Njóttu Hádegis- og Kvöldmatar

Vegan rjómasveppapasta

Eitt af því sem mig langar að vera duglegri við á þessu ári er að vera duglegri að elda fyrir mig eina þegar að sonur minn er hjá pabba sínum. Það er nefnilega svo mikil sjálfsást sem felst í því að gefa sér tíma og orku í að elda handa sjálfum sér ljúffenga máltíð. Þannig varð þetta pasta einmitt til, á einum af fyrstu dögum ársins þar sem ég hafði nægan tíma til þess að gera eitthvað mega gott og djúsí handa sjálfri mér. Þessi uppskrift varð því alveg óvart til í mjög næs kósý flæði og almáttugur minn, þetta er ruglaðasta samsetning sem ég veit. Þetta er alveg svona ekta rjómapasta með sveppasósu. Sveppasósan er algjörlega sturluð og það má t.d. nota hana með grænmetisbuffum, hnetusteikum, grænmetisbollum eða hvað sem þér dettur í hug.

Hráefnin í sósunni eru kannski ekki öll eitthvað sem allir þekkja, ég legg alltaf mikið upp með að hafa uppskriftirnar mínar einfaldar og með fáum innihaldsefnum sem flestir þekkja. En þessi hráefni sem eru í þessari sósu eru að mínu mati öll algjörlega nauðsynleg og hráefni eins og t.d. misomauk & næringarger eru að fara að verða nýju bestu vinir þínir í matargerð ef þú þekkir þau ekki fyrir. Þetta eru bæði hráefni sem endast mjög lengi og vel þess virði að gera sér ferð að hafa uppi á þeim.

Uppskrift

 • 100 g laukur
 • 2 hvítlauksrif
 • 150 g kastaníusveppir
 • 100 g flúðasveppir
 • 2 msk tamarisósa
 • 2 msk brúnt misomauk (fæst í veganbúðinni, nettó mjódd og melabúðinni)
 • 2,5 dl haframatreiðslurjómi frá Naturli eða Oatly (fæst bæði í krónunni)
 • 2 msk næringarger (fæst í nettó, krónunni, heilsuhúsinu og veganbúðinni)
 • Gróft salt
 • Sítrónupipar
 • 50 g strengjabaunir
 • Glútenlaust pasta eða núðlur (gott úrval í veganbúðinni & sumum Nettó verslunum)

Gott að eiga ferska steinselju og ristaðar kasjúhnetur til að skella á pastað þegar að þú borðar það.

Aðferðarlýsing:

 1. Byrjaðu á því að skera niður laukinn og sveppina. Skelltu svo lauknum í pott með ca. 1/2 tsk af grófu salti. Ef að laukurinn fer að festast við pönnuna, skvettu þá örlítið af vatni saman við.
 2. Þegar laukurinn er orðinn eldaður bættu við sveppunum og smá salti í viðbót. Reyndu að setja enga olíu, frekar að hræra í þessu og leyfa sveppunum að eldast í sínum eigin safa.
 3. Þegar að sveppirnir eru ágætlega eldaðir þá bætir þú strengjabaununum saman við.
 4. Næst bætir þú svo restinni af innihaldsefnunum saman við.
 5. Leyfðu þessu að malla á lágum hita og smakkaðu til með salti og pipar.
 6. Á meðan þetta mallar þá sýður þú pastað, ég notaði glútenlausar brún hrísgrjóna núðlur sem ég keypti í Nettó.
 7. Þegar að pastað er klárt þá sigtar þú vökvan af því og blandar því varlega saman við sósuna.

Mjög gott að bera pastað fram með ristuðum kasjúhnetum, ferskri steinselju og smá næringargeri.

Njóttu í botn elsku demantur, það væri mjög gaman að heyra frá þér ef þú prufar uppskriftina og hvernig þér líkaði hún <3

Þú finnur mig svo á instagram undir heilsaogvellidan ef þig langar í meiri hvatningu og ráð er varðar heilbrigðan lífsstíl.

Ást til þín,

Anna Guðný

You Might Also Like

No Comments

Leave a Reply