Andaðu

Að njóta en ekki þjóta

Desembermánuður einkennist oft af miklum hraða og ætlar maður sér stundum fullmikið fyrir jólin. Maður er á hlaupum milli allskyns hittinga eins og t.d. jólahlaðborða, vinahittinga og jólaboða. Þess á milli eru jólagjafirnar græjaðar, jólakortin skrifuð, smákökurnar bakaðar, jólahreingerningin framkvæmd og ýmislegt fleira sem snýr að undirbúningi og hefðum jólanna.

Hlúðu að sjálf-ri/um þér

Stress og kvíði geta náð yfirhöndinni þegar maður er mikið á hlaupum og er mikilvægt að koma í veg fyrir það. Það ert þú sem ert við stýrið og það fer algjörlega eftir þér hvernig þú tæklar þennan mánuð. Mikilvægt er að ætla sér ekki of mikið og vera alls ekki að keppast við tímann. Ekki setja sjálfa/n þig til hliðar í öllum þeytingnum og hlúðu extra vel að þér. Byrjaðu daganna á hugleiðslu og andaðu djúpt ofan í maga ef þú finnur fyrir stressi og/eða kvíða. Finndu út hvað þér finnst best og hvað lætur þér líða best í jólaundirbúningnum. Það sogar til dæmis frá mér alla orku ef ég fer í Smáralind eða Kringluna á þessum tíma og versla ég því mikið af jólagjöfum á netinu eða niðrí bæ. Ég finn út hvað hentar mér best og lætur mér líða vel.

yJl7OB3sSpOdEIpHhZhd_DSC_1929_1Ekki setja sjálfa/n þig til hliðar

Ef það er mikið af skipulögðum hittingum í gangi hjá þér í mánuðinum er líka mjög sniðugt að stinga upp á að fresta eitthverjum af þeim fram í janúar. Það þarf ekki allt að gerast í desember. Lærðu að velja og hafna út frá því hvað lætur þér líða vel. Alls ekki pína þig á samkomur bara útaf því þú þorir ekki að segja nei. Þá ertu að setja sjálfa/n þig algjörlega til hliðar til að þóknast öðrum. Það er aldrei góður vani, settu sjálfa/n þig í fyrsta sætið og gerðu það sem þig langar að gera.

Um hvað snúast jólin?

Gott er að staldra við og hugsa út í það hvað jólin snúast í raun og veru um. Hvað situr eftir hjá þér og þínum? Eru það gjafirnar? Maturinn? Hreingerningin? Hjá mér er það klárlega samverustundirnar með mínum nánustu. Það þarf ekki allt að vera fullkomið í jólaundirbúningnum því þegar á botninn er hvolft er það ekki hann sem maður metur mest. Mikilvægast af öllu að mínu mati er að eyða tímanum með fólkinu sem mér þykir vænt um og mér líður vel í kringum. Það er það sem situr eftir í raun og veru. Það eru minningarnar sem eiga eftir að hlýja manni um hjartarætur síðar meir.

Sýndu þér og öðrum kærleika

Njóttu hverrar einustu mínútu í jólaundirbúningnum og gerðu það sem þér finnst skemmtilegt og það sem lætur þér líða vel. Ég veit ég er búin að tönglast á því oft í þessari færslu en það er svo mikilvægt að við veljum sífellt út frá því hvað lætur okkur líða vel og heldur okkur í jafnvægi. Við erum þess virði að líða vel og njóta alls þess besta sem lífið býður upp á. Gefðu af þér með því að mæta fólkinu í samfélaginu með bros á vör og kærleika í hjarta, sama hvort þú þekkir það eða ekki. Þú trúir ekki hvað eitt bros getur gefið fólki mikið. Það er svo sannarlega satt að bros getur dimmu í dagsljós breytt. Þetta er eitthvað sem maður ætti að temja sér allann ársins hring, að mæta öllum sem á vegi manns verða með ást, hlýju og kærleik.

Njóttu þessa fallega desembermánuðs og þá sérstaklega dagsins í dag <3

You Might Also Like

No Comments

Leave a Reply