Njóttu Góðgætis Jólanna

Jarðarberjahrákaka

15. nóvember, 2017

Snilldin við hrákökur

Hrákökur eru í miklu uppáhaldi hjá mér því að það er hægt að leika sér endalaust með þær. Það er líka mjög fljótlegt og þægilegt að útbúa þær. En það sem að mér finnst best við þær er að þær geymast í frysti en þeir sem hafa lesið nokkrar uppskriftir frá mér vita að ég er aldrei glaðari en þegar ég á fullt af góðgæti til í frystinum. Það er virkilega sniðugt að eiga hráköku í frystinum og grípa í hana þegar gesti ber að garði. Eins þegar halda á boð getur maður unnið fram í tímann með því að bjóða upp á hráköku og njóta þ.a.l. veisludagsins betur án þess að þurfa að hafa fyrir því að útbúa eitthvað með kaffinu.

Að þessu sinni útbjó ég hráköku úr jarðarberjum sem að smakkast guðdómlega að mínu mati. Hún er silkimjúk og bráðnar algjörlega í munni – alveg eins og ég vil hafa hana. Mér finnst best að gera hrákökur litlar bæði vegna þess að hráefnið í þær er dýrt og til þess að maður fái ekki nóg af sömu hrákökunni. Formið sem ég notaði er 15 cm í þvermál og finnst mér það fullkomin stærð.

Hvaðan koma jarðarberin þín?

Ég elska þegar að ég sé íslensk jarðarber í búðum enda eru þau hið mesta sælgæti fyrir mér. En það er mér hjartans mál að styðja innlenda ræktun og að kaupa hreint hráefni. Ég veit að mörgum ofbýður verðið á íslenskum jarðarberjum en það er ástæða fyrir því að þau kosta ekki klink. Íslensk jarðarber eru algjör lúxusvara, ræktuð í gróðurhúsum þar sem íslenskt vatn er notað og lífrænum vörnum er beitt. En jarðarber eru efst á lista ewg yfir það sem er mjög mikilvægt að kaupa lífrænt. Þó að ég hef ekki oft séð íslensk jarðarber stimpluð sem lífræn hérna út í búð þá eru þau án efa mun betri kostur heldur en erlend jarðarber. Það er búið að sprauta erlendu jarðarberin með allskonar eitri til þess að þau haldist fersk eins lengi og hægt er til að þola innflutninginn alla leið hingað til okkar. Það er ástæða fyrir því að íslensku berin skemmast mjög fljótt og þau erlendu eru eins í langan tíma. Fersk jarðarber setja svo margt í lúxusbúning og elska ég að gera vel við mig með því að setja þau í eftirrétti, chia grautinn, þeytinginn eða jafnvel dífa þeim í bráðið súkkulaði.

Jarðarberjahrákaka

Botninn

 • 80g döðlur
 • 50g haframjöl
 • 3 msk kókosolía
 • hnífsoddur salt
 1. Settu öll innihaldsefnin saman í matvinnsluvél þar til að þetta er orðið vel blandað saman.
 2. Klæddu formið með bökunarpappír og þjappaðu botninum í formið.
 3. Settu formið í frysti.

Grunnur að lagi 1&2

 • 2 dl útbleyttar kasjúhnetur (1,25 dl áður en lagðar í bleyti)
 • 50 ml kókosolía
 • þykki parturinn úr 1 dós af biona kókosmjólk
 • 2 msk hlynsíróp
 • hnífsoddur salt
 1. Skolaðu kasjúhneturnar og settu þær ásamt öllum hinum innihaldsefnunum saman í blandara.
 2. Blandaðu vel og lengi þar til að blandan er silkimjúk.
 3. Taktu helmingin af blöndunni frá og legðu til hliðar.

Vanillulag

 • 1/2 af grunninum
 • 1 msk bráðið kakósmjör
 • 1/4 tsk vanilla
 1. Settu öll innihaldsefnin í blandara og blandaðu þar til silkimjúkt.
 2. Settu vanillulagið yfir botninn og settu það aftur í frysti.

Jarðarberjalag

 • 1/2 af grunninum
 • 100g fersk íslensk jarðarber
 1. Bættu hinum helmingnum út í blandarann ásamt jarðaberjunum og blandaðu vel og lengi.
 2. Bættu jarðarberjalaginu yfir vanillulagið og settu kökuna aftur í frysti.Leyfðu kökunni að vera 4-5 klst í frysti í viðbót.

Láttu kökuna síðan standa í ca. 30 mín áður en þú berð hana fram, þú vilt geta skorið auðveldlega í gegnum hana.

Þessi færsla er unnin í samstarfi við heilsu. 

Njóttu í botn <3

You Might Also Like

4 Comments

 • Reply Svanhildur 17. nóvember, 2017 at 09:55

  Namm😊þessa ætla ég ađ prófa um helgina😊

  • Reply heilsaogvellidan 17. nóvember, 2017 at 22:12

   Yndislegt, væri gaman að heyra hvernig þér líkar 🙂

 • Reply Dísa 24. febrúar, 2018 at 00:26

  Er bara súkkulaðibrað ofaná?

  • Reply heilsaogvellidan 28. febrúar, 2018 at 13:44

   Já það er bara sem skraut, alls ekki nauðsynlegt að hafa það með 🙂
   En þetta er ca. 2 msk kókosolía, 2 msk hrákakó, 1 msk hlynsíróp og smá salt hrært saman,

  Leave a Reply