Andaðu

Taktu stjórnina og lyftu andanum

Ljósmyndari: Ingibjörg Torfadóttir

Það eru miklar breytingar sem hafa orðið á lífi okkar allra og þessar breytingar geta ýtt undir tilfinningar eins og ótta, sorg, reiði & hræðslu. Það er fullkomlega eðlilegt að finna fyrir öllum tilfinningaskalanum á hverjum einasta degi. Breytingarnar gerðust mjög hratt og við erum kannski enn að klóra okkur í hausnum að þetta sé bara í alvörunni staðan. Eins getur verið erfitt að vita ekki hvenær við komumst í gegnum þetta og hvenær lífið verður aftur eins og áður. Það er best fyrir okkur að sleppa tökunum á að þurfa að vita svörin og treysta að þetta verði í lagi. Eins er mikilvægt að muna að við getum ekki stjórnað þessum aðstæðum en við stjórnum hvernig við bregðumst við þeim.

Mig langar að deila með þér mínum ráðum til þess að þú getir nýtt þennan tíma til fulls. Það leynast nefnilega tækifæri í þessu ástandi og það er algjörlega undir þér komið hvort þú ætlir að nýta þau eða ekki. Stærsta tækifærið er að þú getur tengst þér betur en áður og hlúið vel að þér. En hvernig? Byrjum á byrjuninni…

Hvernig líður þér?

Fyrsta skrefið er að taka stöðuna á þér og tilfinningum þínum.

 • Hvernig líður þér?
 • Hvaða hugsanir eru í gangi?
 • Er eitthvað sem þú getur gert til að líða betur núna? Hvað?
 • Hvernig sérðu lífið fyrir þér þegar að þetta tímabil er afstaðið?
 • Hvernig líður þér þá? Virkilega kafaðu í þessa tilfinningu og leyfðu þér að finna fyrir henni í líkamanum. Ýktu hana upp.
 • Ætlar þú að gera einhverjar breytingar í þínu lífi þegar að þetta er yfirstaðið?
 • Hvaða jákvæðu áhrif hefur þettta tímabil haft á líf þitt?

Náðu þér í blað & penna og svaraðu þessum spurningum. Forðastu að dæma svörin sem koma. Ýmyndaðu þér að 4 ára barn sé að deila með þér hvernig því líður; þú dæmir ekki heldur leyfir því að finna fyrir því að þú sért að hlusta og sért til staðar fyrir það. Það er svo heilandi að skrifa niður tilfinningar sínar og getur það létt mikið á manni.

Andaðu

Þegar að þér líður illa og þú veist ekki hvernig þú kemst út úr tilfinningunni; einblíndu þá á öndunina. Leyfðu þér að anda ofan í yfirþyrmandi tilfinningar með hugleiðslu og öndunaræfingum (mæli með Wim Hof og Calm öppunum). Reyndu að staðsetja hvar í líkamanum þú finnur fyrir tilfinningunni og andaðu ofan í þann líkamspart. Öndunaræfingar og hugleiðsla eru frábær tól til þess að endurræsa hugann og minnka áhyggjur, stress og kvíða. Í hugleiðslunni mæli ég með því að fara með þessar staðhæfingar. Það er líka gott að grípa í þær yfir daginn þegar að hugurinn leitar í óttann og hræðsluna.

 • ,,Ég er til staðar fyrir mig”
 • ,,Þetta verður allt í lagi”
 • ,,Þetta fer allt vel”
 • ,,Ég er örugg/ur”
 • ,,Það er séð um mig”

Einblíndu á það jákvæða

Nú mæli ég með því að minnka það að skoða fréttir eða jafnvel sleppa því alveg. Fyrir þá sem finna fyrir kvíða yfir því sem er að gerast núna þá eru fréttir bara að fara að auka kvíðann og óttann innra með þér. Ef að það er eitthvað sem þú þarft nauðsynlega að vita þá mun það alltaf berast til þín með öðrum leiðum en í gegnum fréttir. Fréttir blása upp allt það neikvæða sem er að gerast í heiminum en núna þurfum við að einblína einmitt á það jákvæða og góða. Það er margt svo dásamlegt að gerast í heiminum á þessum tímum sem er vert að einblína á. Við höfum meiri tíma fyrir okkur sjálf og þá sem standa okkur næstir. Fólk er að hlúa betur að sjálfu sér og sýna hvort öðru meiri samstöðu, samkennd & ást. Á sama tíma er móðir náttúra loksins að fá að anda því að mengun hefur snarminnkað.

Þakklæti

Ég mæli með því að þú einblínir á það á hverjum degi hvað þú ert þakklát/ur fyrir í lífi þínu í dag. Skrifaðu niður 5 atriði á hverjum degi sem þú ert þakklát/ur fyrir. Þetta þarf ekki að vera eitthvað risastórt, getur jafnvel verið bara þakklæti yfir því að geta klætt þig, tannburstað þig, greitt þér, andað o.s.frv. Með því að einblína á þakklætið þá ferð þú í jákvæðar tilfinningar og þ.a.l. í hærri orku. Í þessari orku laðar þú til þín fleiri ástæður til þess að vera þakklát/ur fyrir í lífinu. Reyndu því að hoppa yfir í þakklætið eins oft og snúa óttanum yfir í þakklæti. Spurðu þig; ,,hvað er það sem er jákvætt í þessu og hvernig get ég verið þakklát/ur fyrir það?”.

Ljósmyndari: Ingibjörg Torfadóttir

Hvað lætur þér líða vel?

Punktaðu niður á blað allt sem þú getur gert fyrir þig sem lætur þér líða vel. Þá er ég að meina langvarandi vellíðan, ekki 10 mín sæluvímu eftir að hafa borðað uppáhalds matinn þinn. Ég ætla að deila með þér því sem ég geri og lætur mér líða svo stórkostlega vel.

 • Hreyfing
  Í alvörunni, þetta er lykilatriði núna. Finndu út hvaða hreyfingu þú elskar að framkvæma. Það gæti t.d. verið útihlaup, yoga, fjallgöngur, heimaæfingar eða göngutúrar í náttúrunni. Nú hefur þú tíma til þess að máta þig við þetta allt saman og sjá hvað hentar þér best. Tilfinningin sem fylgir því að hreyfa sig er ólýsanleg og þessi tilfinning setur svo dýrmætan tón í daginn hjá þér. Það mun breyta öllum deginum hjá þér ef þú gefur þér tíma fyrir hreyfingu.
 • Náttúra
  Ef það er eitthvað að angra mig þá er mín lausn alltaf sú að fara út í náttúruna og skoða þar hvað er að gerast innra með mér. Þetta geri ég í rólegum göngutúr eða jafnvel keyri þar sem enginn er og sest ein úti í fallegri náttúru. Bara það að komast í tengingu við náttúruna er algjörlega magnað. Þarna hverfur oft sá hnútur sem maður var búinn að búa til innra með sér með áhyggjuhugsunum og ótta. Náttúran sem við höfum aðgang að er engu lík og býr yfir þeim mætti að geta fyllt okkur af magnaðari orku.
 • Tónlist
  Nú er tíminn til að kaupa sér áskrift af spotify. Vertu skapandi og búðu til þína uppáhalds playlista. Einn fyrir hreyfingu, einn fyrir vinnuna og einn til að hækka orkuna á morgnanna. Ég væri t.d. ekki að fara út að hlaupa svona oft ef ég væri ekki með tónlist í eyrunum á meðan. Ef að þú finnur fyrir vonleysi og langar ekki fram úr á morgnanna; þá mæli ég með flytjendunum White Sun og Snatam Kaur á spotify. Að hlusta á svona möntrutónlist breytir öllu þegar að lífið er eitthvað yfirþyrmandi eða manni langar bara að komast í meiri vellíðan.
 • Mataræði
  Nú er engin afsökun fyrir því að geta ekki borðað hollt. Nú hefur þú tímann til að læra að útbúa holla fæðu í eldhúsinu heima hjá þér. Það er að mínu mati svo miklu öflugari vörn gegn vírusnum en að spritta hendurnar. Með því að borða heilnæma fæðu þá styrkir þú ónæmiskerfið sem segir mikið til um hvernig þú tekst á við veikindi. Bættu við fullt af ávöxtum og grænmeti í fæðuna þína. Ef að þig langar að innleiða holla fæðu í lífsstíl þinn með minni aðstoð þá er ég með netnámskeiðið Endurnærðu þig.
 • Áhugamál
  Nú er frábær tími til þess að sinna áhugamálunum sem eru kannski búin að sitja á hakanum í einhvern tíma. Lestu uppörvandi bækur, horfðu á fræðandi efni, skapaðu eitthvað með höndunum, málaðu listaverk, leiktu þér í eldhúsinu eða gerðu bara hvað sem þér dettur í hug sem að þú veist að nærir sálina þína.
 • Hugleiðsla
  Það þarfnast þolinmæði að koma hugleiðslu inn í daglegu rútínuna þína. Nú hvet ég þig til þess að fara alla leið í það verkefni og sjá hvaða mögnuðu áhrif það hefur á þig.
 • Tenging
  Þó að þú getir ekki verið jafn mikið útá við og venjulega þá getur þú samt tengst fólkinu í kringum þig á samfélagsmiðlum. Heyrðu í fólkinu þínu í gegnum facetime. Það gefur bæði þér og öðrum að heyrast með þessum hætti.

Einblíndu á þína daglegu rútínu

Það er mikilvægt að hafa eitthvað fyrir stafni og takast á við einhver markmið á hverjum degi. Ég mæli með að skrifa niður í dagbókina þína á hverju kvöldi hvað þú ætlar að gera næsta dag. Í dagbókina vil ég að þú skrifir allt það sem þú ætlar að gera er varðar lífstílsvenjur þínar. Þetta geta verið markmið eins og t.d. hugleiðsla, öndunaræfingar, fara út í náttúruna, útihlaup, yoga, elda, þakklætisæfing, lita, hlusta á podcast, heyra í vinum og fjölskyldu. Ég mæli með því að þú stúderir núna hvernig þú getur komið upp rútínu sem lætur þér líða vel. Byrjaðu fyrst á því að einblína á kvöldrútínuna og svo á morgunrútínuna. Kvöldrútínan segir mikið til um hversu gæðamikill svefninn þinn verður og morgunrútínan setur dýrmætan tón inn í daginn. Það er afar dýrmætt að koma sér upp heilsueflandi rútínu núna sem bætir og kætir. Þegar að lífið tekur við aftur þá heldur þú áfram í þessa rútínu og munt fá enn meira út úr lífinu enn áður. Einblíndu á að búa þér til rútínu sem kemur í veg fyrir stress og eykur lífsgleði þína.

Ljósmyndari: Ingibjörg Torfadóttir

Þetta verður allt í lagi, þetta mun ganga yfir

Þetta tímabil sem við erum að fara í gegnum núna mun styrkja okkur á svo miklu dýpri hátt en við gerum okkur grein fyrir. Við munum verða svo miklu meðvitaðari um það hvernig við viljum lifa lífinu þegar að þetta hefur gengið yfir. Eins verðum við svo miklu þakklátari fyrir allt það sem við höfum verið að taka sem sjálfsögðum hlut. Ég held að margir séu núna að gera miklar uppgötvanir er varðar uppeldi, starf, lífsstíl, sambönd, áhugamál, fjárhag og búsetu. Sumir eru jafnvel að átta sig á því að þeim langar ekki að halda áfram að lifa lífinu eins og þeir voru að gera áður. Það er dýrmætt fyrir okkur að það hafi verið ýtt á pásu á lífinu okkar til þess að fá þetta dýrmæta tækifæri til þess að fara inn á við að endurmeta og betrumbæta. Þess vegna mæli ég með því að þú nýtir tímann vel. Gerir það sem þú ætlaðir alltaf að gera og klárir ókláruð verkefni sem hafi setið á hakanum. Eins og t.d. að hlúa vel að þér og setja þig í 1. sætið. Þetta hefur allt sinn tilgang og mun bera af sér einhvern magnaðan og gullfallegan ávöxt.

Ást og styrkur frá mér til þín,

Anna Guðný

You Might Also Like

1 Comment

 • Reply koparblöndunartæki 21. janúar, 2021 at 01:23

  Þú ert með áhugaverðar greinar, ég mun lesa meira.

 • Leave a Reply