Njóttu Hádegis- og Kvöldmatar

Einfalt & ferskt karrý

Yfir vetrartímann leita ég mikið í heita pottrétti & súpur sem að ylja bæði líkama og sál. Það er mikilvægt að hlúa vel að sjálfum sér með næringarríkum mat á þessum dimma árstíma sem fer nú sem betur fer alltaf að verða bjartari og bjartari. En það að setja það í forgang að hlúa að sér með hollri fæðu er eitt það mikilvægasta sem þú getur gert fyrir þig og þína heilsu. Að virkilega taka ábyrgð á því sem að þú lætur inn fyrir þínar varir er eitt sterkasta form af sjálfsást. Fæðan hefur nefnilega þann einstaka mátt að geta snúið við heilsukvillum og minnkað líkurnar á að fá frekari heilsukvilla í framtíðinni. Þannig að það er mjög mikilvæg og dýrmæt fjárfesting sem felst í því að næra sig á heilnæman og fallegan máta. Það að næra sig á hollan máta getur verið mjög skemmtilegt, skapandi og ljúffengt.

Að þessu sinni ætla ég að deila með þér uppskrift sem er mjög þægilegt að útbúa fyrir þig og þína. Mér finnst alltaf mjög einfalt að elda karrý því að það krefst fárra innihaldsefna og tekur enga stund að útbúa. Eins finnst mér gott að gera stóran skammt og frysta restina í loftþéttu gleríláti. Ég elska að eiga tilbúin mat í frystinum til að grípa í þegar að ég á ekki tíma til þess að elda. Þá er sniðugt að taka það út kvöldinu áður og geyma í ísskápnum þar til að það á að njóta þess.

Einfalt & ferskt karrý
Uppskrift fyrir 4

  • 100 g laukur
  • 300 g kartöflur
  • 300 g blómkál
  • 200 g gulrætur
  • 3 hvítlauksrif
  • 1/2 msk rifið lífrænt engifer
  • 2,5-3 tsk karrý
  • 1 tsk paprikukrydd
  • 2 msk tamarisósa
  • 1 dl hafrarjómi, ég notaði frá naturli sem fæst í krónunni
  • 1 dós kókosmjólk
  • Sítrónubörkur af 1/2 lífr. sítrónu
  • u.þ.b. 1 tsk gróft salt
  • 1/4 tsk sítrónupipar

Aðferðarlýsing:

  1. Byrjaðu á því að skera allt hráefnið niður.
  2. Steiktu svo laukinn upp úr smá vatni og salti.
  3. Bættu engiferinu, hvítlauknum og kryddunum saman við. Smá meira af vatni og bættu svo kartöflunum líka í pottinn.
  4. Settu smá meira af salti og hrærðu aðeins í þessu. Ef þetta fer að festast við bættu þá smá meira af vatni saman við. Þú vilt setja eins lítið af vatni til að byrja með svo að hráefnið eldist í eigin safa.
  5. Næst bætir þú blómkálinu og gulrótunum saman við.
  6. Því næst setur þú tamarisósuna, hafrarjómann og kókosmjólk saman við. Leyfðu þessu að malla.
  7. Þegar þetta er alveg að verða klárt og hráefnið eldað, bættu sítrónuberkinum saman við og smakkaðu til með salti og pipar ef þarf. Eins ef þér langar að hafa þetta sterkara & kraftmeira þá er um að gera að bæta við meira af hvítlauk og engifer.
  8. Berðu þetta svo fram með hýðishrísgrjónum/kínóa, ristuðum kasjúhnetum og ferskri kryddjurt – steinselja og kóríander passa t.d. mjög vel með þessu.

Til að gera þessa máltíð ennþá næringarríkari er mjög sniðugt að skella 2-3 dl af rauðum linsubaunum til þess að gera hann enn próteinríkari og saðsamari. Þá ertu komin/n með ennþá ódýrari máltíð. Þá skellir þú þeim útí á sama tíma og þú setur blómkálið í pottinn.

Fullt af ást frá mér til þín elsku gullmoli, það væri mjög gaman að heyra frá þér í athugasemd hér fyrir neðan ef þú prufar uppskriftina og hvernig þér líkaði hún.

Ást,

Anna Guðný

You Might Also Like

No Comments

Leave a Reply