Jólanna Njóttu Góðgætis

Sítrónugrassæla

4. maí, 2018

Þegar að við Snorri vorum að ferðast um heiminn fyrir nokkrum árum fundum við fljótt út úr því að ferðalagið okkar snerist bara um mat og matarupplifanir- enda er matur mikil ástríða hjá okkur báðum. Þegar að við vorum í Víetnam fundum við lítinn stað sem að var með svo góðan mat að við tölum oft um þennan stað ennþá í dag. Einn af eftirréttunum sem var á boðstólnum var sítrónugrasís sem að við vorum búin að heyra að væri algjör skylda að smakka. Hann var ekki til kvöldið sem að við komum fyrst, þegar að við vorum þarna í annað skiptið ráðlögðum við parinu við hliðina á okkur að panta hann og svo þegar að við ætluðum að fara að panta hann var hann búinn, parið fékk síðustu kúluna. Svo að við komum í þriðja sinn bara til þess að fá þennan guðdómlega ís í eftirrétt og jeminn hvað hann var góður! Besti ís sem ég hef smakkað og hefur alltaf verið markmið að reyna að bragða á honum aftur eða allavega að reyna að komast nálægt þessari fullkomnum sem við brögðuðum á. Hér er mín útgáfa af ísnum og er ég virkilega ánægð með hana. Ísinn er alveg silkimjúkur, rjómakenndur en samt svo ferskur með sítrónugrasbragðinu.

Ég nota ísvél til að búa ísinn til og finnst mér hún algjörlega nauðsynleg til þess að geta gert þennan ís. Ég hef reynt margoft að gera mjólkurlausa ísa án ísvélar og það hefur ekki heppnast vel hjá mér. Ísvélin mín kostaði ekki mikið á sínum tíma og þarf maður enga svaka græju til að gera góðan mjólkurlausan ís. Það er meira að segja hægt að kaupa ísskál á kitchen aid hrærivélar sem er sniðugt fyrir þá sem eiga svoleiðis. En ísvélin sem ég á er bara ísskál sem ég set í frysti og svo smellir maður á hana dóti til að hræra ísinn. Ég hef notað hana mjög mikið í gegnum tíðina og er ég henni alltaf jafnþakklát fyrir að gera mér það kleift að fá mér ís stöku sinnum. Ef að þú elskar ís eins og ég, þá mæli ég með að eiga svona græju.

Sítrónugrasdraumur

 • 2 biona kókosmjólk
 • 4 sítrónugrös
 • 1/2 tsk gróft salt
 • 6 döðlur
 • 2 msk kókossíróp
 • 1/2 msk sítrónusafi
 • 100g kasjúhnetur
 1. Byrjaðu á því að setja kókosmjólk, sítrónugras og salt í pott. Leyfðu suðunni að koma upp og leyfðu þessu síðan að malla á lágum hita eins lengi og þú nennir. Ég lét þetta alveg malla í 2 klst, slökkti þá undir og leyfði þessu að kólna.
 2. Síðan tók ég sítrónugrasið frá, hellti vökvanum í blandara ásamt öllum hinum innihaldsefnunum.
 3. Þegar að blandan er orðin silkimjúk, þá hellti ég blöndunni í gegnum sigti yfir í skál til að ganga úr skugga um að það séu engir stórir bitar af döðlum í blöndunni.
 4. Næst setti ég ísblönduna inn í ísskáp og lét hana kólna. Þegar að hún var orðin köld græjaði ég ísvélina mína og skellti blöndunni í hana.
 5. Það er vel hægt að geyma ísinn síðan í frysti eftir að hafa sett hann í ísvélina, en ég er ekki viss um að hann verði svona mjúkur og flottur ef hann færi ekki fyrst í ísvél.

Njóttu í botn <3

 

You Might Also Like

No Comments

Leave a Reply

Vantar þig hugmyndir að hollum og bragðgóðum mat?

Þá er rafræna uppskriftarbókin mín eitthvað fyrir þig og þú getur skoðað hana í hvaða tæki sem er. Í uppskriftarbókinni eru hugmyndir fyrir allar máltíðir dagsins ásamt ýmsu girnilegu góðgæti.

Uppskriftirnar eru vegan, glútenlausar og lausar við unna sætu.

Verslaðu bókina hér