Hugsaðu

Hollt mataræði frá byrjun

Í nútímasamfélagi þar sem að mikið er um skyndibitakeðjur og lífsstílssjúkdómar eru í hámarki hefur aldrei verið mikilvægara að ala börnin okkar upp á hollu fæði. Eftir að ég hef upplifað á eigin skinni hversu mikilvægt það er að næra sig á hollan máta þá er það mér mjög mikilvægt að gera það sama fyrir son minn. Ég trúi að það sé ein af dýrmætari gjöfum sem ég get gefið honum og verði honum ómetanlegt veganesti út í lífið.

Vertu fyrirmynd

Við höfum örugglega öll staðið okkur að því að ætla að gefa barninu okkar eitthvað súperhollt og ætla síðan sjálf að fá okkur eitthvað óhollt. Það fór síðan mjög líklega þannig að barnið vildi fá það sem við vorum að borða og við gátum ekki annað en gefið því með okkur. Það er því ómögulegt að ætlast til að maður geti alið barnið sitt upp á hollu mataræði ef maður er sjálfur að borða óhollt, börn vilja gera allt eins og við. Þetta byrjar því allt hjá okkur sjálfum, að við borðum holla og hreina fæðu. Þá getum við fyrst farið að leggja áherslu á að barnið okkar geri það sama. En kosturinn við að vera fyrirmynd, er að það verður manni meiri hvatning að velja hollt fæði. Maður vandar sig meira og verður meðvitaðari um hvað maður er að borða. Ein besta gjöf sem maður getur gefið bæði sjálfum sér og barninu sínu er að skuldbinda sig hollu mataræði. Öllum á heimilinu mun líða betur, bæði á líkama og sál.

Berum ábyrgð

Við sem foreldrar berum ábyrgð á mataræði barnanna okkar. Það er undir okkur komið hvað er til í skápunum heima, hvað er í matinn, hvað þau eru með í nesti o.s.frv. Margir mikla það fyrir sér að borða holla fæðu og halda að það sé mjög tímafrekt. Ég skil það vel og ég neita því ekki að ég eyði miklum tíma í eldúsinu. En um leið og maður bæði skilur og sér mikilvægi þess að þá hættir maður að líta á það sem kvöð og tímafrekt. Það verður partur af rútínu alveg eins og að þvo þvott og brjóta hann saman, þetta er bara það sem þarf að gera og það er vel hægt að gera það á skemmtilegan hátt. Eins og t.d. með því að virkja börnin með sér í eldhúsinu. Eins eru margar leiðir til að spara tíma í eldhúsinu eins og t.d. að elda stóra skammta í einu og frysta. Taka frá einn dag í viku þar sem að maður býr til ýmislegt góðgæti til að eiga eins og t.d. hummus, hrökkbrauð, orkubita, súpu, og möndlumjólk.

Mun ekki þekkja neitt annað

Einn af kostum þess að ala barnið sitt upp á hollu mataræði frá upphafi er að það mun ekki þekkja neitt annað. Það er ekki að fara að fá sterka löngun í eitthvað rusl þegar að það hefur ekki smakkað það áður. Ástæðan fyrir því að það getur verið erfitt fyrir okkur sem eldri erum að breyta um mataræði er að við fáum stundum mjög sterkar langanir í eitthvað óhollt í algjöru nostalgíukasti. Þegar að ég var lítil fannst mér t.d. grænmeti mjög óspennandi enda er ég af engjaþykknis&kexkynslóðinni. Sonur minn borðar hinsvegar allt grænmeti sem að við borðum og elskar það.

Skuldbinding

Við erum mjög skuldbundin að hafa son okkar á hollu mataræði og tökum því alltaf með nesti fyrir hann ef við erum að fara eitthvað. Það þarf alls ekki að vera flókið né að taka mikinn tíma. Bara að hugsa fyrir því er aðalmálið. Ef við erum að fara í veislu eða á kaffihús tökum við t.d. með okkur þurrkuð ber, þeyting, avacado eða bara hvað sem okkur dettur í hug. Bara svo að barnið manns sé ekki að horfa á alla hina borða og að það sé ekki með neitt.

Það er af sem áður var

Ég veit að mörgum finnst erfitt að segja ömmum og öfum að þau megi ekki gefa börnunum okkar nammi. Mörgum finnst það í lagi og vera hluti af ímynd þeirra – þetta sé því eitthvað sem þau mega komast upp með. En að mínu mati er þetta úrelt hefð. Ég held að ástæðan fyrir því að okkur finnst þetta í lagi og jafnvel pínu krúttlegt er að við upplifum nostalgíu úr æsku þegar að við fengum sjálf gotterí frá ömmum okkar og öfum. En nú eru breyttir tímar, við vitum að dísætur ís og sælgæti hefur ekkert að gera ofan í magann á börnunum okkar. Við getum alveg staðið með börnunum okkar og beðið ömmur og afa á fallegan hátt um að vera ekki að ota þessu að börnunum okkar. Í staðin getum við komið með sjálf það sem að þau mega gefa þeim eða gefið þeim hugmyndir að því sem sniðugt er að eiga í skápunum fyrir þau. 

Það er hægt að njóta á hollari máta

Ég er sjálf algjör sælkeri og legg mikið upp úr því að njóta góðs matar. Þó að ég sniðgangi ýmislegt þá hef ég lært að útbúa allt það sem að ég þarf á hollari máta. Þeir sem að skoða reglulega uppskriftir mínar hér á blogginu sjá að ég er alltaf að gera eitthvað góðgæti. Sonur minn er því ekki að fara að borða gulrætur með hummus á afmælum sínum í framtíðinni. Hann mun örugglega verða sami matgæðingur og mamma sín og njóta góðrar köku úr gæðahráefni.

Ást & Friður,

Anna Guðný

You Might Also Like

No Comments

Leave a Reply