Njóttu Hádegis- og Kvöldmatar

Graskers- og sætkartöflusúpa

Þegar kólna fer í veðri er alltaf gott að gera sér góða súpu til fá hita í kroppinn. Það er búið að kólna ansi hratt hjá okkur hérna í Århus og erum við strax búin að taka fram ullarsokka, vettlinga og húfur. Það er fyndið hvað maður heldur alltaf að allt sé betra annars staðar en á Íslandi en veturinn í Danmörku ekkert svo ósvipaður þeim íslenska og er jafnvel kaldari. Vetrartímabilið getur samt sem áður verið ansi huggulegt með kertaljósum, heitum súpum og bókalestri.

Kærasti minn, Snorri, er algjör snillingur í eldhúsinu og galdraði hann fram þessa bragðgóðu graskers- og sætkartöflusúpu fyrir mig á dögunum. Ég ætla að deila með þér þessari snilldar uppskrift sem er bæði fljótleg og einföld.

Graskers- og sætkartöflusúpa                                    Fyrir 3-4

  • 400 g grasker
  • 300 g sæt kartafla
  • 165 g laukur
  • 2 hvítlauksgeirar
  • 2 cm engifer
  • 1 tsk túmerikduft
  • 1/2 tsk cumin
  • 1/2 tsk kóríander
  • 800 ml vatn
  • 400 ml kókosmjólk
  • 2 tsk pipar
  • 2 tsk salt
  • 1 teningur kjúklingakraftur
  • safi úr 1/2 sítrónu
  1. Skerðu niður grasker, lauk og sæta kartöflu. Það skiptir ekki máli hvernig þú skerð niður grænmetið því þú munt mauka súpuna í blandara.
  2. Steiktu laukinn upp úr ólífuolíu í pottinum. Þegar hann er farin að brúnast skaltu bæta hvítlauksgeirunum, engiferi, túrmerikdufti, cumin og kóríander. Ásamt helmingnum af salti og pipar.
  3. Settu nú vatnið í pottinn ásamt graskerinu og sætu kartöflunni.
  4. Leyfðu þessu að malla saman í ca. 15 mínútur.
  5. Næst skaltu setja kókosmjólk, sítrónusafa, kjúklingakraft útí ásamt hinum helmingnum af saltinu og piparnum.
  6. Leyfðu nú þessu öllu að malla saman í 10 mínútur eða þangað til að sætu kartöflurnar og graskerið er orðið mjúkt.
  7. Taktu nú súpuna af hellunni og leyfðu henni að standa aðeins til að hún kólni áður en hún fer í blandarann.
  8. Þegar súpan er orðin frekar volg er hún maukuð í blandara. Ef þú vilt getur þú hitað hana upp aftur þegar búið er að mauka hana en mér finnst það ekki þurfa.

Ofan á

  • 1/2 dl Kókosflögur
  • 1/4 dl Graskersfræ
  • 1 msk Hunang
  • 1/2 tsk Fennel
  • 1/2 tsk Engifer
  • Ferskur Kóríander
  1. Settu kókosflögur, graskersfræ, hunang, fennel og engifer saman á bökunarpappír og ofan í eldfast mót.
  2. Bakaðu við 140°C í ca 10-15 mín.
  3. Taktu þetta úr ofninum og þegar þetta er búið að kólna skaltu rífa niður ferskan kóríander og bæta í blönduna.

Verði þér að góðu!

IMG_6229

You Might Also Like

No Comments

Leave a Reply