Það birtist viðtal við mig í fréttablaðinu um daginn og fékk þessi gómsæta kaka að vera með líka. Blaðamaður hafði samband við mig vegna viðtalsins og ákváðum við að það myndi ljósmyndari koma til mín næsta dag að taka mynd af mér með einhverju góðgæti sem ég myndi útbúa. Ég lagði höfuðið í bleyti og seinna um kvöldið útbjó ég þessa dásamlegu hráköku sem ég hef aldrei gert áður. Útkoman er stórkostleg þó ég segi sjálf frá og í 1. skipti á ævinni vann ég vel undir pressu. Að sjálfsögðu þurfti ég að taka það á mig að smakka eina sneið áður en að kakan yrði birt í blaðinu og ég er óhrædd við að segja að þetta er ein besta kaka sem ég hef útbúið á ævi minni. Ég mæli ótrúlega mikið með að útbúa hana við sparileg tilefni og njóta með þeim sem þér þykir vænt um.
Berjaást
Botn
- 200 g ristaðar heslihnetur
- 50 g haframjöl
- 5 msk möndlusmjör
- 4 msk hrákakó
- 3 msk kókosolía
- 150 g döðlur
- smá gróft salt
- Byrjaðu á því að rista heslihnetur við 150°C á blæstri í 10-15 mín. Nuddaðu svo hýðið af þeim þegar að þær hafa kólnað.
- Settu svo heslihneturnar í matvinnsluvél og bættu síðan restinni af innihaldsefnunum saman við.
- Þjappaðu botninum lauslega niður með höndunum í smelluform. Settu hann svo í frysti.
Grunnur að fyllingu
- 400g kasjúhnetur
- 200 ml kókosolía
- 250 g kókosjógúrt frá Abbot Kinney’s (fæst í nettó)
- Skelltu öllum innihaldsefnunum saman í blandara og láttu hann vinna alveg þar til að þetta er silkimjúkt. Settu grunninn til hliðar.
Vanillulag
- 330g af grunninum hér að ofan
- 50 ml möndlumjólk eða önnur plöntumjólk
- 2,5 msk hlynsíróp
- 1 tsk sítrónusafi
- 1/3 tsk vanilluduft
- 1 tsk kakósmjör
- gróft salt
- Öllu hrært vel saman og síðan hellt jafnt yfir botninn. Gott er að setja kökuna aftur í frysti þar til að næsta lag er klárt.
Kakólag
- 270 g af grunninum hér að ofan
- 6 msk hrákakó
- 4 msk hlynsíróp
- 50 ml möndlumjólk
- 2 tsk kakósmjör
- gróft salt
- Öllu hrært vel saman í blandara og síðan hellt jafnt yfir botninn. Gott er að setja kökuna aftur í frysti þar til að næsta lag er klárt.
Berjalag
- 100g frosin jarðaber – látin þiðna áður en notuð
- 100g frosin bláber – látin þiðna áður en notuð
- 200g af grunninum hér að ofan
- 1 msk hlynsíróp
- gróft salt
- Settu frosnu berin í sigti og leyfðu þeim að þiðna alveg með því að láta mesta vökvan leka af þeim. Forðastu samt að kremja þau né kreista.
- Settu svo öll innihaldsefninn saman í blandara og helltu berjalaginu jafnt yfir botninn.
- Kakan geymist í frysti og sniðugt er að láta hana fyrst þiðna aðeins við stofuhita og kippa henni svo inn í ísskáp þar til að á að njóta hennar. Best er að frysta hana í sneiðum og kippa út einni sneið í einu til að njóta.
Þessi færsla er unnin í samstarfi við heilsu.
No Comments