Njóttu Góðgætis

Bláberjabaka

Að þessu sinni ætla ég að deila með þér uppskrift af ljúffengri bláberjaböku sem að bæði bætir og kætir. Þessi baka er ótrúlega auðveld í framkvæmd og bragðast stórfenglega þó ég segi sjálf frá. Hún er glútenlaus, laus við unninn sykur og er að sjálfsögðu einnig vegan <3

Ef það eru börn á heimilinu, þá er upplagt að gera þessa köku með hjálp þeirra því að það eina sem þarf að gera er að skella nokkrum hráefnum í matvinnsluvélina. Flestir krakkar elska að fá að vera með í eldhúsinu og um að gera að leyfa þeim að vera með í sköpunarferlinu sem þar fer fram.

Bláberjabaka

Botn

  • 3 dl haframjöl
  • 1 dl möndlumjöl
  • 15 döðlur
  • 100 g ristaðar pekanhnetur
  • 1 dl ristaðar kókosflögur
  • 1/2 dl kókospálmasykur
  • 3/4 dl kókosolía – fljótandi
  • 1/2 tsk vanilluduft
  • 3/4 tsk kanill
  • 1/3 tsk salt
  1. Byrjaðu á því að setja pekanhnetur í ofninn og rista þær við 150°C á blæstri. Ef að kókosflögurnar sem þú átt eru óristaðar þá gerir þú eins við þær. Þær þurfa styttri tíma en pekanhneturnar svo ristaðu þær í öðru íláti í ofninum.
  2. Bræddu kókosolíuna með því að láta krukkuna undir heitt vatn.
  3. Næst skalt þú setja haframjölið í matvinnsluvél og malaðu það þar til það verður að hafrahveiti.
  4. Ef að döðlurnar eru harðar mýktu þær þá í sjóðandi heitu vatni.
  5. Skelltu svo öllum hinum innihaldsefnunum í matvinnsluvélina og láttu hana um að gera þetta að flottu deigi.
  6. Taktu 2 dl af deiginu og legðu til hliðar.
  7. Pressaðu botninn niður í formið sem þú ætlar að nota

Fylling

  • 500 g lífræn bláber, frosin (þú finnur frosin lífr. bláber í Nettó)
  1. Gott er að leyfa bláberjunum að þiðna áður en þú setur þau á botninn til að sem mesti vökvinn leki af þeim.

Krömblið

  • 2 dl af botninum
  • 2,5 dl tröllahafrar
  • 2 msk kókosolía (ekki bráðin)
  1. Notaðu nú hendurnar og blandaðu þessu öllu vel saman. Raðaðu þessu svo fallega á bláberin.
  2. Þá er komið að lokaskrefinu. Settu kökuna inn í ofn og bakaðu við 180°C á blæstri í u.þ.b. 30 mín.
Ég bar kökuna fram með kókosísnum frá Abbot Kinney’s sem fæst í Nettó.

Þetta er frekar stór uppskrift en það er í góðu lagi að frysta afganginn í loftþéttum glerílátum. Ég mæli heilshugar með því. Það er nefnilega mjög gaman að eiga köku í frystinum þegar að maður nennir ekki að hafa fyrir því að baka. Þá tekur maður hana bara út og leyfir henni að þiðna við stofuhita. Gott er svo að setja hana svo aðeins inn í ofn áður en maður gæðir sér á henni.

Verði þér að góðu!

You Might Also Like

No Comments

Leave a Reply