Njóttu Góðgætis

Súkkulaðihúðaðar unaðskúlur

Það er snilld að eiga næringarríkar og gómsætar kúlur í ísskápnum til þess að grípa með í bíltúrinn, á leikvöllinn eða í lautarferðina. Það er mjög einfalt að útbúa svona kúlur og aðalinnihaldið sem þarf er ÁST. Það er nefnilega svo mikil ást í því að útbúa næringarríka fæðu frá grunni og er þetta klárlega mín uppáhaldshugleiðsla; að vera í rólegheitunum í eldhúsinu að nostra við skemmtileg hráefni svo úr verði töfrandi góðgæti.

Í samstarfi við veganbúðina ætla ég að deila með þér súkkulaðihúðuðum unaðskúlum sem að eru bæði næringarríkar og heilsubætandi. Súkkulaðið sem að ég húðaði kúlurnar með fæst í veganbúðinni og er þetta mitt allra uppáhaldssúkkulaði. Það inniheldur engan unninn sykur og er mjög hreint. Það er upplagt að nota það í bakstur, til að húða með eða einfaldlega að bræða það og gera eitthvað skemmtilegt konfekt í form. Aðaluppistaðan í þessum kúlum eru ferskar döðlur sem að er hægt að kaupa í stykkjatali í veganbúðinni, ég mæli eindreigið með að allir geri sér ferð í veganbúðina og sjái hversu fallega sú búð hefur stækkað. En nú er hægt að kaupa ferkst grænmeti og ávexti þar án allra umbúða.

Súkkulaðihúðaðar unaðskúlur

  • 300 g ferskar döðlur
  • 1 dl heslihnetusmjör
  • 300 g kasjúhnetur, ristaðar
  • 150 g möndlur, ristaðar
  • 1/2 dl vatn
  • 3 msk acaí duft
  • Örlítið gróft salt
  • Hu súkkulaði til að húða með
  1. Byrjaðu á því að setja kasjúhnetur og möndlur inn í ofn á 150°C á undir og yfir hita. Taktu þetta úr ofninum og láttu kólna þegar að þetta er orðið ristað.
  2. Næst skalt þú steinhreinsa döðlurnar ef að þær innihalda steina, ég notaði s.s. 300 g af döðlum sem ég vigtaði eftir að ég steinhreinsaði þær.
  3. Því næst skalt þú skella öllum hráefnunum í matvinnsluvél og láta matvinnsluvélina vinna þar til að fallegt deig hefur myndast. Ef að þetta er ekki að vinna nógu vel saman þá getur þú sett örlítið meira af vatni eða smá kókosolíu.
  4. Mótaðu deigið í kúlur með höndunum og kældu þær í ísskápnum eða frysti.
  5. Þegar að kúlurnar eru orðnar ískaldar mátt þú bræða súkkulaðið. Þú getur bragðbætt súkkulaðið með vanilludufti, kainill, cayenne eða bara haft það eins og það er.
  6. Því næst húðar þú kúlurnar með súkkulaði og leyfir súkkulaðinu að harðna á þeim.
  7. Geymdu kúlurnar í loftþéttu íláti annaðhvort í frysti eða ísskáp

Það er mjög sniðugt að troða allskonar ofurfæðu í kúlur sem þessar. Maður finnur ekkert fyrir því bragðlega séð en svona getur maður náð að dekra enn betur við kroppinn sinn með heilsubætandi hráefnum. Ég ákvað að setja acaí duft í þessar til og það hafði engin áhrif á bragðið. Acaí hefur verið svolítið í tísku núna enda algjör ofurfæða. Acaí berin innihalda mikið magn af andoxunarefnum og hafa jákvæð áhrif á húðina, heilastarfsemi og blóðrásina. Acaí duftið frá Kiki Health er mjög hreint og lítið unnið, það skiptir máli að velja vel þegar að maður kaupir Acaí því að það getur verið stútfullt af sykri og öðrum óæskilegum efnum. Acaí er því alls ekki það sama og Acaí 🙂

Ég skora á þig að útbúa þessar kúlur og endilega notaðu þau hráefni sem að þú átt til í eldhúsinu heima hjá þér. Þetta er nefnilega mjög einfalt og maður þarf alls ekki mörg hráefni til þess að skapa gómsætar kúlur eins og þessar sem að eru tilvaldar fyrir unga sem aldna.

Þessi færsla er í samstarfi við veganbúðina en þeirri búð mæli ég með af öllu mínu hjarta.

You Might Also Like

No Comments

Leave a Reply