Andaðu

Fyrirgefðu

11. ágúst, 2015

Þegar maður eldar kvöldmatinn notar maður ekki hráefni úr ruslinu síðan í gær. Það sama gildir um hugsunarháttinn. Það sem fer í gegnum hug manns í dag á heldur ekki að vera eitthvað úr ruslinu síðan í gær. Það sem áður var er liðið og það þýðir ekki að velta sér upp úr því núna.

Lifir þú í fortíðinni og veltir þér upp úr gömlum hlutum, áföllum eða erfiðari lífsreynslu?
Kemur upp reiði og biturleiki þegar þú hugsar um þessa reynslu?
Ertu reið/ur út í einhverja manneskju?
Ertu reið/ur út í sjálfa/n þig?

Það er svo ótrúlega frelsandi að fyrirgefa til að geta haldið áfram með lífið án nokkurar byrðar. Flest eigum við eitthvað ófyrirgefið í lífinu og hugsum kannski oft um það með biturleika og reiði. Með því að lifa í biturleika og reiði getur þú laðað að þér sjúkdóma og fleiri heilsukvilla. Það er oft talað um það í andlegum fræðum að þegar við verðum veik þurfum við að finna út hverjum við þurfum að fyrirgefa. Talið er að allir sjúkdómar stafi af einhverju stigi af ófyrirgefningu. Oftast er það þannig að sú persóna sem þú átt erfiðast með að fyrirgefa, er einmitt sú manneskja sem þú þarft mest að fyrirgefa og sleppa takinu á.

Þegar við fyrirgefum erum við ekki að segja að það sem við séum að fyrirgefa hafi verið allt í lagi og við séum að láta vaða yfir okkur með því að fyrirgefa. Við erum einfaldlega að losa okkur undir þeirri byrði sem ófyrirgefning veldur og halda áfram með líf okkar. Maður þarf ekki að fara til manneskjunnar og segja ,,Ég fyrirgef þér’’. Þú getur gert það í hausnum þínum, skrifað það niður, gert það í hugleiðslu eða hvað sem virkar best fyrir þig. Þú þarft að meina fyrirgefninguna frá dýpstu hjartarótum og segja/hugsa/skrifa hana með ást, kærleika og virðingu.  Eins, fyrirgefðu sjálf-ri/um þér ef það er eitthvað sem þú ert að velta þér upp úr þar sem þér finnst þú hafir átt sök að máli. Farðu í spegil og horfðu í augun á þér, segðu upphátt ,, ég fyrirgef þér’’. Skuldbintu þig fyrirgefningunni og hafðu hana til frambúðar.

image (13)Með því að fyrirgefa sjálfum sér og öðrum frelsar maður sig frá fortíðinni. Fyrirgefning er svarið við nánast öllu. Þegar maður er fastur, þýðir það oftast að það sé meiri fyrirgefning sem maður þurfi að framkvæma. Þegar maður flæðir ekki frjáls í gegnum lífið í núlíðandi stund, þýðir það oftast að við séum að halda í liðnar stundir. Það getur verið eftirsjá, særindi, sorg, hræðsla, sektarkennd, ásakanir, reiði, biturleiki og stundum þráin til þess að hefna sín. Allt upptalið kemur vegna ófyrirgefningar, neitunar til að sleppa takinu og að lifa í núinu. Ást er alltaf svarið við lækningu af einhverju tagi og leiðin að henni er í gegnum fyrirgefningu.

Allt sem gerist í þínu lífi á að gerast. Það sem meira er, allir sem koma inn í líf þitt eru að kenna þér eitthvað. Öll erfið reynsla sem við verðum fyrir gerir okkur sterkari fyrir vikið og tökum við gríðarlegan lærdóm af reynslunni. Reynsla manns í lífinu er mikilvægari lærdómur en nokkur skólabók mun kenna manni. Þakkaðu fyrir kennsluna, fyrirgefðu og haltu áfram með líf þitt. Slepptu takinu og vertu frjáls eins og fuglinn.

Þér er ætlað að fá það besta sem lífið hefur upp á að bjóða og gjörsamlega blómstra. Líttu í kringum þig og taktu eftir því hvað lífið er dásamlegt.

image (10)

-Anna Guðný

 

 

You Might Also Like

No Comments

Leave a Reply