Margir mikla það fyrir sér og finnst tímafrekt að borða hollt mataræði. Það er að sjálfsögðu fljótlegra að stoppa í lúgunni á skyndibitastað og/eða borða örbylgju“mat“. En þá getur þú átt von á því að þurfa að eyða miklum tíma ævinnar að borga það upp með slæmu heilsufarsástandi eins og t.d. andlegum kvillum, meltingarvandamálum, ofþyngd, sykursíki, hjartasjúkdómum, og fl. sjúkdómum sem eru óvelkomnir inn í líf manns. Er þessi tími þá sem sparaður var með skyndibitanum þess virði?
Mikil vellíðan sem fylgir því að borða hollt
Að borða hollt er mjög mikilvægt fyrir mig, bæði því það lætur mér líða stórkostlega og ég lít á það sem mikilvæga fjárfestingu fyrir líkama minn. Það kostar mig tíma, fyrirhöfn og skipulagningu en það er partur af ferlinu og algjörlega þess virði. Þetta er bara eitthvað sem þarf að gera alveg eins og að taka til og hafa hreint í kringum sig, maður gerir það bara án þess að vera að tuða neitt yfir því.
Skipulag
Ég nýti helgarnar gjarnan í það að búa til ýmiskonar góðgæti í frystikistuna til að auðvelda mér komandi viku. Mér finnst fínt að gera mikið í einu og eiga ágætan lager í frystinum. Þetta kemur sér alltaf vel og er algjör snilld að geta tekið eitthvað út á kvöldin sem þú hyggst borða næsta dag. Það er í rauninni mjög erfitt að ætla sér að borða hollan og hreinan mat, og hreinlega lifa heilsusamlegum lífsstíl, án þess að skipuleggja sig. Ef þú skipuleggur mataræðið þitt þá eru miklu minni líkur á að maður freistist í einhverja óhollustu í hungurkasti. Hvort sem þú skipuleggur hvern dag, viku eða mánuð fyrir sig þá mæli ég hiklaust með því að skipuleggja þig.
Hér er ég með hugmyndir að uppskriftum sem þú getur græjað um helgina og átt í frystinum fyrir komandi viku.
Glútenlaust brauð
Þetta brauð á ég alltaf í frystinum og er sniðugt að skera það niður áður en þú frystir það og setja bökunarpappír á milli sneiðanna svo það festist ekki saman. Ég tek út 2 sneiðar á kvöldin og borða næsta dag. Ef ég ætti þetta uppi á borði hjá mér er miklu líklegra að það fari fleiri sneiðar ofan í mig.
Chia-hrökkbrauð
Þetta hrökkbrauð er stökkt og braðgott. Chiafræin eru bragðlaus svo þú getur haft mikla fjölbreytni í hrökkbrauðsgerðinni með því að prufa þig áfram með ýmiskonar krydd og fræ. Ég set bökunarpappír á milli hrökkbrauða og frysti.
Bláberjabitar
Þessir bragðgóðu og gómsætu bláberjabitar eru tilvaldir sem laugardagsnammi og jafnvel sem millimál einstaka sinnum. Það er virkilega erfitt að grípa ekki einn með sér í hvert skipti sem maður labbar framhjá frystinum.
Sætkartöflu- og túnfiskbuff
Þessi buff eru mjög bragðgóð og sætar kartöflur og túnfiskur er hin fullkomna blanda að mínu mati. Það er ekki langt síðan að ég hætti að gretta mig yfir túnfiski og þarf maður að vera opin fyrir því að finnast hann góður. Ég var búin að ákveða að hann væri vondur en hann kemur skemmtilega út í þessum bragðgóðu sætkartöflu- og túnfiskbuffum. Ég set bökunarpappír á milli þeirra og frysti.
Hamborgari
Það er mjög sniðugt að eiga eldaða hamborgara í frystinum og geta hitað þá upp í ofninum. Mér finnst líka mjög gott að skera þá niður og borða þá kalda með góðu salati.
Hnetusmjörsbitar
Þessir hnetusmjörsbitar eru algjört gúmmelaði og hlakkar manni til alla vikunna að gæða sér á þeim á nammideginum sem er gjarnan laugardagur hjá mér. Með því að eiga nammi til í frystinum eru minni líkur á að þú freistist í einhverja óhollustu út í búð sem er stútfull af hvítum sykri og aukaefnum.
Það fer eftir fjölda heimilismanna hversu oft maður þarf að fylla á lagerinn og gæti verið sniðugt að virkja heimilismenn í skipulagningunni. Ég hvet þig til að prófa og minni þig á að vera ávallt með jákvæðnina og góða skapið að vopni.
-Anna Guðný
No Comments