Njóttu Hádegis- og Kvöldmatar

Einföld og bragðgóð blómkálssúpa

15. febrúar, 2017

Ein af bestu leiðunum til að koma grænmeti inn í mataræðið er að útbúa reglulega hollar og góðar grænmetissúpur. Það þarf alls ekki að vera flókið að gera bragðgóða og saðsama súpu. Ég hef komist að því að stundum er gott að krydda sem minnst og láta frekar saltið um að draga bragðið af grænmetinu sem er í súpunni betur fram og leyfa því að njóta sín. Ég er aðeins farin að læra að maður þarf kannski ekki alltaf að sturta 7 mismunandi kryddum í súpuna til að hún verði góð.

Þessi blómkálssúpa er ótrúlega góð og er mjög einfalt að útbúa hana. Hún er silkimjúk og verða allir hneykslaðir að heyra að hún innihaldi ekki neinar mjólkurvörur. Það er svo ótrúlega gaman að uppgötva hvað grænmeti býr yfir mögnuðum eiginleikum. Eins og t.d. í þessari uppskrift að sjá hvað blómkálið verður silkimjúkt þegar að maður blandar það.

Blómkálssúpa                                                                    fyrir 3-4

 • 2 msk kókosolía
 • 150g laukur
 • 1 hvítlauksrif
 • 1 blómkálshaus (640g)
 • 1,2 l vatn
 • 1 msk grænmetiskraftur
 • 5 tsk gróft salt
 • smá pipar
 1. Best er að byrja á að skera laukinn og blómkálið niður. Taktu 1/5 af niðurskorna blómkálinu og geymdu til hliðar þangað til í restina.
 2. Byrjaðu á því að svissa laukinn upp úr kókosolíunni og þegar að laukurinn er byrjaður að brúnast bætir þú niðurskornu blómkálinu við.
 3. Næst bætir þú hvítlauknum og vatninu saman við. Láttu þetta malla í 30 mín.
 4. Best er að mauka súpuna í tveimur skömmtum. Ég maukaði hana í blandara og er mikilvægt að hafa ekki miðjulokið á blandaranum á meðan að þú maukar súpuna. Í staðin heldur þú viskastykki laust yfir opið en passar samt að það lofti. Þetta gerir maður til að koma í veg fyrir að það verði blómkálsgos í eldhúsinu en það gerist ef að maður loftar ekki svona um. En þú getur líka maukað súpuna í matvinnsluvél eða með töfrasprota.
 5. Blandaðu bara nógu lengi svo að súpan verði alveg silkimjúk.
 6. Skelltu súpunni síðan aftur í pottinn og bættu nú blómkálinu saman við sem þú geymdir til hliðar í byrjun.
 7. Alls ekki vera feimin/n að smakka súpuna til og aðlaga hana að þínum bragðlaukum. Settu nú saltið, piparinn og grænmetiskraftinn saman við. Ég mæli með að þú setjir saltið í skömmtum og smakkir súpuna til á milli.
 8. Láttu súpuna malla í ca. 10 mín í viðbót.

Ég legg mikið upp úr því að versla inn lífrænt eða innlent grænmeti á heimilið og er grænmetið í súpunni því allt lífrænt. Ég finn bæði bragð- og gæðamun á því og tel að það geri mér gott. Ég skipti mér ekki af því hvað aðrir gera, uppskriftin er hin sama hvort sem að hráefnið er lífrænt eða ekki.

Verði þér að góðu!

You Might Also Like

No Comments

Leave a Reply