Njóttu Hádegis- og Kvöldmatar

Súper næringarrík skál!

Ég elska að næra mig á þann hátt sem að lætur mér líða vel. En það að borða hollt þarf alls ekki að vera bragðvont né óspennandi. Mikilvægt er að vera opin/n fyrir því að smakka eitthvað nýtt (jafnvel nokkrum sinnum) og þróa bragðlaukana sína áfram þegar maður er að innleiða meira af hollri fæðu í mataræðið sitt. Það er nefnilega ekkert svo langt síðan að ég sjálf borðaði bara fáeinar tegundir af t.d. grænmeti og jiminn hvað ég er búin að uppgötva mikið af skemmtilegum brögðum. Það er hægt að leika sér endalaust í matreiðslu á grænmeti og eru möguleikarnir miklir. Það græða allir á því að koma meira af grænmeti inn í fæðuna sína, sama hvaða mataræði maður er á.

Uppskriftin sem ég ætla að deila með þér núna er hin fullkomna máltíð að mínu mati; bæði hvað innihald og bragð varðar. Hún er stútfull af næringarefnum og líður manni svo ofboðslega vel eftir að hafa borðað hana. Prótein er eitt af því sem að margir eru hræddir um að fá ekki nóg af í plönturíkinu, en fyrir flesta er það ekkert til að hafa áhyggjur af. Með því að borða fjölbreytt úrval af grænmeti, ávöxtum, heilkornum og baunum gefur það þér allar þær amínósýrur sem að þú þarft. En amínósýrur eru byggingareiningar prótína. Þessi skál er einmitt sérstaklega próteinrík en kínóa, brokkolí, grænar linsubaunir og kjúklingabaunir(meginuppistaðan í hummusnum og falafelbollunum) er allt talið sérstaklega próteinrík fæða. Gott er að hafa bakvið eyrað að borða ekki alltaf sömu tegundirnar af grænmeti, baunum og hafa ekki alltaf kínóa með matnum. Fjölbreytni er lykilatriði til þess að fá góða breidd af mikilvægum næringarefnum og vítamínum.

Það sem þú þarft

 • Kínóa – skolað og soðið þar til tilbúið
 • Grænar linsubaunir – skolaðar og soðnar í potti þar til tilbúnar. ATH verða mjög fljótt tilbúnar.
 • Ferskt salat – notaðu þitt uppáhalds.
 • Sætar kartöflur – bakaðar í ofni með örlítilli olíu, smá vatni, paprikudufti, chillidufti og salti.
 • Rauðrófur – yddaði þær með grænmetisyddara
 • Rauða papriku – grillaði hana í ofni við háan hita
 • Falafel bollur – búðarkeyptar
 • Brokkolí – bakað í ofni við háan hita í stuttan tíma með örlítilli olíu og salti
 • Avocado
 • Granatepli
 • Heimatilbúna dressingu – uppskr. f. neðan
 • Heimagerðan hummus – uppskr. f. neðan

Salatdressing

 • 1/2 dl kaldpressuð lífræn ólífuolía
 • 1/2 dl lífr. sítrónusafi
 • 1/4 dl hvítvínsedik
 • 2 msk hlynsíróp
 • 1 lúka fersk mynta
 • 1 tsk sinnep
 • 1/4 tsk gróft salt

Settu öll innihaldsefnin saman í blandara eða notaðu töfrasprota þar til að myntan er komin í eins litlar agnir og hægt er.

Hummus

 • 300g soðnar kjúklingabaunir
 • 2 msk safi af kjúklingabaunum
 • 1 msk tahini
 • 2 msk sítrónusafi
 • 1 hvítlauksgeiri
 • 1/2 tsk gróft salt

Skelltu öllum innihaldsefnunum saman í matvinnsluvél þar til að hummusinn er orðinn kekkjalaus og flottur.

Það er mjög gott sparnaðarráð að kaupa kjúklingabaunir í stórum einingum, leggja þær í bleyti og sjóða þær sjálfur. Upplagt er að gera stóran skammt af hummus og frysta í krukkum. Eða eiga bara baunirnar í krukkum í frystinum til þess að nota t.d. í grænmetispottrétti.

Það sem að ég elska við máltíðir eins og þessar; er hvað maður getur skipulagt sig þannig að það sé lítið mál að gera þær tilbúnar. Það getur sparað manni mikinn tíma að baka 2-3x skammt af grænmeti í einu, útbúa 3x skammt af hummus og frysta, sjóða 2x skammt af kínóa og eiga ferskt salat til í ísskápnum. Það er t.d. hægt að útbúa hummus og sjóða kínóa einn daginn, baka stóran skammt af grænmeti og sjóða baunir þann næsta o.s.frv. Með því að eiga til bakað grænmeti, soðið kínóa, baunir og hummus í ískápnum er lítið mál að útbúa máltíð eins og þessa.
Þessi færsla er í samstarfi við heilsu

You Might Also Like

No Comments

Leave a Reply