Líf okkar allra síðastliðin 2 ár hefur sennilega orðið aðeins meira krefjandi og því fullkomlega eðlilegt ef fólk er að glíma við meiri kvíða, áhyggjur og ótta eftir að hafa lifað í þessu óvissuástandi. Mig langar að gefa þér mín tól við kvíða en sjálf hef ég mjög mikla reynslu af kvíða og glímdi við hann í mörg ár á mjög hamlandi hátt. Það er auðvelt að týnast í kvíðanum, leyfa honum að ná yfirhöndinni, missa tengingu við sjálfa sig og verða skugginn af sjálfum sér. EN það er hægt að sigrast á honum, ná í kraftinn sinn aftur og líta á kvíðann sem trampolín sem getur skotið þér svo hátt upp í gleði & hamingju. Þú komst hingað til að blómstra og upplifa að þú getir ALLT.
Kvíðasagan mín
Það eru ekki svo mörg ár síðan að kvíði var minn versti óvinur sem ég óttaðist mjög mikið. En þegar að ég var í kringum 17 ára þá leyfði ég kvíða að stjórna mjög miklu í mínu lífi og ég kveið fyrir nánast öllu á þessum tíma. Ég kveið fyrir því að mæta í skólann, ég kveið fyrir því að hringja símtöl, ég kveið fyrir að svara skilaboðum, ég kveið fyrir að svara símtölum, ég kveið fyrir að mæta í margmenni, ég kveið fyrir að hreyfa mig, ég kveið fyrir því að fara í vinnuna, ég kveið fyrir framtíðinni, ég kveið fyrir að mæta í próf, ég kveið fyrir að halda fyrirlestra og ég kveið fyrir því að hitta ákveðnar manneskjur.
Það sem ég gerði þarna til þess að tækla kvíðann minn var að deyfa mig með áfengi, helst hverja einustu helgi. Þarna var ég að leita mér að aukavinnu með skólunum og ég man hvað það var fast í mér að fara ekki í neina helgarvinnu – þá myndi ég ekki getað djammað sem yrði hræðilegt í mínum augum þá. Á djamminu var ég frjáls, dansandi upp á borðum, sagði alla brandarana, talaði frá hjartanu og þorði að vera ég sjálf. Í hversdagsleikanum var ég bara skugginn af sjálfri mér, nagandi af mér hendina af áhyggjum yfir því hvað ég ætli hafi gert á djamminu og hvað ætli ég hefði sagt. Ég hafði áhyggjur af því hvað fólk væri að tala um og hvað því fyndist um mig.
Ég var svo virkilega ótengd mér, föst og hafði ekki hugmynd um hvernig ég gæti komið mínu sanna sjálfi meira í raunveruleikann. Ástæðan fyrir því var að ég þekkti mig ekki. Ég stóð aldrei upp fyrir sjálfri mér eða spurði mig hvað mig langaði að gera. Í svo mörg ár hafði ég spilað einhvern karakter sem ég hélt að aðrir vildu fá af mér. Alltaf tilbúin að hjálpa, gefa og sagði já við öllu. Allt og öllu nema sjálfri mér. Það var ekki fyrr en ég fór í þerapíuna Lærðu að elska þig hjá Guðbjörgu Ósk að lífið mitt tók mjög hraða og fallega u-beygju til hins betra. Þá er eins og ég hafi fengið samband við mig og hvað það er sem ég vil gera í þessu lífi. Þessi þerapía hafði svo mikil áhrif á mig að í dag er ég farin að kenna hana sjálf og hef fengið þann heiður að leiða magnaða einstaklinga í gegnum hana.
En áfram með kvíðann, því hérna kemur besti parturinn. Í dag þegar að ég skrifa þetta þá er kvíði ekki neitt sem ég óttast heldur er hann mjög dýrmætur leiðarvísir sem ég er svo innilega þakklát fyrir. Málið er nefnilega að um leið og ég fór að átta mig á því hver ég væri, fór að gera það sem að mér fannst skemmtilegt, sá hversu mögnuð ég var, áttaði mig á hver mín ástríða væri, öðlaðist hugrekki til að standa með mér og fara mína leið; að þá var enginn kvíði lengur. Í kjölfarið hætti ég að leita í áfengi og fór alla leið í að vera ég, því það var svo GOTT og FRELSANDI!
Hvað er kvíði fyrir mér?
Kvíði er oft undirmeðvitundin okkar að reyna að ná samband við okkur því að hún upplifir að við séum ekki að standa með okkur og að við séum ekki til staðar fyrir okkur sjálf. Að við séum ekki tengd okkur og ekki að fylgja okkar innra sjálfi.
Hversu oft hefur þú t.d. sagt já við einhverjum greiða þegar að þig langaði að segja nei en þú bara þorðir því ekki? Upp kom svo kvíði yfir þessum greiða sem þú sagðir já við, því að þú stóðst ekki með þér. Eins ef þú ýmindar þér að þú farir með barninu þínu í sund en þú gleymir að taka sundföt á það, þið fáið hræðilega hallærisleg lánsföt fyrir barnið og það gleymir aldrei þessari glötuðu sundferð. Í næstu skipti sem það fer með þér í sund eftir þetta er það kvíðið og stressað yfir að þú hafir gleymt sundbolnum. Nákvæmlega þetta gerist innra með okkur, þegar að við upplifum að við séum ekki að standa með okkur, séum ekki að hlusta á okkur og að fylgja okkar eigin sjálfi. Þá erum við gjarnan kvíðin því að við erum að upplifa innra með okkur að við séum ekki til staðar fyrir okkur, að við getum ekki verið örugg með okkur.
Mér finnst líka gott að ýminda mér og sjá fyrir mér innra barnið, að innra með mér sé lítil 4 ára Anna Guðný sem sé stöðugt að reyna að ná sambandi við mig. Ef ég hlusta ekki á hana þá fer hún að senda út kvíðatilfinningu til þess að ná athygli minni. Þetta gerist ennþá þann dag í dag þegar að ég hunsa skilaboð innsæisins og fer gegn sjálfri mér. Þetta hefur oft gerst þegar ég fer í vinnu, nám eða er að gera eitthvað sem ég veit að er ekki nærandi fyrir mig og er í öfuga átt við þá manneskju sem ég er. Það að sjá fyrir mér þessa litlu stelpu innra með mér eflir mig í að hlúa extra vel að mér, leyfa henni að hafa rödd og vil ég ekkert heitar en að hún upplifi að hún sé elskuð, heyrð og séð.
Auðvitað kemur upp kvíði ennþá í dag yfir öðrum hlutum eins og t.d. að gera eitthvað nýtt & ögrandi og að fara út fyrir þægindarramman en það er öðruvísi. Það er hægt að sigrast á þannig kvíða og nota það sem áskorun til að skora á sjálfan sig og rísa hærra. Hin tegundin eins og ég upplifi hann; er innsæið mitt að ná sambandi við mig og leiðbeina mér hvert ég á ekki að fara.
Mín ráð við kvíða
- Slepptu því að horfa á fréttir, fréttamiðla og loka eyrunum fyrir öllu því neikvæða & hræðilega sem er að gerast í heiminum. Einblíndu frekar á að baða þig í jákvæðum, upplífgandi og hvetjandi bókum, umræðum og hlaðvörpum.
- Settu þig og samband þitt við þig í forgang. Búðu til fallega tengingu við þig svo að þú getir alltaf heyrt hvað er að gerast innra með þér, sama hvað er að gerast í kringum þig. Leyfðu þér virkilega að finna að þú skiptir þig máli. Settu þig alltaf aðeins meira í forgang í þínu lífi og hlúðu falleg að þér með heilnæmri rútínu.
- Æfðu þig í að spyrja þig hvað það er sem að þig langar að gera, hvað þér finnst og leyfðu þér að standa með því. Þetta var stærsti parturinn af mínum kvíða og allt breyttist eftir að ég fór að standa með sjálfri mér.
- Skrifaðu niður þín gildi og lifðu meira í takt við þau. Þegar að þú upplifir kvíða skoðaðu þá hvort það sé vegna þess að þú sért að fara gegn þér og þínum gildum.
- Gefðu þér reglulega tíma fyrir hugleiðslu eða skrifflæði þar sem þú tengir inn á þig. Spurðu þig hvernig þér líður, hvað þú þurfir á að halda og endilega gefðu þér það.
- Ögraðu þér í daglegu lífi, æfðu þig að gera það sem er út fyrir þinn þægindarramma og hjálpar þér að vaxa. Allt sem þú veist að gerir þér gott. Fyrir mig er þetta t.d. það að fara ein í sund, ein á kaffihús og allra helst – að leika mér í að vingast við kuldann. Í kuldanum æfist maður í að láta hugann ekki stoppa sig og með því að einblína á öndunina þá nærð þú að yfirstíga áskorunina. Og það er beeesta tilfinning í heimi. Þetta hefur svo þau áhrif að þér finnst þú geta ALLT í daglegu lífi líka, því þú ert búin að ná að komast í gegnum svo margar svona áskoranir.
- Notaðu gamlar áskoranir sem þú komst í gegnum sem styrk til að komast í gegnum þær áskoranir sem að eru fyrir framan þig núna og þú upplifir kvíða yfir.
- Ef þú upplifir kvíða leyfðu þér að finna hann. Ekki forðast hann eða reyna að bæla hann niður. Þetta er tilfinning sem þarf að komast í gegn, alveg eins og þú þarft að hlægja – það er mjög óþægilegt að hleypa hlátrinum ekki út og reyna að halda honum niðri. Tilfinningar vilja finnast og það er ekkert að óttast.
- Reyndu að skoða rótina að þínum kvíða – ertu ekki að standa með þér? Er eitthvað í þínu lífi sem er ekki að hafa góð áhrif á þig? Hvar ert þú að hunsa mikilvæg skilaboð sem eru að malla innra með þér? Skrifaðu niður hvernig þér líður.
- Settu þér og fólkinu í kringum þig heilbrigð mörk sem að styðja við þitt jafnvægi.
- Gerðu Wim Hof öndunaræfingar þegar að þú ert búin að leyfa þér að finna kvíðann og ert búin að skrifa niður hvernig þér líður. Það er mjög kröftug leið til að ná jafnvægi aftur og koma aftur í hjartað þitt. Kvíðinn er oft bara hugurinn að passa upp á að þú farir ekki inn á svæði þar sem þú hefur upplifað hættu áður. Þetta þarf ekki að vera raunveruleg hætta heldur var það sem að þú upplifðir líkamlega seinast þegar þú varst á svipuðum slóðum.
- Farðu út í náttúruna, sestu við fjöruna og treystu – að ekkert er eilíft. Allt gengur yfir, alveg eins og öldurnar sem koma & fara.
- Ef að kvíðinn þinn er það yfirþyrmandi að þú sérð enga lausn, leitaðu þér aðstoðar og talaðu við einhvern sem þú tengir við.
Þessi ráð hér að ofan eru bara mín persónuleg reynsla og það þarf alls ekki að þýða að þessi ráð virki fyrir þig. Þú finnur það strax innra með þér þegar að þú lest þau yfir hvort þú tengir við þau eða ekki.
Aðalatriðið fyrir mér í dag er að ég upplifi að ég standi með mér, ég þori að vera ég sjálf í öllum aðstæðum og ég sé örugg með mig. Eins líka að ég leyfi mér að finna allar þær tilfinningar sem koma upp því þá líður mér eins og ég sé svo innilega til staðar fyrir mig. Þá er ekkert að óttast fyrir mig, hvort sem það kemur upp gleði, kvíði eða sorg. Ég veit ég get leitt mig í gegnum hvað sem er. Eins líka að vera dugleg að gera það sem er fyrir utan þægindarrammann og sigrast þannig á öllu því sem hélt mér inni í skelinni áður fyrr.
Þegar á botninn á hvolft er kvíðinn minn í dag það sem ég er hvað þakklátust fyrir, því hann hefur hjálpað mér að vaxa SVO mikið og hefur hann líka gefið mér dýrmæt skilaboð um stórar ákvarðanir sem hafa leitt mig á þann stað sem ég er á í dag.
Ef að þig vantar aðstoð, stuðning og hvatningu til að takast á við kvíða þá er ég hér til staðar fyrir þig. Þér er velkomið að senda á mig línu á anna@heilsaogvellidan.com og ég get fundið fyrir þig tíma til að skoða það nánar með þér. Það er alltaf í boði að koma til mín í staka þerapíutíma en sjálf mæli ég mest með að þú komir til mín í það magnaða ferðalag sem þerapían Lærðu að elska þig er.
Ást til þín elsku demantur, þú komst hingað til að upplifa töfra lífsins og blómstra.
Anna Guðný
No Comments