Elskaðu Húðina

Nærandi húðvörur frá Angan

Það skiptir mig mjög miklu máli að nota aðeins hágæða vörur á húðina en húðin er stærsta líffærið okkar og allt sem við berum á hana á mjög greiðan aðgang inn í líkama okkar. Ég var því mjög spennt að fá það dýrmæta tækifæri að prufa hreinu húðvörurnar frá Angan og er ég mjög spennt að deila hér reynslu minni með ykkur. Þetta eru mjög gæðamiklar vörur og hef ég farið með þær eins og algjört gull eftir að ég fékk þær. Í amstri dagsins er nefnilega svo mikilvægt að taka frá stund þar sem maður nærir andlegu heilsuna með endurnærandi baði, skrúbba sig, bera á sig maska og/eða olíu. Sama hversu lítinn tíma maður hefur, þá er svo mikilvægt að við gefum okkur reglulega tíma fyrir okkur. Þetta getur gert gæfumuninn á annasömum dögum að dekra við sjálfan sig með þessum hætti.

Angan er íslenskt húðvörumerki þar sem vörurnar eru handgerðar með mikilli ást og kærleik af eigandanum sjálfum, Írisi Ósk Laxdal. Ég elska að vörurnar eru gerðar úr 100% hreinum innihaldsefnum og hvað Íris notar mikið af sjálfbærum og náttúrulegum hráefnum úr nærumhverfinu. En mér finnst t.d. mjög heilandi að saltið sem notað er í vörurnar fellur út í sjálfbærri saltframleiðslu á Vestfjörðum og að vörurnar innihaldi villtar íslenskar jurtir, sjávargróður og lífrænar olíur. Sjálf leita ég mikið út í náttúruna til þess að hressa mig við og elska ég að nota þessar vörur því þær koma með náttúruna inn á heimilið. Náttúrulegi ilmurinn og áferðin á vörunum gefur manni sömu tilfinningu og þegar að maður er úti í íslenskri náttúru.

Saltskrúbbur með fjallagrösum

Mér finnst æðislegt að skrúbba mig með þessum nærandi saltskrúbbi fyrir sturtu og skola hann svo af í sturtunni. Skrúbburinn fjarlægir dauðar húðfrumur, eykur blóðflæðið og endurnýjar húðina á svo nærandi og mýkjandi hátt. Húðin verður alveg silkimjúk á eftir. Ég elska líka hvað það er góð lykt af honum, hann nærir því ekki bara líkamann heldur sálina líka.

Volcanic glow líkamsolía

Þessi olía er lífið! Ég elska hana svo mikið en hún inniheldur gljáandi steinefni sem gera hana gulllitaða. Ég ber hana stundum á mig alla eftir sturtu til að næra húðina og gefa henni fallegan ljóma. Hún hefur einnig reynst mér vel sem andlitsolía og er hún orðin ómissandi partur af andlits húðrútínunni minni; kvölds og morgna. En þessi olía inniheldur rauðsmára-, rósaberja- og hafþyrnis olíur sem eru fullar af vítamínum, fitusýrum og andoxunarefnum.

Black Lava andlitsmaski

Ég elska að dekra reglulega við sjálfa mig með góðum maska og mæli ég mjög mikið með black lava andlitsmaskanum. Hann er hreint út sagt magnaður en hann inniheldur eldfjallaösku, náttúrulegan leir og villtar íslenskar jurtir. Það sem ég elska við þennan maska er að hann þurrkar ekki upp húðina, heldur gerir hana mjúka og vel nærða á eftir. Hann er samt hreinsandi og þrífur upp óhreinindi sem eiga það til að festast í svitaholunum.

Þara & Birki baðsölt

Baðsöltin sem ég fékk að prufa voru birki baðsalt og þara baðsalt. Ég get alls ekki gert upp á milli þeirra enda eru þau svo skemmtilega ólík. Birki baðsaltið er mjög frískandi en þara baðsaltið er meira slakandi. En bæði eiga þau það sameigilegt að næra bæði líkama og sál. Allir sem eiga baðkar ættu að hafa þessi mögnuðu baðsölt við höndina því þetta er eitt það besta sem við getum gefið okkur; endurnærandi bað með sjálfum okkur burt frá öllu áreiti.

Hægt er að fá áfyllingu á baðsöltunum hjá Angan og er þá veittur 10% afsláttur af verðinu, einnig er tekið á móti notuðum umbúðum.

Sölustaðir Angan eru m.a. Haf store, Epal, Hrím, Heilsuhúsið og að sjálfsögðu heimasíða Angan þar sem boðið er upp á fría heimsendingu.

Ég þakka Angan kærlega fyrir traustið og samstarfið. En ég fékk vörurnar að gjöf fyrir færsluna. Ég vil þó taka það fram að ég myndi aldrei mæla með neinum vörum á síðunni minni sem hafa ekki reynst mér vel. Ég mæli af öllu mínu hjarta með vörunum frá Angan og hvet alla til að prufa þær og styðja við íslenska framleiðslu.

You Might Also Like

No Comments

Leave a Reply