Njóttu Hádegis- og Kvöldmatar

Súrdeigssamloka

Sama hvaða árstími er, þá elska ég að fara út í náttúruna í ævintýri með syni mínum. Þá er mjög gott að hafa nesti með í för og er einstaklega hentugt að taka með gómsæta súrdeigssamloku með fullt af grænmeti á. Maður er enga stund að skella því sem maður á ofan á svona samloku en ég ætla að deila með þér hvað ég setti á samlokurnar okkar um daginn en þær komu svo vel út að ég get ekki hætt að hugsa um hversu góðar þær voru.

Ég bar samlokuna fram með

  • Lambhagasalati
  • Avocado
  • Rauðri papriku
  • Sætum kartöflum sem ég hafði bakaið í ofni í þunnum sneiðum með örlítið af olíu og salti.
  • Ferskum kúrbít sem ég hafði skorið í mjög þunnar ræmur. Ég skvetti svolítið af sítrónusafa á ræmurnar og saltaði. Lagði þetta svo til hliðar meðan ég útbjó allt hitt.
  • Hummus (uppskrift fyrir neðan)
  • Sinnepssósu (uppskrift fyrir neðan)

Hummus

  • 1 dós kjúklingabaunir
  • 1 msk sítrónusafi
  • 1/2 lúka ferskur kóríander
  • 1 msk möndlusmjör
  • 1 hvítlauksrif
  • 1 tsk gróft salt

Allt sett í matvinnsluvél þar til að hummussinn er orðin eins og þú vilt hafa hann.

Sinnepssósa

  • 300 g kasjúhnetur (betra ef lagðar í bleyti áður)
  • 3 dl vatn
  • 3 tsk dijon sinnep frá biona
  • 3 msk sítrónusafi
  • 2 tsk hlynsíróp
  • 1 tsk gróft salt
  1. Öllum innihaldsefnum er skellt saman í blandara, töfrasprota eða litla matvinnsluvél.
  2. Mikilvægt er að þú náir að blanda sósuna það vel saman að hún er alveg silkimjúk og laus við alla kekki.
  3. Ef þú sérð ekki fram á að klára þetta magn af sósu er minnsta málið að skella helmingnum í glerkrukku og frysta.

Er súrdeigsbrauð glútenlaust?

Sjálf reyni ég að sniðganga allt glúten úr fæðunni eins og ég mögulega get en ég hef fundið út að ég get borðað súrdeigsbrauð í hófi án þess að fá þau einkenni sem ég fæ þegar að ég borða glúten. Súrdeigsbrauð inniheldur hveiti og er því ekki glútenlaust. En það er ákveðið gerjunarferli að baki súrdeigsbrauðsins sem að hluta til brýtur niður glútenið í hveitinu. Því meiri gerjun sem er að baki, því minna af glúteni er í brauðinu og er það því auðmeltanlegra vegna þessa gerjunarferlis. Það er gríðarlega mikil vinna og ást á bakvið súrdeigsbrauðið ásamt því að það inniheldur engin aukaefni. Súrdeigsbrauð er þó ekki sama og súrdeigsbrauð. Ég hef prufað mörg súrdeigsbrauð og eru sum greinilega ekki að fara í gegnum þetta langa gerjunarferli en eru þó markaðssett sem súrdeigsbrauð. Það brauð sem að ég kann langmest að meta og mæli virkilega með er súrdeigsbrauðið frá the cooco’s nest en það hefur verið í uppáhaldi hjá mér í mörg ár!

Ást & kærleikur
-Anna Guðný

You Might Also Like

No Comments

Leave a Reply