Andaðu

Lærðu að elska þig

Þerapían Lærðu að elska þig er einstaklingsmiðuð viðtalsmeðferð sem samin er af þerapistanum Guðbjörgu Ósk Friðriksdóttur sem hefur hjálpað fjölda manns að gjörbreyta lífi sínu. Þerapían eru 12 tímar sem eru 90 mínútur hver og fer maður alltaf heim með verkefni eftir hvern tíma sem maður á að gera í 3 vikur. Ég er svo ótrúlega þakklát fyrir að vera leiðbeinandi í þerapíunni og að fá að leiða fólk í gegnum þetta magnaða ferðalag.

Það er gaman að vinna í sjálfum sér

Ég hef sjálf farið í gegnum þerapíuna, þá 20 ára að aldri, og gjörbreyttist líf mitt í kjölfarið. Ég man hvað mér fannst það háalvarlegt mál að vera að fara að hitta þerapista og sagði ég engum frá því. Svo þegar að ég var búin með nokkra tíma var ég gáttuð yfir öllum jákvæðu breytingunum á sjálfri mér sem ég var að upplifa og hvað það var virkilega gaman að vinna í sjálfum sér. Það leið því ekki á löngu að ég var farin að segja öllum sem ég þekkti frá þessari mögnuðu þerapíu og mikilvægi þess að læra að elska sjálfa/n sig. Mér fannst það sem ég var að læra í þerapíunni væri eitthvað sem allir þyrftu að fá að heyra.

Lífið mitt gjörbreyttist

Þegar að ég fór í þerapíuna var ég mjög kvíðin og með mikið fæðuóþol. Ég vissi ekki hvað mig langaði að læra og stóð aldrei með sjálfri mér né vissi hver ég væri í raun og veru. En eftir sjálfsvinnuna í þerapíunni var margt sem breyttist og m.a. að:

  • Ég lærði að standa með sjálfri mér
  • Ég lærði að tækla kvíðann minn
  • Ég komst í betra jafnvægi
  • Ég gjörbreytti hugarfarinu mínu
  • Ég komst að því hver ég er og hver tilgangurinn minn er í þessu lífi
  • Ég fór að sjá hvað fólkið í kringum mig er að kenna mér
  • Ég á auðveldara með að takast á við lífið
  • Ég öðlaðist meira sjálfstraust og þori að vera ég sjálf
  • Álit annara skiptir mig engu máli

Í dag hef ég nánast alveg komist yfir kvíðann minn og hef komist í miklu betra jafnvægi, bæði andlega og líkamlega. Ég hef lært að sjá lífið í allt öðru ljósi og er miklu lífsglaðari en áður. En verkefnin í þerapíunni eru mjög öflug til að hjálpa manni að hjálpa sjálfum sér. Það var það sem var svo skemmtilegt, að maður gerði þetta allt sjálfur og það var á manns eigin ábyrgð hversu miklar breytingar maður var að fara að upplifa.


Dýrmætur aldur

Ég er gríðarlega þakklát fyrir að hafa hafið þessa vinnu svona ung og geta endalaust bætt við hana á komandi árum. Mér finnst ég hafa verið á mjög dýrmætum aldri til að læra að elska sjálfa mig og að skilja hver ég er. Ég var mjög týnd hvað varðar framtíðina og hefði ég ekki farið í þessa þerapíu væri ég pottþétt að pína mig í gegnum eitthvað nám eða vinnu sem gæfi mér akkurat ekki neina lífsgleði og ég hefði engan áhuga á. Það er mjög algengt að við séum ringluð og í mikilli óvissu á þessum aldri. Hvernig á maður að vita hvað maður vill og hvert maður á að stefna þegar að maður þekkir sig ekki og þ.a.l. elskar ekki hver maður er? Að mínu mati ætti þerapían; Lærðu að elska þig að vera kennd strax í grunnskóla, svo dýrmætan fróðleikan inniheldur hún og við þurfum að fá að heyra hann sem fyrst.

Aldrei of seint

Það er þó aldrei of seint að byrja að vinna í sjálfum sér og spyr það alls ekki um aldur né kyn. Staðreyndin er þó sú að því fyrr sem þú byrjar að vinna í sjálfum þér, því fyrr munt þú blómstra og eiga hamingjusamara líf. Þér mun líða stórkostlega í starfi, hugsa hlutina út frá sjálf-ri/um þér, verða kærleiksríkari, verða þakklátari fyrir fólkið í kringum þig, skilja fólkið í kringum þig, skilja hegðun fólks, gera hluti sem ÞIG langar til að gera, líta á lífið með öðru ljósi, þú munt þora og áður en þú veist af ert þú að upplifa draumalífið þitt. Þú komst ekki í þennan heim til að vinna, borða og sofa. Það er á hreinu.

Draumur orðinn að veruleika

Þerapían hafði það mikil áhrif á líf mitt og var það alltaf mikill draumur að fá að vinna sjálf með fólki í þessari þerapíu í framtíðinni. Nú er sá draumur orðin að veruleika og er ég svo þakklát fyrir að fá að hjálpa fólki að upplifa allt það magnaða sem lífið hefur upp á að bjóða. Endilega hafðu samband við mig á anna@heilsaogvellidan.com fyrir tímabókanir og nánari spurningar út í þerapíuna Lærðu að elska þig. Hér eru líkar nánari upplýsingar og umsagnir frá mínum skjólstæðingum í gegnum árin.

Okkur er ætlað að eiga hamingjusamt líf og líða sem best á hverjum einasta degi. Okkur er alls ekki ætlað að vera óhamingjusöm og líða illa. Þú átt allt gott skilið.

Ást,

-Anna Guðný 

You Might Also Like

No Comments

Leave a Reply