Það er ennþá að koma mér á óvart hvað það er hægt að útbúa mikið af gúmmelaði á eigin máta úr flottu hráefni. En eftir að vegan magnum kom til landsins þá varð ég að finna út hvernig ég gæti gert mína eigin lúxus-íspinna. Þó að vegan magnum ísinn sé ekkert eðlilega góður (og ég tek komu hans til landsins fagnandi) að þá vil ég helst ekki vera að borða mikið af honum þar sem að hann inniheldur mikið af unnum hráefnum og þ.á.m. unnum sykri sem fer hvorki vel í mig andlega né líkamlega. Eftir nokkrar tilraunir í eldhúsinu þá er ég komin með uppskrift sem að ég er mjög ánægð með og get glöð deilt með þér. En hér er ég með mjólkurlausan ”rjóma”ís með karamellu og stökku súkkulaði – og þó ég segi sjálf frá, þá er þetta algjör bomba!
Lúxus íspinnar
Ísgrunnur
- 100g kasjúhnetur, lagðar í bleyti
- 200g kókosþykkni (þykki parturinn af kókosmjólk í dós)
- 3 msk hlynsíróp
- 1 tsk vanilluduft
- 1 msk kókosolía
- 1/2 tsk gróft salt
- Byrjaðu á því að leggja kasjúhneturnar í bleyti. Best er að leggja þær í bleyti yfir nóttu en ef þú ert óþolinmóð/ur þá er hægt að sjóða vatn og skella yfir þær í 20 mínútur.
- Til þess að geta nálgast þykka hlutan af kókosmjólkinni er best að skella dósinni í ísskáp yfir nótt eða inn í frysti í klst.
- Helltu vatninu af kasjúhnetunum og skelltu þeim í blandarann með restinni af innihaldsefnunum.
- Settu blönduna í íspinnaform og settu þau svo inn í frysti.
Ég keypti þessi fallegu íspinnaform í vefversluninni mistur.is og er ég virkilega ánægð með þau. Þetta er einstaklega falleg og gæðamikil vara sem mér þykir afar vænt um. Best er að geta skellt íspinnaspítum í ísinn þannig að maður getur tekið ísinn úr forminu, skellt í stórt loftþétt glerílát og þess vegna gert nýja bragðtegund. Þetta form er einnig mjög góð plastlaus lausnir, flest íspinnaform eru úr plasti og ef maður kaupir sér íspinna út í búð þá er hann einnig í plastumbúðum og jafnvel er íspinnaprikið úr plasti líka.
Karamellan
- 50 g döðlur
- 1 dl milkadamia mjólk, ósæt
- 1 dl möndlusmjör
- 3/4 dl kókospálmasykur
- 1/2 tsk gróft salt
- 1/2 tsk vanilluduft
- Settu öll innihaldsefnin í pott við lágan hita og hrærðu rólega í þessu á meðan þetta er aðeins að malla.
- Þegar að döðlurnar eru orðnar mjúkar og kókospálmasykurinn hefur bráðnað; maukar þú þetta með töfrasprota eða í lítilli matvinnsluvél.
- Maukaðu alveg þar til að karamellan er kekkjalaus.
- Ég mæli með að útbúa karamelluna fljótlega eftir að íspinnarnir fóru í frystirinn en hún má alveg standa í glerkrukku á borðinu yfir nótt. Það tekur íspinnana alveg 7-8 klst að frysta svo að ólíklegt er að þú náir að smyrja karamellunni á sama dag.
- Best er að láta volgt vatn renna á íspinnaformin til þess að ná íspinnunum úr. Þá setur þú þá á bökunarpappír og aftur inn í frysti því þeir bráðna aðeins þegar að maður lætur vantið renna á þá.
- Smyrðu svo karamellunni á hvern og einn með bökunarspaða og settu þá aftur inn í frysti. Best er að láta þá standa á íspinnastandinum uppréttir. Það getur tekið karamelluna nokkrar klst. að harðna alveg á ísnum og er það biðinnar virði til þess að hægt sé að hjúpa hann fallega.
Súkkulaðihjúpur
- 1 dl kókosolía
- 1/2 dl kakósmjör
- 1 1/2 dl ljóst kakó/hrákakó
- 1/2 dl hlynsíróp
- örlítið gróft salti
- Láttu kókosolíuna og kakósmjörið bráðna í potti við eins lágan hita og hægt er.
- Leyfðu þessu aðeins að kólna og hrærðu svo öllum innihaldsefnunum saman við hægt og rólega.
- Þegar að súkkulaðihjúpurinn er við herbergishita þá er hægt að hjúpa ísinn.
- Gott er að brjóta fersk hindber yfir strax eftir hjúpunina og jafnvel kakónibbur líka. En það er þó alls ekki nauðsynlegt.
- Ég mæli svo með því að leyfa ísnum að standa aðeins áður en þú gæðir þér á honum, hann er að mínu mati langbestur þegar að ísinn sjálfur er orðinn mjúkur.
Það sem kom mér mest á óvart við þessa uppskriftargerð er hvað maður verður pakksaddur af svona ís. Þegar að maður er að nota gæðamikil og næringarrík hráefni þá er í alvörunni mjög erfitt að klára einn svona ís. Best er þó að manni líður vel og er í góðu jafnvægi eftir að hafa gætt sér á þessum lúxus íspinnum og getur maður meira að segja deilt þeim með barninu sínu með góðri samvisku.
Þessi uppskriftarfærsla er gerð í samstarfi við heildverslunina heilsu. Vörurnar sem ég notaði frá þeim fást m.a. í Nettó, Heilsuhúsinu og Fjarðarkaup.
No Comments