Þessi uppskrift sýnir það og sannar að einfaldleikinn er alltaf bestur. En í þetta sinn þá gerði ég ótrúlega bragðgóða polentu sem ég bar fram með bökuðu eggaldin, klettasalati, rósmarín, granatepli og sýrðum kasjúrjóma. Ég er búin að vera á leiðinni að blogga um þessa uppskrift í nokkra mánuði en þetta er í miklu uppáhaldi hjá mér þessa daganna og þá sérstaklega þessi samsetning. Það tekur enga stund að útbúa þessa máltíð og þarf maður ekki mörg innihaldsefni í verkið.
En polenta er í raun ítalskur réttur þar sem að gróft maísmjöl er látið sjóða í potti þar til að það verður að hálfgerðum graut. Lykilatriði er að hræra vel og lengi svo að það myndist ekki kekkir. Ég bragðbætti polentuna með bæði hvítlauk, hvítvínsediki og næringargeri sem kom ótrúlega vel út. En næringarger er ómissandi í þessa uppskrift – það gefur polentunni mjög gott ”osta”bragð.
Byrjaðu á því að baka eggaldin í ofni á frekar háum hita. Þú skerð eggaldinið niður í 4 jafna báta, nuddar þá aðeins með ólífuolíu og saltar aðeins. Lætur svo hýðið snúa niður, bakar í forhituðum ofni við undir&yfir-hita á 220°C þar til að þú sérð að það er tilbúið.
Polenta
- 100g polenta
- 7 dl vatn
- 6 msk næringarger
- 1,5 tsk gróft salt
- 1-2 hvítlauksrif (smakkaðu til)
- 1 tsk ólífuolía
- 1 tsk hvítvínsedik
- Byrjaðu á því að láta vatnið ná suðu og bættu svo salti og olíunni út í.
- Næst hrærir þú polentunni rólega saman við í nokkrum skömmtum með píski. Ekki fara frá eldavélinni og hrærðu stöðugt í 2-3 mínútur.
- Skelltu síðan hinum innihaldsefnunum saman við og hrærðu áfram þar til kekkjalaus.
Berðu svo fram með ofnbökuðu eggaldini, fersku klettasalat, granatepli, sýrðum kasjúrjóma, smáttskornu fersku rósmarín.
Þessi færsla er unnin í samstarfi við heilsu.
No Comments