Njóttu Hádegis- og Kvöldmatar

Heimagerður Vegan ostur

26. janúar, 2018

Sama hvort að þú sért vegan eða sniðgangir mjólkurvörur þá held ég að flestir sem að hætta að borða mjólkurvörur eigi það sameiginlegt að sakna ostsins mikið. En það var allavega þannig í mínu tilfelli. Ég var lengi alltaf að stelast af og til í ost þrátt fyrir að vera búin að taka allar aðrar mjólkurvörur út. En ég hef loksins hætt því og er lystin fyrir hefðbundnum osti horfin. Þrátt fyrir að núna sé svo miklu meira úrval af vegan vörum heldur en þegar að ég var að taka mjólkurvörur út, hef ég ekki ennþá fundið neinn vegan ost út í búð sem að ég er æst í. Þó að það séu margir fínir. En það er líka gott að átta sig á því að maður mun aldrei finna neitt sem er nákvæmlega eins, enda er ostur eins og við þekkjum hann unninn úr kúamjólk. Ostur sem er búinn til úr plöntum mun aldrei verða nákvæmlega eins. Þetta snýst því svolítið um að vera opin fyrir nýjungum og að aðlaga bragðlaukana sína að einhverju nýju.

En fyrir nokkrum mánuðum sá ég að margir voru að gera sinn eigin ost úr kartöflum og gulrótum sem mér fannst mjög spennandi. Ég og kærasti minn fórum að prufa okkur áfram og þróuðum okkar eigin ostauppskrift út frá því og ætla ég að deila henni með þér hér. En þessi ostur finnst mér algjört æði, ég set hann á allt sem ég hefði sett bráðin ost á hér áður fyrr. Ég set hann á pizzur, lasagna og hefur hann komið mjög vel út bæði í áferð og bragði. En það sem ég elska mest við þennan ost að ég veit 100% hvað er í honum og er hann því laus við öll aukaefni.

Vegan ostur

  • 530 g skrældar kartöflur
  • 250g grasker
  • 6 msk næringarger
  • 5 msk kaldpressuð ólífuolía
  • 2 msk hvítvínsedik
  • 1 msk sítrónusafi
  • 1,5 msk gróft salt
  1. Byrjaðu á því að skræla kartöflurnar og skera niður graskerið. Næst skalt þú gufusjóða þetta þar til að þetta er orðið mjúkt.
  2. Síðan setur þú öll innihaldsefninn saman í matvinnsluvél eða blandara. Mjög mikilvægt að gera það meðan að grænmetið er ennþá heitt.
  3. Því næst setur þú þetta í krukkur og þá er þetta tilbúið á hvað sem að þér dettur í hug.

Osturinn geymist í kæli í ca. 5-7 daga. Osturinn stífnar vel í kælinum þannig að þegar að ég set þetta t.d á pizzur finnst mér gott að setja nokkrar klessur hér og þar yfir pizzuna og ég dreifi síðan úr þeim þegar að ég tek pizzuna úr ofninum.

Sama hvort að þú sért vegan eða ekki, þá mæli ég með að þú prófir að gera þennan ost. Við höfum öll gott af því að prufa eitthvað nýtt og minnka neysluna á mjólkurvörum.

-Anna Guðný

You Might Also Like

No Comments

Leave a Reply