Ég ELSKA hvað það er hægt að útbúa mikið af gúmmelaði úr hráefnum sem að náttúran færir okkur. En það hefur verið mikið bananaæði í nokkur ár á meðal margra og það er ekki af ástæðulausu. Bananar gera allt gott en það sem er mesta snilldin við þá er að þegar að maður frystir þá og skellir þeim síðan í matvinnsluvél/blandara – þá verður til ís. Mjög loftkenndur og silkimjúkur ís.
Ég og sonur minn (2 ára) erum að leika okkur með allskonar útfærslur og elskum við að gæða okkur á svona ís. Það má alveg nota aðra ávexti en banana en þá er mikilvægt að þeir séu frosnir. Það sem við notum fyrir utan banana er t.d. mangó, hindber, bláber og jarðaber. En ég ætla að deila með þér einni útfærslu núna sem við gerum stundum en sú útfærsla inniheldur kakó og unaðslegt súkkulaðibaunaprótein. Í alvöru, þetta súkkulaðibaunaprótein frá pulsin er það allra besta sem ég hef smakkað og gerir ALLT gott.
Kakóís
Þessi uppskrift er í stærra lagi og dugar alveg vel fyrir 2-3 manneskjur.
- 4 frosnir bananar
- 1 msk ljóst kakó
- 1 msk súkkulaðibaunaprótein
- 1/2 msk möndlusmjör
- Smá plöntumjólk ef þarf
- Gott er að skera niður frosnu bananana niður í bita.
- Settu bananana svo í matvinnsluvélina með súkkulaðibaunapróteininu, kakódufti og möndlusmjöri. Ef að matvinnsluvélin ræður illa við þetta þá bætir þú örlítið af plöntumjólk saman við, eins lítið og þú kemst upp með.
- Láttu matvinnsluvélina vinna þar til að fallegur ís hefur myndast. Stoppaðu til þess að skafa niður með hliðum ef þarf.
Galdurinn er að láta frosnu bananana ekki þiðna áður en þú setur þá í matvinnsluvélina og borða ísinn um leið og hann er tilbúinn. Við bárum svo ísinn fram með kakónibbum sem að var ótrúlega gott. Ef að þú ert viðkvæm/ur fyrir bönunum þá mæli ég með að prufa útbúa þennan ís eftir hádegi/um kvöld og sjá hvernig það fer í þig. Það gæti verið auðveldara fyrir mallakút heldur en á morgnanna.
Fyrir áhugasama: Á instagraminu mínu, heilsaogvellidan, má finna í highlights myndband með mér þar sem ég geri aðra útgáfu af ávaxtaís. Endilega kíkið á það.
Þessi færsla er unnin í samstarfi við heilsu.
No Comments