Það er ótrúlega magnað að upplifa það hversu hratt matarlanganir manns breytast eftir árstíðum. En haustið fyrir mér snýst alltaf rosalega mikið um að jarðtengja mig, slaka á og njóta kyrrðarinnar eftir ævintýri sumarsins. Þetta er tíminn sem maður fer í gegnum fataskápinn, les góðar bækur, tekur hæga göngutúra, gerir yoga, fer í gegnum myndirnar sínar, leyfir sér að njóta í sundi og kemur rútínunni aftur í þægilegt flæði.
Þetta er l´íka sá árstími þar sem að það er fjölbreytt úrval af íslensku grænmeti í búðunum og matvörubúðirnar breytast í nammiland. En mér finnst geggjað að geta keypt íslenskt hráefni og vita að hráefnið á disknum mínum þurfti ekki að ferðast hingað langa leið og hafi verið ræktað undir fersku lofti með hreinu vatni.
Íslenskar kartöflur er t.d. eitthvað það allra besta sem ég fæ og langar mig því að deila með þér dýrindis haustsalati sem ætti bæði að jarðtengja þig & næra. Það er mjög einfalt að búa það til og tekur í alvörunni enga stund. Einfaldleikinn er nefnilega oft bestur, það að borða holla og nærandi fæðu þarf alls ekki að vera neitt flókin formúla.
Þetta eru hráefnin sem þú þarft:
- Spínatkál
- Íslenskar kartöflur, soðnar
- Grænt pestó (ég notaði frá himneskt sem fæst í bónus)
- Rauð paprika
- Rauðlaukur
- Ristaðar furuhnetur
- Grænar ólífur
- Döðlur
Framkvæmdin:
- Byrjaðu á því að sjóða kartöflurnar, kældu þær síðan undir köldu vatni.
- Skerðu niður rauðu paprikuna, rauðlaukin, döðlurnar og ólífurnar.
- Ristaðu furuhneturnar.
- Þegar kartöflurnar hafa kólnað; skerðu þær niður og blandaðu pestóinu saman við þær.
- Skelltu svo öllu saman á disk!
N j ó t t u <3
Ást frá mér til þín,
Anna Guðný
No Comments