Njóttu Góðgætis

Heimagerðir íspinnar

Heima í flensuveikindum janúarmánaðar uppgötvuðum við mægðingin eðal íspinna sem slógu svo mikið í gegn að ég smellti myndum af þeim til að deila með ykkur hér. En það er einmitt oftast þegar að við erum mikið heima að ég fæ hugmyndir að nýjum uppskriftum sem ég verð að prufa og oftar en ekki eru þær algjör snilld! Þetta er ein af þeim og ég hvet þig til að prufa að útbúa þessa íspinna ekki seinna en strax 😉

Uppskrift:

Íspinnarnir

  • 4 dl kókosmjólk (feit í dós)
  • 2 bananar
  • 4 ferskar döðlur eða 1/3 dl hlynsíróp
  • smá gróft salt
  • 1/4 tsk vanilluduft
  1. Skelltu öllum hráefnunum í lítinn blandara eða blandaðu með töfrasprota í viðeigandi íláti.
  2. Helltu ísblöndunni í íspinnaform, mín stálform fengust á mistur.is fyrir einhverjum árum síðan en það má einnig nota venjuleg plastform frá t.d. ikea.
  3. Þegar að íspinnarnir eru frosnir sem að tekur sennilega yfir nóttu að gerast, þá tekur þú þá úr formunum með því að láta volgt vatn renna á formin og setur pinnana svo á bökunarpappír og lætur þá aftur í frystinn.

Súkkulaðiídýfa

  • 1,5 dl kókosolía
  • 1,5 dl kakó
  • 0,7 dl hlynsíróp
  • 2 msk kókosmjólk (feit – þykki parturinn í dósinni)
  • vanilluduft
  • salt
  1. Byrjaðu á því að bræða kókosolíuna með því að láta krukkuna undir heitt vatn í vaskinum.
  2. Hrærðu svo kakóinu, kókosmjólkinni, saltinu og vanilluduftinu saman við.
  3. ATH! Settu hlynsírópið saman við þegar að blandan hér fyrir ofan er orðin volg, ef þú gerir það of snemma getur þetta allt hlaupið í kekki 🙂
  4. Taktu svo íspinnana úr frysti, makaðu ídýfunni varlega á þá með skeið eða dýfðu þeim í súkkulaðið ef þú getur. Ef súkkulaðið kólnar hratt og þykknar, settu þá skálina í heitt vatn í vaskinum og hrærðu í með písk. Þannig hitnar það og verður meira fljótandi sem gerir það að verkum að auðveldara er að hjúpa 😉
  5. Ef þú kýst að setja eitthvað kurl utan á ídýfuna endilega gerðu það strax á meðan súkkulaðið er enn blautt á ísnum.

Við Hinrik Berg prufuðum mismunandi útfærslur á góðgæti til að setja ofan á dýfuna. Okkur fannst báðum langbest að hafa ristaðar möndlur utan á en við prufuðum einnig að setja frosin hindber sem kom líka vel út. Endilega notaðu það sem þú átt til og það sem þér finnst gott.

Eitt sem skiptir mig mjög miklu máli í mínu mataræði og í mataræði sonar míns er að lágmarka allan unninn sykur. Helst að borða ekkert af honum. En það er svo vel hægt að lifa án hans og í rauninni ekkert mál. Ástæðan fyrir því að ég sleppi unnum sykri er að unninn sykur eins og t.d. hvítur sykur inniheldur enga næringu og getur ýtt undir bólgumyndun í líkamanum sem síðar getur orðið að lífstílstengdum sjúkdómum. Sjálf finnst mér einnig unninn sæta hafa mjög mikil áhrif á andlegu heilsuna mína og fæ ég sterka löngun í meira, einskonar fíknihegðun.

Þegar ég sleppi því að borða unna sætu þá er ég svo miklu orkumeiri, lífsglaðari, næ að einbeita mér meira og líður svo miklu betur í öllum líkamanum. Ég tek einnig eftir því sama hjá barninu mínu en hver verður auðvitað að hlusta á sinn líkama og gera það sem að er honum fyrir bestu. Það getur verið mjög falið fyrir manni að einstakar fæðutegundir séu að valda manni einhverskonar vanlíðan og besta leiðin til að komast að því er að taka fæðutegundina út í nokkrar og purfa svo að setja hana aftur inn. Á netnámskeiðinu mínu Endurnærðu þig er ég einmitt að aðstoða fólk með þetta á mjög geranlegan og skemmtilegan máta.

Ég hvet þig til að útbúa þessa eðal lúxuspinna og opna augun fyrir því að það er vel hægt að nota aðra sætugjafa en unna sætu og að það er alls ekki mikið vesen að hafa fyrir því að útbúa svona íspinna sjálfur. Það tekur enga stund og upplagt að leyfa krökkunum að vera með í ferlinu. Það væri ótrúlega gaman að heyra frá þér í athugasemdum hér fyrir neðan ef þú ákveður að útbúa þessa dásemdar íspinna og hvernig þér líkaði.

Ást til þín elsku hjarta,

Anna Guðný

You Might Also Like

No Comments

Leave a Reply