Dömur mínar og herrar, besti dagur ársins er að renna í garð. Bolludagurinn er mér mjög heilagur og hef ég staðið í ströngu í eldhúsinu síðustu daga til þess að búa til þessa vatnsdeigsbolluuppskrift. Í fyrra, þegar að ég stóð í sömu tilraunum, hélt ég að ég væri komin með fullkomna uppskrift og þyrfti ekki að standa í þessu aftur en síðan þá hef ég hætt að borða egg og þurfti ég því núna að finna út hvernig ég gæti gert vatnsdeigsbollur án þeirra. Sem var bæði lærdómsríkt og skemmtilegt verkefni. Það er algjör snilld að nota kjúklingabaunasafa í staðin fyrir egg og er ég svo spennt að prufa mig enn frekar áfram í eggjalausum bakstri. Það er nefnilega allt hægt ef viljin er fyrir hendi og það eiga ALLIR að geta fengið sér vatnsdeigsbollur á bolludaginn. Hér er því uppskriftin klár og er hún bæði glútenlaus & vegan.
Ég mæli með að lesa skrefin í uppskriftinni svo að þetta muni allt fara eins og það á að fara.
Glútenlausar&Vegan vatnsdeigsbollur
- 2,5 dl glútenlaus hveitiblanda
- 2,5 dl kókosmjólk í dós
- 150 ml kjúklingabaunasafi
- 2,5 tsk vínsteinslyftiduft
- 2,5 msk kókosolía
- gróft salt
- Kveiktu á ofninum og stilltu hann á blástur við 180°C.
- Settu síðan þurrefnin saman í skál og leggðu til hliðar.
- Því næst setur þú kókosmjólkina og kókosolíuna saman í pott ásamt smá af grófu salti.
ATH! ég notaði kókosmjólk við stofuhita, hrissti hana áður en ég opnaði og mældi síðan það magn sem að ég þurfti. - Þegar að suðan kemur upp tekur þú pottinn af hellunni og hrærir þurrefnunum saman við.
- Á meðan að deigið í pottinum kólnar aðeins þeytir þú kjúklingabaunasafann í hrærivél. Þeyttu safan á mesta hraða í dágóða stund (3-5 mín kannski) þar til að hann er orðin vel stífur. Settu þetta til hliðar.
- Þegar að deigið er orðið volgt þá þeytir þú kjúklingabaunasafanum saman við í skömmtum, eða u.þ.b 1/3 af honum í einu þar til að allt er vel þeytt saman og deigið er kekkjalaust.
- Búðu til 11 litla bolta úr deiginu, u.þ.b. ein matskeið hver bolti, með því að hafa hendurnar blautar svo að deigið klístrist ekki við hendurnar.
- Áður en að bollurnar fara inn í ofn, settu þá vatn í elfast mót og hafðu það neðst í ofninum. Þetta er mjög mikilvægt skref til að bollurnar verði mjúkar.
- Bakaðu svo bollurnar við 180°C í 50 mínútur. Leyfðu þeim síðan að kólna áður en þú skerð í gegnum þær með góðum hníf.
Karamellusósa
- 5 msk kókospálmasykur
- 2 msk þeyttur kókosrjómi
- 4 msk kókosolía
- 1/4 tsk gróft salt
- Settu öll innihaldsefnin saman í pott á vægan hita og leyfðu þessu síðan að malla í smá stund. Hrærðu í þessu. Leyfðu karamellunni síðan að kólna til að hún verður þykk og flott.
Súkkulaðiglassúr
- 4 msk brædd kókosolía
- 4 msk kakó
- 2 msk hlynsíróp
- 3 tsk kókoskrem (má sleppa ef þú átt það ekki til)
- örlítið salt
Svo er auðvitað punkturinn yfir i-ið að gæða sér á þessum bollum með þínum uppáhalds berum. Hvort sem þú kýst að nota berjasultu, fersk jarðaber (íslensk að sjlfsögðu) eða frosin ber. Ég útbjó síðan með þessu dásamlegan kókosrjóma en þú finnur uppskriftina af honum hér.Njóttu í botn og mundu að þessi dagur kemur aðeins einu sinni á ári.
-Anna Guðný
15 Comments
Er hægt að nota venjulegt hveiti i uppskriftina?
Sæl,
Ég hef ekki prufað það sjálf en ég held að það virki alveg, glútenlausa hveitið sem ég notaði er mjög líkt hveiti 🙂
Hæ Anna Guðný, þessi uppskrift er æðisleg! Ég vildi bara koma því til skila að ég prófaði að baka upp úr þessari uppskrift í gær og mér og fjölskyldunni finnst bollurnar mjög góðar. Karamellusósan finnst mér líka mjög góð! <3 Ég er mjög þakklát fyrir að hafa rambað á þessa uppskrift og þurfti ekki að leggjast í meiriháttar rannsókanrvinnu sjálf. Takk kærlega fyrir mig 🙂
Sæl Andrea,
Yndislegt að heyra að ykkur líkaði bollurnar! Njótið í botn og verði ykkur að góðu😋 Vá hvað ég elska svona athugasemdir, Takk ❤️
Hæ hæ… hvar færðu svona hveiti?
Hæhæ, það fæst t.d. í heilsuhúsinu, krónunni og nettó held ég líka 🙂
Hæ! Er hægt að gera þetta með td. Haframjólk eða annari jurtamjólk, ég fíla ekki kókos
Hæhæ 🙂 Já en passaðu þá að nota vel feita mjólk. Kókosmjólkurbragðið er samt ekki afgerandi að mínu mati 🙂
Snilld! Verð að prófa þessa uppskrift. Hlakka til þess 😊
Yndislegt <3
[…] Ýttu hér til að nálgast uppskriftina. […]
Sæl
Er hægt að nota eitthvað annað í staðin fyrir kjúklingabaunasafa?
Sæl Gunnvör, Ég er hrædd um ekki, hann er þeyttur svo hann verður rosalega loftkenndur sem gefur deiginu svo mikið. En það væri auðvitað hægt að nota bara egg ef þú ert ekki að leitast eftir vegan bollum.
Hæ Anna Guðný ég er með eina spurningu varðandi kókosmjólkina sem þú notar. Er þetta kókosmjólk í dós eða drykkjarmjólk eins og KoKo mjólkin? 🙂
Sæl Hanna, Góð spurning! Þetta er kókosmjólk í dós, ég nota þessa venjulegu frá biona 🙂