Hugsaðu

Yfirnóttu hafrar

Ég elska að fá mér hafragraut á köldum dögum og er hafragrautur alls ekki það sama og hafragrautur fyrir mér. Ég man þegar að ég var yngri að ég píndi oft ofan í mig hafragraut í morgunmat bara útaf því að ég vissi að hann væri hollur. Þá var hann bara hreinn með mjólk út á. En í dag þá líkist hann meira eftirrétti hjá mér, svo mikið nostra ég við hann. En hér finnur þú eina af mínum uppáhalds uppskriftum af hafragrauti.

Glútenlausir hafrar

Eitt haustið þegar að ég var í miklum grautarfíling, þá fór ég að taka eftir því að mér leið ekkert neitt svakalega vel eftir að hafa borðað hafragrautinn. Þar sem að ég vissi að glúten færi mjög illa í mig var ég búin að passa mig að kaupa alltaf glútenlausa hafra. En það er þó ekki glúten í haframjöli heldur er það oft unnið á sama stað og vörur sem innihalda glúten eins og t.d. hveiti. Þannig að þegar maður kaupir glútenlaust haframjöl þá er maður alveg pottþéttur á því að það séu engin smit af glúteni á því. Þetta er eitthvað sem að flestir þurfa ekki að hafa áhyggjur af nema að þeir séu hreinlega með glútenofnæmi eða glútenóþol. En þrátt fyrir að velja glútenlausa hafra leið mér ennþá ekki nógu vel eftir að hafa borðað hafragrautinn. Ég hafði séð að það var vinsælt að leggja hafra í bleyti en ég hafði aldrei nennt að prufa það en ákvað að byrja á því. Ég fann það mikinn mun á því að leggja hafrana í bleyti að í dag get ég ekki hugsað mér að fá mér hafragraut án þess að leggja hafrana í bleyti yfir nótt.

Þegar að lagt er í bleyti

Sú aðferð að leggja hafra í bleyti er alls ekki ný af nálinni en áður fyrr var t.d. tekið fram í leiðbeiningunum á haframjölspakkningum að það ætti að leggja hafrana í bleyti yfir nóttu. En hafrar líkt og aðrar kornvörur, belgjurtir og hnetur innihalda hátt hlutfall af fytinsýru. Þessi fytinsýra bindur sig við steinefni eins og t.d. magnesíum, kalk, kopar, járn og sink, sem gerir þau ómeltanleg fyrir líkamann. Hún hagar sér líka sem hindrun fyrir mikilvæg meltingarensím eins og pepsín, amýlasa og trypsín. Fæða sem inniheldur mikið magn af fytinsýru mun þ.a.l. draga úr næringarinnihaldi hennar. En regluleg neysla af ómeðhöndluðum kornvörum getur leitt til skorts á steinefnum, leka þarma, iðraólgu, fæðuoóþols, og meira að segja andlegra kvilla.

Hvernig fer maður að?

Ég viðurkenni það alveg að ég miklaði það mikið fyrir mér að leggja hafrana í bleyti á kvöldin. En það er samt svo lítil sem engin fyrirhöfn, eina sem maður þarf að gera er að muna eftir því. Best er að hafa það í rútínu eins og t.d. áður en maður fer að tannbursta sig eða þegar maður er að ganga frá eftir matinn á kvöldin. Ég set þá hafrana beint í pottinn, ca. helmingi meira af vatni á móti, salt og sítrónusafa, en sítrónusafinn á að ýta enn frekar undir niðurbrots fytinsýrunnar. Lykilatriði er að leyfa grautnum að standa við stofuhita yfir nóttina.

Kostir þess að leggja í bleyti

Með því að leggja hafrana í bleyti á kvöldin eru þeir bæði næringarríkari og auðmeltanlegri daginn eftir. Maður sparar sér mikinn tíma með því að leggja hafrana í bleyti á kvöldin og þarf maður lítið að gera annað en að rétt að hita grautinn upp áður en maður gæðir sér á honum daginn eftir. Þeir í raun ”elduðu” sig sjálfir meðan að þú svafst værum svefni yfir nóttina. Gott er að setja kókosolíu eða aðra fitu saman við grautinn þegar að maður eldar hann daginn eftir. En það er nauðsynlegt fyrir okkur að bæta fitu saman við hafragrautinn til að við getum tekið upp fiuleysanlegu vítamínin í höfrunum.

Þú getur síðan átt þessa útbleyttu hafra í tvo daga og átt þá tilbúna máltíð í ísskápnum til að gæða þér á t.d. fyrir æfingu eða jafnvel í hádegis eða morgunmat. Ef að þú ert ekki hrifin af hafragraut þá getur þú notað útbleyttu hafrana í þeytinga eða bætt þeim saman við chiagraut.

Ást og kærleikur,

Anna Guðný

You Might Also Like

No Comments

Leave a Reply