Njóttu

9 skotheldar & einfaldar sumaruppskriftir

Þegar heitara er í veðri og algengt er að maður sé meira úti að upplifa, eiga nærandi hittinga með fólkinu sínu og ferðast um landið – vill oft gleymast að næra sig almennilega. Það eru ekki svo mörg ár síðan að yfir sumartímann fór mataræðið mitt alltaf í algjört bull. Ég gleymdi að huga að því að næra mig vel, greip meira í skyndiorku og var þ.a.l. orkulaus og þreytt. Sem varð að vítahring sem erfitt var að komast upp úr því að þegar maður er þreyttur og orkulaus heldur maður áfram að leita í skyndimat og skyndiorku. Þarna líður mér ekki eins vel og þegar ég virkilega hlúi vel að mér með hollri fæðu sem er aðalástæðan fyrir því að í dag hugsa ég ótrúlega vel um að næra mig vel á því mataræði sem ég veit að gefur mér mestu lífsorkuna og kraftinn.

Það að næra sig á hollan máta á sumrin snýst ekki um að vera endalaust í eldhúsinu, gera hlutina flókna né að einblína á að ná þessu upp á 10. Aðalatriðið er að reyna að hafa 80% af fæðuvalinu sem hollast og gefa sér svigrúm hin 20% til þess að vera mannlegur í sumarfríi. Lykillinn fyrir mig sjálfa er að halda áfram að næra mig með hollum morgunverði, borða nóg af ávöxtum, drekka nóg af vatni og hafa fjölbreytt úrval af grænmeti með máltíðum. Eins að halda áfram í þær lífsstílsvenjur sem að næra mig eins og t.d. hreyfingu, náttúruhleðslu og nægan svefn. Þegar að ég sinni þessu vel, þá ómeðvitað og ósjálfrátt vel ég betri valkosti fyrir sjálfa mig og aðra í fæðuvali.

Að gefni tilefni langar mig að deila með þér uppskriftum sem að mér finnst passa mjög vel við sumartímann og skemmtilegu ævintýrin sem því fylgja.

Súrdeigssamloka

Ég elska að fara út í náttúruna í ævintýri með syni mínum og hafa mjög gott nesti með í för. Þá er einstaklega hentugt að taka með sér gómsætar súrdeigssamlokur með fullt af grænmeti á. Maður er enga stund að skella því sem maður á ofan á svona samloku en uppskrift af góðri samsetningu er hér.

Krukkugrautur

Þessi er klassískur til að taka með í útileguna og þurfa því ekkert að hafa mikið fyrir morgunmatnum á morgnanna. Þú getur gert ca. 3-4 daga skammt af þessum graut og ef þú ert með gott kælibox í ferðalaginu þá er þessi æði til að fá sér á morgnanna eða jafnvel um miðjan daginn. Uppskriftina finnur þú hér.

Mangóís

Þessi dásemd slær alltaf í gegn hjá ungum sem og öldnum. Það er svo mikil snilld að fá sér ís sem er bara gerður úr 100% ávöxtum og sleppa því við tryllingin & ójafnvægið sem fylgir oft ofsykruðum íspinnum. Þennan ís tekur enga stund að græja og finnur þú uppskriftina hér.

Útilegutacos

Úff, þetta er það besta, besta, besta! Að fá sér gómsæta máltíð eins og þessa undir berum himni nærir öll skynfærin manns á sama tíma. Ég kaupi glútenlausu tacovefjurnar í Krónunni sem er mjög þægileg stærð fyrir svona dúllutacos. Það er mjög gaman að leika sér með ólík hráefni í svona vefjur og nota það sem maður á til & auðvelt er að útbúa. Hér er uppskrift af þessari samsetningu sem er á myndinni og kasjúsósu sem ég mæli með að gera góðan skammt af fyrir útileguna, bústaðinn eða til að eiga heima með grillmatnum.

Regnbogaskál

Þessi skál er stútfull af næringu og það að fá sér eina svona í kvöldmat og eiga afgang í hádeginu næsta dag er svo dásamlega nærandi fyrir líkama og sál. Sósan sem ég deili með þér í þessari uppskrift passar með mörgum útfærslum af svona skálum, svo endilega notaðu ávallt það sem þú átt til og farðu þangað sem ímyndunaraflið tekur þig. Uppskriftin er hér.

Ávaxtaeldflaugar

Þessir frostpinnar eru æði til þess að eiga í frystinum á heitum sumardögum en líka bara til að eiga í frystinum hjá ömmu & afa. Snilld að setja þína uppáhaldsávexti saman í blandara og leyfa sköpunarkraftinum að flæða. Hér er mín uppskrift og svo fást frostpinnaformin í mistur.is síðast þegar ég vissi.

Sumarlegt salat

Þetta salat er með svo mikilli sumarstemmingu en misomareningin á sveppunum er eitthvað sem þú verður að prufa. Sinnepskasjúsósan setur svo punktinn algjörlega yfir i-ið, ég skora á þig að prófa en uppskriftin er hér.

Lúxuskaramelluíspinnar

Nafnið segir allt, þessir íspinnar eru algjör veisla fyrir bragðlaukana. Ég gerði þá með stál-íspinnaformi frá mistur.is sem ég hef notað mjög mikið en það má nota hvaða íspinnaform sem er í rauninni. Hér er uppskriftin og þessir pinnar eru algjört lúxus-trít sem gaman er að bjóða upp á og njóta sjálf/ur.

Væni græni

Þessi drykkur er ekki bara ferskur og frískandi, heldur er hann einnig mjög bragðgóður. Það er mjög gott fyrir líkama og sál að fá sér hann daglega eða helst nokkrum sinnum í viku. Hann er stútfullur af heilsubætandi efnum og styður vel við ónæmiskerfið.

You Might Also Like

No Comments

Leave a Reply