Njóttu Hádegis- og Kvöldmatar

Jarðskokkasúpa

2. nóvember, 2017

Þessi súpa hefur slegið í gegn hjá öllum þeim sem hafa smakkað hana enda er hún fáranlega góð. Það vita kannski ekki allir hvað jarðskokkar eru og er í rauninni mjög stutt síðan að kærasti minn, Snorri, kynnti mig fyrir þeim. Þetta er grænmeti sem er með svipaðri áferð og kartöflur en bragðast samt allt öðruvísi. Við höfum fundið mjög fallega jarðskokka í frú Laugu og einnig fundið þá í Krónunni.

Snorri á heiðurinn af þessari frábæru uppskrift en hann hefur útbúið þessa unaðslegu súpu fyrir mig mjög oft og hef ég alltaf beðið hann um að gera stóran skammt af henni svo ég geti sett afgangin í krukkur og fryst. Mér finnst æðislegt að eiga til mat í frystinum til að grípa í þegar ég hef lítinn tíma til að elda mér mat. Mikilvægt er þó að hafa í huga að fylla ekki glerkrukkurnar alveg þegar frysta skal súpur í þeim, þá springa þær – ég hef því miður reynslu af því.

Jarðskokkasúpa

 • 100g laukur
 • 350g jarðskokkar
 • 500 ml vatn
 • 1 hvítlauksrif
 • 1/2 dós af kókosmjólk
 • 1/2 tsk sítrónusafi
 • 1/2 tsk tamarisósa
 • gróft salt
 1. Byrjaðu á því að brúna laukinn í og bættu síðan jarðskokkanums saman við þar til þeir eru líka fallega brúnaðir.
 2. Saxaðu eða pressaðu hvítlauksrifið og bættu því saman við.
 3. Bættu restinni af innihaldsefnunum saman við og láttu malla í 30-40 mínútur.
 4. Settu síðan allt góssið í blandara og láttu blanda þar til silkimjúkt. Láttu lofta aðeins út um blandaralokið svo að súpan gjósi ekki um alla veggi hjá þér. Sniðugt er að tylla viskustykki yfir lokið svo að súpan skvettist ekki.
 5. Þegar að þú heldur að súpan sé orðin nógu vel blönduð láttu blandaran þá vinna aðeins lengur.
 6. Ég mæli með að hita súpuna aðeins aftur í pottinum og smakka hana til með grófu salti. Það þarf alveg svolítið magn af salti í þessa súpu til að ná bragðinu fram.
 7. Súpan er mjög góð með fersku óreganó og lífrænni kaldpressaðari ólífuolíu.

Njóttu í botn!

 

You Might Also Like

No Comments

Leave a Reply