Andaðu

Hægan, hægan

Það er algengt að ætla að sigra heiminn strax í ársbyrjun og sumir fara alveg á fullt í að breyta lífsstílnum strax í byrjun janúar. Jafnvel er keypt kort í ræktina, farið á fullt í að mæta, ýktar breytingar gerðar í mataræði en samt er jafnvel ennþá sami hraðinn í bæði vinnu, félags- og fjölskyldulífi. Þegar að maður gerir breytingar í miklum öfgum og á miklum hraða þá er því miður mjög líklegt að það mun ekki líða svo langur tími þar til maður er aftur á byrjunarreit, vonsvikinn með sjálfan sig og fer enn dýpra í sama gamla farið. Ástæðan er líklega sú að þetta verður of mikið álag á kerfið og of miklar breytingar eru gerðar í einu. Plús, að það er ennþá okkar dimmasti árstími og að mínu mati mikilvægt að gefa sér tíma til að hlaða batteríin með meiri hvíld, nærandi samveru, göngutúrum og rólegheitum. Við verðum að eiga orku og kraft til að leggja af stað í breytingar.

Lykilatriði að öllum lífsstílsbreytingum að mínu mati er að sýna sjálfum sér mildi, að vera virkilega með sér í liði og gefa sér rými til að gera breytingarnar á þeim hraða sem maður hefur orkulega efni á hverju sinni. Það er mjög sniðugt að taka eina breytingu í einu, innleiða hana og gefa sér tíma í það. Á netnámskeiðinu mínu Endurnærðu þig hef ég hjálpað yndislegum einstaklingum að gera nærandi & heilsubætandi lífsstílsbreytingar á mjög einfaldan og þægilegan hátt. Þar hugum við að andlegri heilsu, hreyfingu og hollu mataræði, enda vinnur þetta allt svo mikið saman og styður við hvort annað. Breytingarnar eru gerðar á hægu tempói á þægilegan hátt og námskeiðið er 6 mánuðir að lengd. Sem að er hálft ár og kann að hljóma sem langur tími, en að gera einfaldar breytingar yfir langan tíma og taka eina breytingu fyrir í einu hefur þau fallegu áhrif að þessar breytingar verða langvarandi partur af lífsstílnum. Það hefur verið algjörlega magnað að fylgjast með skjólstæðingum mínum og sjá svo skýrt að þetta virkar svo vel að taka eitt skref í einu og sýna sér mildi & þolinmæði í gegnum það.

Það skiptir máli hvernig maður nálgast sjálfan sig og hvernig maður talar til sín í gegnum breytingar. Er maður að gera breytingar til að refsa sér fyrir lélegt úthald, ákveðið útlit eða er maður að gera breytingarnar til að upplifa meiri lífsgleði, styrk og vellíðan? Þetta tvennt er gjörólíkt og miklu meiri líkur að ná að gera langvarandi breytingar þegar maður gerir þær útfrá sjálfskærleika og þolinmæði í eigin garð. Það má misstíga sig og taka einn dag í einu, það er enginn sem nær að snúa blaðinu við á einni nóttu og mikilvægt að líta á þetta sem skemmtilegt ferðalag þar sem að maður nýtur flugsins líka – ekki bara áfangastaðarins.

Áður en maður fer að innleiða nýjar venjur í lífsstílnum er gott að vita af hverju maður er að gera það. Finndu í hjartanu þínu hvað þú virkilega þarft á að halda til að öðlast meiri jafnvægi og lífsgleði. Mikilvægt er að þú sért að gera hlutina fyrir sjálfa/n þig en ekki af því að einhver í kringum þig er að gera það og þér finnst að þú eigir að vera að gera það líka. Ef þú ert að upplifa orkuleysi, depurð eða vonleysi – þá veistu af hverju þú ert með þann ásetning að fara t.d. daglega í göngutúr í náttúrunni með hvetjandi bók í eyrunum. Þ.a.l. er líklegra að þú takir því alvarlega og virkilega takir frá tíma í dagbókina þína fyrir það. Ég hvet þig að taka eina breytingu fyrir í einu og innleiða hana áður en þú tekur þá næstu fyrir.

Þannig að áður en þú gerir breytingar þá getur þú spurt þig að eftirfarandi spurningum:

  1. Hvernig líður mér núna?
  2. Hverju vil ég breyta?
  3. Af hverju?
  4. Hvaða áhrif mun sú breyting hafa á líf mitt?
  5. Hvernig vil ég breyta?
  6. Hvað er fyrsta skrefið?
  7. Hvenær ætla ég að innleiða þessa breytingu? Hvaða daga, klukkan hvað?

Mundu svo að þú átt innilega skilið að taka frá tíma fyrir þig til þess að hlúa vel að þér og þinni heilsu. Þú ert eina manneskjan í þínu lífi sem getur séð til þess að þér líði vel og því fyrr sem þú tekur ábyrgð á því – því fyrr munt þú blómstra í þínu lífi og geta gefið mun betur af þér til fólksins þíns og öllu því sem þú tekur þér fyrir hendur.

Ef þig vantar aðstoð eða hvatningu við að koma þér út úr gamla farinu þá er ég með í boði einstaklingsnámkseið í þerapíunni Lærðu að elska þig, einstaklingstíma í heilsumarkþjálfun og auðvitað netnámskeiðin Endurnærðu þig og Ræktaðu samband þitt við þig. Endilega sendu mér línu og við finnnum út hvað hentar þér best fyrir þig núna.

Risa knús til þín og gangi þér vel,

Anna Guðný

You Might Also Like

No Comments

Leave a Reply