins góðan mat og uppgötvað jafn mikið af skemmtilegum brögðum og núna. Svo ég tali nú ekki um hvað það er yndislegt að þurfa ekki að borga fyrir þennan góða mat með verkjum né vanlíðan.

Á jólunum í fyrra útbjó kærasti minn ótrúlega góða innbakaða sveppasteik sem að við borðuðum á aðfangadagskvöld. Við klikkuðum á því að skrifa niður uppskrift þá en ákváðum að endurgera hana í sameiningu núna til þess að geta deilt með ykkur uppskrift. Það heppnaðist mjög vel og getum við því glöð deilt með ykkur ómótstæðilegri uppskrift.

Innbökuð sveppasteik

Sveppasteikin

 • 100 g ristaðar heslihnetur
 • 200 g portobellosveppir
 • 230 g laukur
 • 1 msk dijon sinnep
 • 1 bolli hýðishrísgrjón
 • 1 dl þurrkaðir furusveppir
 • Ferskt rósmarín
 • Ferskt timían
 • 2 msk tamari sósa
 • salt og pipar
 1. Byrjaðu á því að rista heslihnetur í ofni við 150°C í 10-15 mín. Nuddaðu svo hýðið af þeim þegar að þær hafa kólnað.
 2. Næst skalt þú sjóða hýðishrísgrjónin í einum potti og furusveppi í hinum pottinum. Gott er að láta hrísgrjónin svo kólna.
 3. Skerðu portobellosveppina niður í sneiðar, settu svo í mót með ólífuolíu og salti. Sett í ofn við 180°C á undir&yfir hita í 15-20 mín.
 4. Steiktu svo laukinn í litlum potti upp úr ólífuolíu og salti.
 5. Taktu nú upp matvinnsluvélina og blandaðu saman heslihnetunum, 1/2 af hýðishrísgrjónunum, 1/2 af eldaða lauknum, furusveppunum, sinnepi, tamari, slatta af fersku rósmarín og slatta af fersku timían. Gott er að smakka rósmarínið og timíanið til.
 6. Settu þetta svo í stóra skál og bættu portobellosveppunum, hinum 1/2 af hýðishrísgrjónunum, hinum 1/2 af eldaða lauknum. Hrærðu þessu saman með góðri sleif. Smakkaðu til með salti og pipar.
 7. Þegar að þetta er blandað vel saman setur þú deigið á bökunarplötu og mótar þetta í hleif. Bakaðu þetta svo við 180°C í 30-40 mín eða þar til að falleg skorpa hefur myndast.
 8. Leyfðu sveppasteikinni að kólna áður en þú setur hana í smjördeigið.

Smjördeigið

Smjördeigið var keypt út í búð frá merkinu Findus og er smjörlíki í því og er það þ.a.l. vegan. Mig langaði mikið að stúdera glútenlaust smjördeig en það verður að bíða betri tíma. Sjálf reyni ég að sniðganga glúten alveg en ég ætla samt að leyfa mér það um jólin í þessari uppskrift. Ef að þú þolir glúten alls ekki þá er sveppasteikin mjög góð ein og sér, smjördeigið setur hana bara í sparilegri búning.

Aðferð: Taktu 3 plötur af smjördeiginu og settur þær ofan á bökunarpappír. Púslaðu þeim saman svo að þær verði að einni stórri plötu. Gott er að láta brúnirnar fara aðeins yfir hvor aðra og fletja deigið út með kökukefli. Það má teygjast alveg svo að hægt sé að koma sveppasteikinni fyrir. Komdu svo sveppasteikinni fyrir og pakkaðu henni inn í deigið. Penslaðu hana svo með eftirfarandi gljáa:

Gljái

 • 3 msk kjúklingabaunasafi
 • 2 tsk olía
 • 1 tsk hlynsíróp
 • 2 msk plöntumjólk
 1. Rétt hrærðu þessu saman í bolla með gaffli og penslaðu þessu yfir deigið. Smart er að skera línur ská yfir deigið með litlum hníf.
 2. Komdu svo smjördeigsþakinni sveppasteikinni fyrir á bökunarplötu og bakaðu í ofni við 180°C. Gott er að opna ofninn 2x og pennsla smjördeigið með gljáanum. Bakaðu þar til að smjördeigið er fallega gullinbrúnt.

Ég mæli ótrúlega mikið með þessari dásemd hvort sem það er á aðfangadags- eða gamlárskvöld og passar steikin vel með hefðbundnu jólameðlæti. Ég mæli með að þú njótir hvers bita og borðir hægt og rólega. Jólin eiga ekki að snúast um að borða 5x meira en venjulega og að geta varla staðið upp eftir matinn vegna þess að maður er svo saddur.

Ef mikill afgangur verður af steikinni er alltaf hægt að frysta hann og eiga til að njóta seinna.

Njóttu,

-Anna Guðný

You Might Also Like

9 Comments

 • Reply Kristrún 7. desember, 2018 at 15:55

  Hlakka til að prófa þessa uppskrift 🙂

 • Reply Theodóra 16. desember, 2018 at 18:12

  Hlakka til að smakka! Hvað dugir þessi uppskrift fyrir marga?

  • Reply heilsaogvellidan 17. desember, 2018 at 15:08

   Hún er fyrir alveg 4 manns myndi ég giska á ef maður miðar við að hver fær sér 2 sneiðar 🙂

   • Reply Áslaug 23. desember, 2018 at 16:56

    er ég að skilja þetta rétt, bakar þú herlegheitin í 30-40 mín, kælir og setur svo í deigið og bakar þá aftur

 • Reply Daria 18. apríl, 2019 at 15:41

  Hæhæ, hlakka svo til að prófa. Takk fyrir að deila þessari uppskrift.
  Ég er með eina spurningu, er hægt að nota eitthvað annað í staðinn fyrir furusveppina?

  • Reply heilsaogvellidan 18. apríl, 2019 at 16:34

   Yndislegt að heyra, mín er ánægjan 🙂 Já það er ekkert mál að sleppa þeim alveg eða setja aðra þurrkaða sveppi í staðin.

 • Reply Sólveig Ösp 20. desember, 2019 at 12:46

  Hæhæ Anna.
  Virkilega girnleg uppskrift og ætla klárlega að prófa hana, takk 🙂 en þar sem ég er mikil sósu kona, hvaða sósu myndir þú mæla með ?

  • Reply heilsaogvellidan 21. desember, 2019 at 23:51

   Sæl elsku Sólveig,

   Takk kærlega fyrir það 🙂 Sko ég er vön að vera algjör sveppasósuelskandi og er það alltaf mín go-to sósa. En þar sem þetta er sveppawellington þá myndi ég mæla með að gera einhverskonar rauðvínssósu. Við bulluðum bara eitthvað í fyrra og það kom ótrúlega vel út. Annars er hægt að googla ,,red wine gravy” til að fá hugmyndir 🙂

  Leave a Reply