Njóttu Millimála

Djúsí hummus

31. mars, 2017

Fyrst eftir að ég hætti að borða mjólkurvörur saknaði ég oft að fá mér smjör og ost og hef ég margoft stolist í það. En þegar ég fór að vera dugleg að útbúa mér hummus þá lærði ég að það er bara vel hægt að komast í gegnum lífið án þess að klína smjöri á allt. Það er mjög ódýrt að útbúa sér hummus og tekur það enga stund. Ég kaupi kjúklingabaunir ósoðnar út í búð þar sem að það er svo miklu ódýrara heldur en að kaupa þær soðnar. Ég sýð þær allar í einu og frysti þær síðan í hentugum skömmtum í frystinum. Þá á ég alltaf soðnar kjúklingabaunir í frystinum til að skella í máltíðir eða til þess að útbúa hummus eins og þennan sem ég ætla að deila með þér uppskriftinni að.

Ég gerð þennan gullfallega hummus á dögunum og er hann ekkert smá djúsí og góður. Hann hentar fullkomlega á heimagert hrökkbrauð, maíspoppkex, súrdeigsbrauð eða hvað sem þér dettur í hug. Það eru allir trylltir í þennan hummus sem hafa smakkað hann sem eru ágætis meðmæli.

Djúsí hummus

  • 5 dl soðnar kjúklingabaunir
  • 1 dl ólífuolía
  • 6 msk næringarger
  • 1 msk tahini
  • 1 msk sítrónusafi
  • 1 tsk óreganó
  • 1/2 tsk túrmerik
  • 1/4 tsk reykt paprika
  • 1 tsk salt
  1. Skelltu öllum innihaldsefnunum í matvinnsluvélina og láttu hana vinna vel og lengi þar til að þetta er orðið vel blandað saman. Smakkaðu hummusin til og bættu meira af því sem þér finnst mega vera meira af.

Ég ímynda mér að það viti ekki allir hvað næringarger er en það er algjört lykilatriði í þessari uppskrift þar sem að það gefur hummusinum mjög gott bragð sem minnir á ost. Næringarger hef ég keypt í bónus í hollustudeildinni en það fæst pottþétt í flestum heilsubúðum og í heilsudeildum matvörubúða.

Njóttu vel!

-Anna Guðný

You Might Also Like

No Comments

Leave a Reply