Systir mín sendi mér frábæra grein um hugleiðslu nú á dögunum sem ég þurfti sko aldeilis á að halda. Ég var svo dugleg að hugleiða á hverjum degi í fyrravor þegar ég var að læra undir inntökuprófið í læknisfræði og bjargaði það mér gjörsamlega frá því að glata geðheilsunni. Ósk, þerapistinn minn, ráðlagði mér að byrja að hugleiða því ég var svo kvíðin og með hrikalegan lærdómskvíða. Mér féllust oft hendur yfir öllu því sem ég ætlaði að læra yfir daginn að ég gat ekki byrjað að læra. Þar kom hugleiðslan mér algjörlega til bjargar. Þá sat ég í lótus-stellingu í sófanum og notaði öndun sem Ósk kenndi mér sem heitir Ujjayi á sanskrit en er oft kölluð sjávarhljóðsöndun á íslensku. Ég var ekki að rembast við að tæma hugann og hugsa ekki neitt, heldur leyfði ég hugsununum að koma en tók enga hugsun sérstaklega fyrir og fór að hugsa um hana. Þetta gerði ég í 11 mínútur og virkaði þetta mjög vel fyrir mig.
Ujjayi öndunin var einnig mjög gagnleg þegar ég fékk kvíðakast. Þá lagðist ég á gólfið með fætur upp á stól og notaði þessa öndun. Þetta gerði ég kannski í ca 8 mín eða þangað til ég var búin að róast niður og farin að hugsa skýrt.
Í fyrrahaust og núna eftir áramót hef ég verið að vinna vaktavinnu og hef ég ekki komið hugleiðslunni í rútínu. Nú er ég harðákveðin í að byrja aftur að hugleiða á hverjum degi því það gerir manni svo ótrúlega gott. Maður tengist sjálfum sér svo miklu betur og það verður svo auðvelt að hlusta á líkamann. Ég kemst í miklu meira jafnvægi með því að hugleiða og ég verð ekki jafn auðveldlega stressuð og kvíðin.
Í nútímasamfélagi er svo mikilvægt að staldra við, líta inn á við og róa hugann. Ef við erum alltaf á hlaupum og þ.a.l. stressuð þá missum við gjörsamlega tengslin við okkur sjálf. Tækninni fer stöðugt fram og eiga margir hverjir snjallsíma. Þeir geta gert sitt gagn en það er samt skelfileg þróun í gangi sem við erum mörg hver að taka þátt í. Facebook, instagram, tölvupósturinn og fl. er beintengt við símann og erum við fyrir stöðugu áreiti. Ég er alveg 100% viss um að stress, streita, kvíði og þunglyndi geti verið rót ýmissa sjúkdóma. Því er mikilvægt að byrja strax í dag að taka málin í sínar hendur og byrja að hugleiða. Með því að stunda hugleiðslu muntu auka núvitund þína og komast í meira samband við innsæið þitt.
Ég hvet þig, lesandi góður, að taka skref fram á við og gefa þér tíma í að hugleiða á hverjum degi. Að hafa ekki tíma er ekki gild afsökun, ef þú hefur tíma fyrir að skrolla í gegnum Facebook þá hefur þú sko aldeilis tíma í að detta í eina hugleiðslu. Við viljum ekki ala upp komandi kynslóð á því að vera alltaf á hlaupum eða flýja inn á facebook ef maður lendir í vandræðum. Lítum inn á við og vertu 100% þú sjálfur.
Allt sem þú þarft til að byrja að hugleiða er þessi grein hér. Það er einnig til helling af hugleiðslu-öppum, hugleiðslu-videoum á youtube og ýmsum fróðleik um hugleiðslu á internetinu til að koma þér á sporið.
Það er ekkert mál að koma hugleiðslu í líf þitt, þú þarft bara að vilja það nógu mikið og koma þessu í rútínu.
Góðar stundir <3
No Comments