Hugsaðu

Jafnvægi um jólin

16. desember, 2014

Það er mjög auðvelt að detta í stresspakkann og ætla að gera allt of mikið fyrir jólin. Þegar maður er kominn í stress- og áhyggjupakkann yfir hinum ótrúlegustu hlutum verða gjarnan sætindi okkur að bráð. Maður missir sig oft í smákökur, nammi og annað kruðerí því maður er að flýja vandamálin sem herja á manni. En af hverju? Af hverju þarf að gera allt fyrir jólin? Af hverju njótum við þess ekki að vera með okkar nánustu? Við þurfum ekki að vera í keppni hver bakar flestar sortirnar eða þrífur flesta skápa. Ég er ekki að segja að ég ætli ekki að þrífa fyrir jólin, þetta þarf samt ekki að fara út í öfgar. Jólin snúast ekki um að vera með allt spikk og span í kringum okkur og baða okkur í smákökum.

Ég er alls ekki fullkomin í þessum málum og það er ýmislegt sem ég þarf sjálf að hafa í huga. Það sem ég þarf sérstaklega að hafa í huga er að vera í jafnvægi. Maður þarf að setja sjálfan sig í fyrsta sæti þó að jólin standi yfir og maður sé á þvælingi.

Gættu hófs

Það þýðir ekki að hugsa ,,æji ég er hvort sem er bara búin að borða smákökur og nammi í allan dag þá held ég bara áfram” og missa sig alveg í gleðinni. Auðvitað er maður alltaf að fara að fá sér smákökur og nammi yfir jólin en það er lykilatriði að liggja ekki alveg í því og borða ekkert annað. Ég mæli með því að útbúa smákökur og annað góðgæti úr hreinum og gæðamiklum hráefnum. Það sem skiptir mestu máli er að fá sér minna, tyggja hægar og njóta meira. Ég er að fara að njóta allskyns góðgætis yfir hátíðirnar sem að er laust við glúten, unna sætu og er vegan. Ég mæli með að þú kíkir á uppskriftirnar mínar til að fá hugmyndir.

photo-1458917524587-d3236cc8c2c8Borðaðu grænmeti

Grænmeti er stútfullt af vítamínum og góðri næringu sem okkur veitir ekki af yfir hátíðarnar í öllu sukkinu. Hafðu alltaf grænmeti með máltíðum og borðaðu vel af því. Vertu einnig dugleg/ur að fá þér daglega græna djúsinn/þeytinginn þinn. Það er alveg magnað hvað ég fæ mikla löngun í grænan þeyting þegar maður er að sukka yfir hátíðarnar, líkaminn bókstaflega öskrar á hann. Það er fullkomið að byrja daginn á honum eða að kippa honum með sér í krukku ef maður er að fara á flakk. Maður borðar aldrei of mikið af grænmeti og kemur það í veg fyrir ýmsa sjúkdóma og heilsukvilla.

Drekktu vatn

Drekktu vatn yfir allan daginn, það eru ótrúlega margir kostir sem vatnið býr yfir. Það hreinsar líkamann, bætir meltinguna, er gott fyrir húðina og stundum höldum við að við séum svöng þegar við erum í raun þyrst. Fáðu þér vatn milli máltíða, oft er líkaminn bara að kalla á vatn. Einnig þegar maður fær hausverk getur hjálpað að fá sér vatn. Íslenska vatnið er algjör auðlind sem maður á að vera þakklátur fyrir.  Veldu alltaf vatn þegar þig þyrstir, ef þú færð þér gosdrykki við þorsta mun þig bara þyrsta meira. Gos er bara sykur og salt í fljótandi formi, sykurinn til að þú þráir meira og saltið til að þig þyrsti í meira.

Borðaðu reglulega- skipulag

Ég þekki það bara á sjálfri mér að ef maður er mikið á þvælingi getur það farið svo að maður er ekki að borða reglulega og er þá líklegra að maður missi sig í einhverja óhollustu þegar heim er komið. Ef þú veist fyrirfram að þú verður á ferðinni er sniðugt að nesta sig upp fyrir daginn og skipuleggja hvern dag út frá því hvað þú ert að gera og hvar þú verður. Með því að borða reglulega af hollum og góðum mat getur maður leyft sér góðgæti hér og þar yfir daginn. Þ.a.l. eru miklu minni líkur á að maður hrynji í unna sykurinn.

Vítamín

Gleymdu ekki að taka bætiefnin sem þú ert vön/vanur að taka til að halda kerfinu í jafnvægi. Ég tek alltaf inn D-vítamín, meltingargerla, B12 og einnig finnst mér meltingarensím nauðsynleg yfir jólahátíðina. Ef þú veist ekki hvaða vítamín þú átt að taka skaltu leita til viðeigandi ráðgjafa því að við erum sko alls ekki eins og það sem hentar mér hentar kannski ekki endilega þér.

Slökun

Hugleiðsla. Þetta er það sem ég á erfiðast með að koma í verk en líður alltaf jafn stórkostlega þegar ég er búin. Það eru margir sem eru mjög kvíðnir yfir hátíðirnar og er þetta algjört ”galdrameðal” til að sporna við kvíða og streitu.
Jóga. Það eru mjög sniðug kennslumyndbönd á youtube með jóga. Ég hef fulla trú á að jóga hjálpi manni með kvíða, streitu og hjálpar okkur að slaka á.
-Bað. Það er fátt eins róandi að fara í gott bað með góðri baðblöndu. Ég set oft 1 bolla af epsom salti, 2 msk af kókosolíu og 4 dropum af lavander ilmkjarnaolíu.
Lestu góða bók. Það er mjög góð slökun að lesa bók og í leiðinni ertu að auka við þekkingu þína. Lestu eitthvað á þínu áhugasviði sem eykur eldmóð þinn.

Hreyfing

Þó það séu jól og maður er að gera vel við sig hægri vinstri má ekki hætta að hreyfa sig. Manni líður alltaf svo vel á eftir þegar maður er búinn að hreyfa sig. Gerðu það sem þú elskar; farðu t.d. í göngutúr með fjölskyldunni, á skauta, í ræktina, jóga, eða bara það sem lætur þig líða best. Það er sniðugt að virkja fjölskylduna með sér í góðan göngutúr og skapa þar með fallega samsverustund.

Njóttu

Njóttu samvistarinnar með þínum nánustu og láttu allar áhyggjur út um gluggann. Ekki vera að eyða tímanum í áhyggjur, þær hafa ekkert upp á sig og valda bara kvíða og streitu. Lifðu í núinu og vertu ekki að spá í því sem áður var eða koma skal. Settu sjálfan þig í fyrsta sæti og hlustaðu á líkamann þinn, hann sendir manni alltaf skýr skilaboð ef maður er að gera eitthvað vitlaust. Reyndu að vera í sem mestu jafnvægi og þú mögulega getur því þannig nýtur þú stundarinnar best.

Hafðu það ótrúlega gott yfir hátíðirnar og eigðu gleðileg jól <3

You Might Also Like

No Comments

Leave a Reply

Vantar þig hugmyndir að hollum og bragðgóðum mat?

Þá er rafræna uppskriftarbókin mín eitthvað fyrir þig og þú getur skoðað hana í hvaða tæki sem er. Í uppskriftarbókinni eru hugmyndir fyrir allar máltíðir dagsins ásamt ýmsu girnilegu góðgæti.

Uppskriftirnar eru vegan, glútenlausar og lausar við unna sætu.

Verslaðu bókina hér