Andaðu

Eftir hverju ertu að bíða?

Við gerum okkur kannski ekki grein fyrir því, en stundum eyðum við dýrmætum tíma lífsins á biðstofunni. Við bíðum eftir deginum þar sem að við munum verða tilbúin. Við bíðum eftir deginum þar sem að við verðum örugg með okkur. Við bíðum eftir deginum þar sem að við verðum laus við ótta. Og við höldum að þegar að þessi dagur mun renna upp, ÞÁ munum við sko fara og gera allt það sem okkur hefur alltaf langað til þess að gera.

En málið er..

Að mörg okkar halda áfram að bíða.
Og bíða..
Og bíða..
Og bíða svo ennþá lengur út allt lífið.
Stóri misskilningurinn er hins vegar sá að þessi dagur er ekki að fara birtast allt í einu á glimmerskýi. Það sem að við erum að bíða eftir mun aðeins koma þegar að við förum út úr biðstofunni og framkvæmum.
En það sem að stoppar okkur að yfirgefa biðstofuna er ótti. Ótti við hið óþekkta, ótti við að mistakast, ótti við höfnun og ótti við að vera ekki nóg. Það sorglega er að mörg okkar munu deyja án þess að hafa nokkurn tímann lifað. Við skulum ekki leyfa óttanum að halda aftur af okkur og leyfa honum að hindra það að við munum elta draumana okkar og hlusta á hjartað okkar. Lífið snýst um svo miklu meira en að vinna, borða og sofa.

Við ætlum að sigra þennan ótta og það sem að mun sigra hann er hugrekki

En hvað er hugrekki?

  • Hugrekki er að sætta sig við að lífið er ekki fullkomið.
  • Hugrekki er að vera 100% við sjálf og vera óháð skoðunum annarra.
  • Hugrekki er að þora að takast á við sjálfan sig og tilfinningar sínar.
  • Hugrekki er að leggja okkar af mörkum til heimsins og standa fyrir því sem okkur liggur á hjarta.
  • Hugrekki er að vera óhrædd við að vera byrjandi.
  • Hugrekki er að halda áfram þegar að hlutirnir reynast erfiðir.
  • Hugrekki er að vera óhrædd við að gera mistök.
  • Hugrekki er að læra af mistökum sínum.

Njótum ferðalagsins

Við þurfum ekki alltaf að vita öll skrefin í átt að því sem okkur langar að gera og framkvæma. Við tökum bara fyrir eitt skref fyrir í einu og njótum ferðalagsins. Ferðalagið gengur ekki alltaf fullkomlega fyrir sig. Það verða holur á veginum og maður verður bensínlaus á leiðinni. Við þurfum að reka okkur á hér og þar til að draga af því mikilvægan lærdóm. En það er líka allt í lagi því að þetta verður allt þess virði og allt eins og það á að vera.

Þrátt fyrir að hafa gengið í gegnum allskonar tilfinningar, mistök, sigra, grát og gleði – þá munt þú aldrei hafa viljað fara á mis við það að elta draumana þína. Þegar að við höfum sýnt það hugrekki að mæta óttanum okkar og gera það sem okkur langar þá munum við uppskera áður óþekktar tilfinningar eins og lífsgleði, þakklæti, eldmóð, sjálfsást, kærleik og hamingju. Við munum öðlast líf þar sem við munum loksins byrja að lifa og allar frumur líkamans iða af lífskrafti. Okkur mun líða vel í eigin skinni og vera óhrædd við það sem lífið býður upp á. Við munum læra hversu magnað það er hlusta á hjartað okkar og það mun ekkert stoppa okkur í því að gera það sem það segir.

Svo, hverju ertu að bíða eftir ?
Yfirgefðu biðstofuna, taktu fyrsta skrefið og láttu drauma þína rætast.

You Might Also Like

No Comments

Leave a Reply