Hvernig hljómar það fyrir þér að geta fengið þér ís í morgunmat? Í mínum huga er það draumi líkast þar sem að ég ELSKA ís! Ég tala nú ekki um þegar að sólin skín og heitt er í veðri; þá vill maður kunna að útbúa girnilegan ís. Það er nefnilega enginn vandi að útbúa sinn eigin ís í eldhúsinu heima á mjög einfaldan og skjótan máta. Að þessu sinni ætla ég að deila með þér uppskrift af ís með acaídufti. En Acaí ber innihalda holla fitu, trefjar og mikið magn af andoxunarefnum. Svo gefa þau ísnum alveg einstaklega fallegan lit.
Acaíduftið sem ég notaði kemur frá uppáhaldsmerkinu mínu, Raw Chocolate Company. Þetta er gæðavara og nota ég mikið vörurnar frá þessu merki. Mórberin, kakónibburnar, chiafræin og hrákakóið eru í sérstöku uppáhaldi.
Acaí-ís
- 200g frosið mangó
- 150g frosin jarðaber
- 1 msk acaí duft
- 1 msk möndlumjólk
- Byrjaðu á því að setja innihaldsefnin saman í matvinnsluvél og láttu hana vinna þar til að fallegur sorbet-ís hefur myndast. Þú gætir þurft að stoppa einstöku sinnum til þess að skafa niður með hliðunum.
- Ísinn bráðnar frekar hratt svo ég mæli með að gæða sér á honum strax og setja restina í frysti í loftþétt box eða í íspinnaform.
Þetta er ekki flóknara en þetta, mæli mikið með að þú prófir að útbúa þennan ís sem allra fyrst fyrir þig og þína. Ég bar ísinn fram með frosnu mangói, hindberjum, bláberjum, möndlusmjöri, kókosflögum, mórberjum, chiafræjum og kakónibbum.
No Comments