Sushi er alltaf hátt á vinsældarlistanum hjá mér og ef ég mætti ráða myndi ég borða það alla daga. En þegar að ég les á innihaldslýsingu á sushi á sushibökkunum er listinn ansi langur sem gerir það að verkum að ég fæ mér það ekki alla daga. Ég hef ekki lagt í það að búa það til sjálf heima en um daginn var ég með ótrúlega sterka löngun í sushi svo ég ákvað að útbúa svona einhverskonar sushiskál. Ég skil ekki af hverju ég er ekki löngu búin að uppgötva þessa máltíð því þetta er núna mín allra uppáhalds máltíð. Vá sko, þú verður að prufa! Það er ótrúlega einfalt og þægilegt að útbúa þessa máltíð og er vel hægt að nota afganginn (ef einhver er) í nesti daginn eftir.
Sushiskál
Það sem þú þarft
- Sætar kartöflur
- Edamame baunir
- Ferskt salsa; paprika og mangó
- Gúrka
- Avocado
- Sósa; Tamarisósa, engifer og sesamolía
- Salat
- Nori blöð
- Hýðishrísgrjón
- Vorlaukur
- Sesamfræ
Það sem þú gerir
- Byrjaðu á því að skella hýðishrísgrjónunum í pott, 2 bollar af vatni á móti 1 bolli af hrísgrjónum. Skerðu svo ferskan vorlauk saman við hýðishrísgrjónin þegar þau eru tilbúin og hafa kólnað.
- Bakaðu svo sætu kartöflurnar, skerðu þær í teninga, skvettu smá kókosolíu á þær og smá vatni og nuddaðu saman við þær. Saltaðu svo og pipraðu.
- Skerðu niður paprikuna og mangóið í litla teninga.
- Taktu edamame baunirnar úr frystinum, gott að sjóða vatn í katlinum og hella á þær til að þær þiðni.
- Næst er gott að útbúa dressinguna en hún samanstendur 3 msk af tamarisósu og 2 msk af sesamolíu og góður bita af fersku engifer í hvítlaukspressu.
- Ég yddaði gúrkuna bara að ganni með grænmetisyddara en það má að sjálfsögðu hafa hana bara niðurskorna með paprikuna og mangóinu ef þú átt ekki svona yddara til.
- Síðast skerð þú svo avocado niður og stráir yfir það sesamfræjum. Berðu þetta svo fram í fallegri skál eða hvernig sem þú vilt.
No Comments