Hádegis- og Kvöldmatar

Vegan Risotto

Risotto er eitthvað sem ég hélt að væri fáranlega flókið og erfitt að útbúa. Það óx mér mikið í augum að prufa að gera það en svo er það bara ekkert mál! Það besta er auðvitað að það er fáranlega gott og algjört gúmmelaði. Þetta er eitthvað sem ég mun klárlega hafa í forrétt á aðfangadag eða jafnvel bara í aðalrétt á jóladag. Risotto er algjört gúmmelaði og fær það ekkert að finna fyrir því að það sé vegan. Það er nefnilega hægt að gera hvaða jólauppskrift sem er í vegan búning. Vöruúrvalið hér á landi er ótrúlega flott og er ég endalaust þakklát fyrir það.

Vegan Risotto

Uppskrift fyrir 2-3

  • 1 msk olía
  • 1/2 laukur
  • 4 hvítlauksgeirar
  • 250 g sveppir (ég notaði kastaníusveppi)
  • 1/2 grænmetiskraftur (1/2 msk) – má sleppa
  • 2 msk hvítvínsedik
  • 150 g risottogrjón
  • 750 ml vatn
  • 3 msk næringarger
  • 2 msk oatly rjómaostur
  • 1,5 dl frosnar grænar baunir
  • salt + pipar

Borið fram með fersku klettasalati og granateplum.

Aðferðarlýsing:

  1. Byrjaðu á því að mýkja laukinn og hvítlaukinn upp úr olíunni við vægan hita. Saltaðu eftir smekk.
  2. Bættu svo sveppunum við og leyfðu þeim aðeins að steikjast. Saltaðu aðeins meira.
  3. Næst bætir þú risottogrjónunum, öllu vatninu, grænmetiskraftinum, hvítvínsediki og næringargeri saman við.
  4. Leyfðu þessu að malla og hrærðu af og til í þessu svo þetta brenni ekki.
  5. Þegar að grjónin eru búin að drekka allan vökvan í sig þá er gott að bæta rjómaostinum og grænu baunum við rétt áður en þú berð þetta fram.
  6. Smakkaðu til með salti og pipar.
  7. Þegar að baunirnar eru orðnar heitar þá berð þú þetta fram.

Aðferðin við að útbúa Risotto er venjulega sú að bæta vökvanum við smá & smá í einu og hræra í allan tímann. Ég prufaði að gera það og svo prufaði ég aðra aðferð og setti allan vökvann í einu og leyfði því að malla en hrærði samt í því af og til. Það var miklu þægilegra og fann ég engan mun á bragði. En auðvitað notar hver og einn þá aðferð sem honum þykir best.

Ég vona að þessi uppskrift muni koma þér og þínum að góðum notum.

Njóttu aðventunnar í botn <3

You Might Also Like

No Comments

Leave a Reply