Það er svo heimilislegt að fá góðan bökunarilm á heimilið og alltaf gaman að gæða sér á heimabökuðu brauði. Að þessu sinni útbjó ég bananabrauð sem að kom ótrúlega skemmtilega út. En brauðið er vegan ásamt því að vera laust við unna sætu og er glútenlaust. Ég elska áferðina á því, en brauðið er frekar klesst og alls ekki þurrt.
Ég elska að eiga til gott brauð og er það mitt uppáhalds millimál. Svona brauð er alltaf best fyrstu 3 dagana eftir bakstur. Ef að þú sérð ekki fram á að klára það á þeim tíma myndi ég skera það niður í sneiðar og frysta. Þá er mjög þægilegt að taka út sneiðar fyrir daginn þegar að maður á annríkt.
Eftir að ég hætti að borða egg eru möluð chiafræ mikið notuð í bakstur hjá mér. Ég nota líka stundum möluð hörfræ og virka þau alveg eins og chiafræin. Kaffikvörnin mín er því orðin eitt mest notaða heimilistækið. Hún kostaði innan við 3000 kr á sínum tíma og sé ég alls ekki eftir þeim kaupum.
Bananabrauð
- 150 g glútenlaust haframjöl
- 50 g möluð chia fræ
- 150 g möndlumjöl
- 100g kókoshveiti
- 250 g bananar
- 1,5 tsk vínsteinslyftiduft
- 8 döðlur
- 1 msk salt
- 300 ml vatn
- 2 msk kókosolía
- Byrjaðu á því að mala haframjölið í blandara/matvinnsluvél/kaffikvörn.
- Malaðu næst chia fræin í kaffikvörn.
- Blandaðu þurrefnunum saman í skál
- Settu bananana, döðlur, salt, vatn og kókosolíu í matvinnsluvél/blandara og láttu vinna vel saman.
- Bættu síðan bananablöndunni saman við þurrefnin.
- Settu í form og bakaðu við blástur við 175 °C. Eftir 30 mínútur tekur þú það úr forminu og bakar það svo í 40 mínútur í viðbót án formsins. Þá myndast falleg skorpa.
- Leyfðu brauðinu að kólna áður en þú skerð það.
Ég mæli svo með að geyma brauðið í ísskáp, en það er langbest kalt. Hljómar furðulega, en ég mæli sterklega með því.
Mér finnst kókosolía passa mjög vel með þessu brauði en sjálf borða ég ekki smjör. Ég ákvað því að gera mitt eigið kókosolíusmjör með brauðinu sem kom mjög vel út.
Þeytt kókosolíusmjör
- 3 msk kókosolía
- 1/2 tsk gróft salt
Þeytt saman í smá stund í hrærivél eða með handþeytara.
Njóttu í botn!
-Anna Guðný
No Comments