Árlega í sumarlok fer ég og týni eins mikið af bláberjum og ég get. En það er svo nærandi fyrir bæði líkama og sál að vera úti marga klukkutíma í senn að týna ber úti í fallegri náttúru. Maður er einhvernveginn að kveðja sumarið í berjamó og velta fyrir sér hvað maður vill einblína á í næsta kafla/árstíð. Þetta hefur orðið að skemmtilegri hefð hjá mér og 6 ára syni mínum og er afrakstur týnslunnar alltaf þyngd sinnar virði í gulli fyrir okkur. Við njótum þeirra extra vel & maður sér alltaf eftir því að hafa ekki gefið sér meiri tíma og týnt aðeins meira því þetta er í alvörunni það besta í heimi! Við elskum að setja þau út á chia grautinn á morgnanna, lauma þeim í þeytinga og setja þau í hrákökur. Hrákökur eru s.s. kökur sem maður bakar ekki, frystir og þær eru aðallega gerðar úr hnetum svo þær eru mjög saðsamar.
Ég elska að gera hrákökur og finnst svo skemmtilegt að fá útrás fyrir sköpunarkraftinn með því að leika mér að gera þær í eldhúsinu. Það er svo gaman að smakka til mismunandi lög, skreyta þær og það jafnast ekkert á við að opna smelluformið þegar að maður er búin að láta öll lögin frystast yfir nótt. Elska það!! En ok, nóg um ást mína á hrákökugerð. Vindum okkur í uppskriftina og að hjálpa þér að komast yfir í töfrandi stund í eldhúsinu þínu elsku gull.
Uppskrift
Botn
- 50 g heslihnetur
- 25 g möndlur
- 50 g kókosmjöl
- 1/2 dl kókosolía
- 2 msk kakó
- 150 g döðlur
- 1 msk möndlusmjör
- gróft salt
Aðferð:
Byrjaðu á því að rista hneturnar í ofni með því að setja þær á lágan hita. Leyfðu þeim svo að kólna og settu öll innihaldsefnin saman í matvinnsluvél þar til að fallegt deig hefur myndast. Þjappaðu því ofan í lítið smelluform sem er 20 cm í þvermál. Frystu svo.
Grunnur
- 300 g kasjúhnetur, lagðar í bleyti í 8 klst
- 2 dl feit kókosmjólk, ég kaupi frá santamaria í fernu (Bónus)
- 1 dl kókosolía, bráðin
- börkur af 1/2 lífrænni sítrónu
- 1 dl hlynsíróp
- 4 msk kakósmjör, bráðið
- 1 msk sítrónusafi
- 1/2 tsk vanilluduft
- gróft salt
Ath! Grunninum er skipt í 2 hluta
Aðferð:
Byrjaðu á því að láta kasjúhneturnar í bleyti yfir nótt eða a.m.k. í 8 klst. Skolaðu þær svo og settu þær í blandara ásamt öllum hinum innihaldsefnunum. Blandaðu þar til þetta er silkimjúkt. Taktu botninn úr frystinum og heltu helmingnum af grunninum yfir hann. Hafðu hinn helmingin áfram í blandaranum. Frystu kökuna í dágóða stund áður en þú hellir bláberjalaginu yfir hann.
Bláberjalag
- 1/2 af grunni
- 2,5 dl frosin bláber
Blandaðu grunnlaginu áfram vel í blandaranum eftir að þú setur bláberin saman við. Helltu bláberjalaginu yfir vanillulagið þegar að það er orðið ágætlega frosið. Frystu kökuna svo áfram þar til næsta dag.
Súkkulaðikrem
- 3 msk kakósmjör bráðið
- 4 msk kakó
- 1 msk möndlusmjör
- 2 msk hlynsíróp
- 2 msk kókosmjólk (má sleppa)
- 1/5 tsk vanilluduft
- salt
Hrærðu öllum innihaldsefnunum saman í skál, passaðu þig að kakósmjörið sé búið að kólna smá áður en þú hrærir öllu saman. Ef að kremið skilur sig, þá er um að gera að kæla það, hita það rólega upp aftur og hræra því mjúklega saman. Best er að bera kremið á kökuna næsta morgun eða þá allavega þegar að hún er alveg orðin frosin.
Tvö ráð í lokin
- Það er mjög sniðugt að gera botninn í tvöföldu magni, hnoða helmingnum í litla bolta og þá ertu komin með frábærtar orkukúlur til að eiga milli mála.
- Þegar þú ætlar að bera kökuna fram, leyfðu henni að standa í klst áður til að hún sé orðin mjúk og góð. Skerðu hana svo niður í sneiðar að kaffistundinni lokinni og frystu sneiðarnar í loftþéttu gleríláti.
Njóttu elsku gull <3



No Comments