Njóttu Hádegis- og Kvöldmatar

Tælensk kókossúpa

Þessi dásamlega tælenska súpa er algjört sælgæti og er ég búin að gera hana vandræðalega oft núna á mjög stuttum tíma. Ég varð því að skrifa niður uppskrift og deila með þér svo þú getur notið góðs af þessari vermandi og kraftmiklu súpu.

Ég var alls ekki að finna upp þessa súpu en hún er betur þekkt sem Tom Kha Gai. Þá er hún með kjúklingi en ,,Gai” þýðir kjúklingur. Einnig inniheldur hún alltaf galangal rót og límónulauf sem hvoru tveggja fæst í tælenskum búðum. Þar sem ég vildi ekki gera þetta of flókna súpu ákvað ég að sleppa þessum tveimur innihaldsefnum og nota í staðin engiferrót og meira af límónusafa sem fæst í öllum stórmörkuðum. Einnig inniheldur hún sítrónugras sem er að mínu mati algjört lykilatriði í súpuna en það fæst m.a. í Krónunni og Nettó.

Ég er nýfarin að elska tófu og fannst mér það passa mjög vel í þessa súpu. En það má alveg sleppa því ef þú fýlar það ekki, það er alveg bragðlaust og gefur súpunni þannig séð ekkert bragð. En það gefur henni vissulega meiri fyllingu og næringu.

Tælensk kókossúpa

Uppskrift fyrir 3 manns.
  • 100 g laukur
  • 200 g gulrætur
  • 150 g sveppir
  • 1 rauð paprika
  • 1/3 ferskur chilli
  • Börkur af 1 lífr. límónu
  • Safi úr 1/2 límónu
  • 1 stk sítrónugras
  • Ferskt lífr. engifer; skorið í 4 þunnar sneiðar
  • 2 msk tamari sósa
  • 1 tsk gróft salt
  • 800 ml (2 dósir) kókosmjólk
  • 1/2 tofusneið (ca. 125 g)
  • Ferskur kóríander
  1. Byrjaðu á því að vefja tófúkubbinum í viskastykki og settu eitthvað sæmilega þungt á hann til þess að ná vatninu úr honum.
  2. Svo mátt þú demba þér í að svita lauk í potti með smá vatni og salti.
  3. Næst skalt þú bæta við engiferi, chilli, sítrónugrasi, límónubörk, límónusafa og tamarisósu. Bættu kókosmjólkinni strax við og leyfðu þessu að malla í 10 mínútur.
  4. Á meðan er gott að útbúa tófúið. Skerðu það í litla teninga og settu það í ofninn við 180°C á undir&yfir hita til þess að ná sem mestu af vatninu úr því. Ef það er alveg þurrt þá getur þú sleppt þessu skrefi. Bættu því svo út í súpuna.
  5. Smakkaðu súpuna til og sjáðu hvort þig langi að hafa meira chilli eða engifer í henni. Aðlagaðu bragðið að þínum bragðlaukum.
  6. Næst skalt þú bæta sveppunum og gulrótunum út í pottinn. Þegar að þessi hráefni eru elduð má paprikan fara út í pottinn líka. Saltaðu. Leyfðu þessu að malla aðeins áfram.
  7. Fjarlægðu svo engiferið og sítrónugrasið úr súpunni áður en þú berð hana fram.
  8. Berðu súpuna svo fram með ferskum kóríander. Ef fólk vill hafa hana sterkari þá má bæta ferskum chilli út í.

Það sem ég elska við þessa súpu er að krafturinn og bragðið í henni kemur allt úr ferskum hráefnum eins og chilli, sítrónugrasi, engiferi, kóríander, límónu og grænmeti. Ef að þú ert að vinna bug á einhverri flensu eða slappleika, þá er þessi súpa algjörlega tilvalin. Hún inniheldur hráefni á borð við engifer og chilli sem rífa passlega vel í. Engiferrótin er mjög góð fyrir meltinguna, bólgueyðandi, góð við kvefi, vinnur á ógleði og er hreinsandi. Alls ekki vera feimin að gera góðan skammt af þessari uppskrift því að súpan er enn betri daginn eftir. Uppskriftin er passleg fyrir 3 manns í eina máltíð.

Megi þessi uppskrift koma þér að góðum notum, njóttu bæði vel og lengi!
Ást frá mér til þín,
Anna Guðný

You Might Also Like

No Comments

Leave a Reply