Njóttu Góðgætis

Hindberjasæla

22. mars, 2019

Það er fátt skemmtilegra en að skella í góða hráköku sem að er bæði næringarrík og bragðgóð. En uppskriftin af þessari fallegu hráköku sem ég ætla að deila með þér núna er afskaplega einföld og þægileg í framkvæmd. Þessi dásamlega hindberjasæla er skemmtilega fersk á bragðið og mun bókstaflega leika við bragðlaukana þína. Það er ekki eftir neinu að bíða en að við vindum okkur í verkið!

Eins og alltaf þá mæli ég með að þú lesir aðferðarlýsinguna svo allt fari á sem bestan veg.

Hindberjasæla

Botn

 • 100 g heslihnetur
 • 100 g döðlur
 • 2 msk kókosolía, brædd
 • 5 msk möndlusmjör
 • 3 msk kakó
 • 6 msk kókosmjöl
 • gróft salt
 1. Byrjaðu á því að rista heslihneturnar í ofni við 150°C á blæstri í 15 mín. Nuddaðu svo hýðið af þeim þegar að þær hafa kólnað.
 2. Ef að döðlurnar eru mjög harðar er gott að setja þær í bleyti – þó það sé ekki bara á meðan að heslihneturnar eru að verða klárar.
 3. Næst lætur þú kókosolíukrukkuna undir heita bunu af vatni í vaskinum til þess að hún bráðni.
 4. Settu svö öll innihaldsefnin saman í matvinnsluvél og láttu hana vinna þar til að fallegur botn hefur myndast.
 5. Settu bökunarpappír í form og þjappaðu svo botninum sæmilega vel niður í hann. Settu hann í frysti á meðan að þú gerir hindberjalagið.

Hindberjalag

 • 250 g kasjúhnetur (betra ef lagðar í bleyti)
 • 240 g kókosþykkni (þykki parturinn af kókosmjólk)
 • 320 g frosin hindber – látin þiðna
 • 1/4 dl kókosolía, brædd
 • 1/2 dl hlynsíróp
 • 1/2 tsk vanilluduft
 • gróft salt
 1. Best er að láta kasjúhneturnar í bleyti yfir nótt – þannig verða þær auðmeltanlegri ásamt því að það verður auðveldara að blanda þær.
 2. Ef þú ert að nota frosin hindber skalt þú dreifa vel úr þeim á stóran disk til þess að þær þiðni á skjótan máta. En mikilvægt er að þau séu þiðin áður en að þú blandar öllu saman.
 3. Láttu kókosolíukrukkuna undir heita bunu af vatni í vaskinum til þess að hún bráðni.
 4. Skelltu öllum innihaldsefnunum saman í blandara og láttu vinna þar til að blandan er silkimjúk. Blandaðu lengur en þú heldur að þú þurfir.
 5. Ef að þú átt ekki góðan blandara þá er gott að láta blautefnin vinna fyrst vel saman og bæta kasjúhnetunum saman við í nokkrum skömmtum.
 6. Helltu hindberjalaginu yfir botninn og frystu aftur.

Leyfðu kökunni svo að vera í frysti í 3-4 klst áður en þú skerð hana í sneiðar og frystir hana í loftþéttu gleríláti.

Ég skreytti kökuna með súkkulaði og karamellu en það er þó alls ekki nauðsynlegt. Súkkulaðið er einfalt, það er gert í hlutföllunum 1 kakó:1 kókosolía:1/2 döðlusíróp. Karamellan er í hlutföllunum 1 möndlusmjör:1kókosolía:1 kókosþykkni:1/2 döðlusíróp. Ég gerði lítinn skammt af hvoru og hrærði þessu bara saman í lítinn bolla með litlum písk.

Best finnst mér þegar að kakan hefur fengið að standa aðeins og auðvelt er að renna skeið í gegnum hana.

Svona hrákökur innihalda vissulega slatta af hitaeiningum en ég mæli aldrei með að bera saman fæðu á hitaeiningunum. Það eru innihaldsefnin sem skipta máli og þegar að þau eru gæðamikil og næringarrík þá er maður í góðum málum. Og það sem er skemmtilegast við hrákökur er að verða í alvörunni saddur eftir eina sneið og upplifa ekki þá sterku tilfinningu að þurfa að fá meira & meira eins og gerist gjarnan þegar maður gæðir sér á köku sem inniheldur bæði unninn sykur og önnur unninn hráefni. Það er því ómögulegt að borða yfir sig af þessari köku. En eitt er þó gott að muna að svona kaka er vissulega gógðæti og ekki hægt að skilgreina hana sem holla, því er mikilvægt að njóta hvers bita fyrir sig í botn.

               Þessi færsla er unnin í samstarfi við heilsu.

You Might Also Like

No Comments

Leave a Reply