Andaðu

Að vera í jafnvægi yfir vetratímann

Þegar kólna fer í veðri og myrkva fer í seinnipartinn vildi ég stundum óska þess að ég væri hinum megin á hnettinum í sólinni. Löngunin er sérstaklega sterk þennan veturinn þar sem að ég ferðaðist mikið á þessu ári og fór m.a. til Ástralíu og Bali og veit hversu dásamlegt það er að vera þar. Mikilvægt er þó að vera ekki stöðugt að hugsa um hvað allt væri nú betra ef eitthvað væri öðruvísi eins og t.d. að vera í öðru landi. Maður verður að gera það besta úr hlutunum eins og þeir eru og að vera þakklátur fyrir það sem maður hefur. Þó það væri nú ansi huggulegt að baða sig í sólinni býr veturinn yfir ákveðnum sjarma líka.

Yfir veturinn þá mætti segja að ég leggist hálfpartinn í dvala eins og sumar dýrategundir. Ég elska fátt meira en að vera heima í kósýheitum með kertaljós, elda góðan mat, lesa bækur, drekka te og vil helst vera í ullarsokum og náttsloppnum mínum allan daginn. Það er einhvernveginn erfiðara fyrir mig að fara út í samfélagið á þessum tíma ársins og er eins og það dragi bókstaflega úr mér alla orku. Hvort sem ég þarf að mæta eldsnemma í vinnu eða skóla þá hefur það alltaf verið mér hálfgert ströggl að sinna því yfir vetrartímann þó ég geri það nú samt með herkjum. Ég upplifi meira andlegt og líkamlegt ójafnvægi á þessum árstíma í samanburði við aðra árstíma og til þess að sporna við þessu ójafnvægi eru ákveðnir hlutir sem ég geri fyrir sjálfan mig til þess að koma mér í meira jafnvægi sem ég ætla að deila með þér:

Borða holla fæðu

Það er mér mjög mikilvægt að borða holla fæðu á þessum árstíma sem og á öðrum árstímum. Eftir að hafa sveiflast mikið til í mataræðinu á sínum tíma fékk ég að sjá hversu mikil áhrif það hafði á andlegu og líkamlegu líðan mína að borða hollt fæði. Ég verð skýrari í hugsun, orkumeiri og lífsglaðari þegar að ég borða hollt mataræði. Þannig í dag er það alveg jafn mikilvægt fyrir mér að borða hollan mat og að fara í hreina sokka á hverjum degi. Þetta er bara það sem ég geri og er það alveg sjálfsagt fyrir mér.  

Eyði tíma með sjálfri mér

Ég er ekki eins mikið fyrir að vera í kringum fólk á veturna eins og t.d. yfir sumartímann. Ég elska að eyða tíma með sjálfri mér og finn ég það mjög sterkt að það er eitthvað sem ég verð að gera til að halda mér í jafnvægi. Að eyða tíma með sjálfri mér er eins og að stinga mér í samband og hlaða mig.

Ég er mjög næm manneskja og tekur það almennt oft á að vera í kringum mikið af fólki. Ég er því fljót að finna hvaða fólk ég vil vera í kringum út frá því hvernig mér líður í kringum það. Fólk sem er almennt neikvætt og í lágri orku forðast ég að vera í kringum til að hlífa sjálfri mér, því að það dregur úr mér alla orku að vera í kringum það.

photo-1421338443272-0dde2463976aLes bækur

Ég les mikið bækur og væri ég helst til í að gera ekkert annað á veturna. Ég les aðallega heilsutengdar bækur sem fjalla um andlega og líkamlega heilsu.  Svona bækur lyfta mér upp. Þær halda mér við efnið og fylla mig eldmóði. Með því að lesa eða hlusta á góða og uppbyggilega bók getur það fyllt mann af hvatningu og hjálpað manni að vera jákvæðari í daglegu lífi.

Fæ mér te

Að ylja sér á góðu tei í kuldanum er dásamlegt. Yogi tein eru í miklu uppáhaldi hjá mér og þá sérstaklega útaf litlu sætu setningunum sem eru á hverju tei. Ég stelst alltaf til að setja smá kakósmjör út í teið mitt og setur það algjörlega punktinn yfir i-ið.

Fer í bað

Ef þú átt baðkar þá mæli ég endalaust með því að slaka á eftir daginn í góðu baði. Fyrst byrja ég á því að þurrbursta húðina áður en ég fer í baðið. Í baðið set ég epsom salt, matarsóda, uppáhalds ilmkjarnaolíuna mína og kókosolíu og líður mér (og lykta) dásamlega á eftir. Eins er skylda að kveikja á kertaljósum og jafnvel setja rólega tónlist á fóninn til að ná sem bestri slökun.

2015-08-14-18.53.05-1Hugleiði

Oft er þörf en nú er nauðsyn. Ég finn þvílikan mun á mér þegar ég hef hugleitt á morgnanna áður en ég held út í daginn. Ég er í meira andlegu jafnvægi og betur í stakk búinn til að takast á við daginn. Það er líka magnað að hugleiða á kvöldin fyrir svefninn sem ég er að reyna að koma inn í rútínuna mína núna. Að prjóna eða gera aðra handavinnu er einnig mjög góð leið til að róa hugann, frábær leið til að hugleiða. Meira um hugleiðslu hér.

Eyði tíma í náttúrunni

Það jafnast ekkert á við fallega náttúru og þarf maður ekki að fara langt á Íslandi til að vera komin í algjöra kyrrð í fallegri náttúru. Ef það er eitthvað sem fyllir mig af orku þá er það að eyða tíma í náttúrunni. Þó það sé nú ekki nema að fara bara í 30 mín göngutúr þá gerir það algjört kraftaverk. Sniðugt er að hlusta á hvetjandi bók í göngutúrnum.

Geri yoga

Ég er með yogadýnu hérna heima og er algjör snilld að byrja daginn á góðri yoga æfingu. Ég nota youtube mikið þar sem ég er algjör byrjandi ennþá og er mjög auðvelt að finna góð myndbönd. Ég mæli með að slá inn: ,, Yoga with Adriene” þá kemur fjöldin allur af yogaæfingum og ætti að vera auðvelt fyrir alla að finna eitthvað við sitt hæfi. Ég er miklu léttari andlega þegar ég geri yoga og elska ég að vakna með harðsperrur daginn eftir.

Að vera í jafnvægi er mér gríðarlega mikilvægt og eru þetta allt hlutir sem hjálpa mér til við það. Það eru sennilega margir sem lesa þetta og hugsa að þeir hafi ekki tíma fyrir neitt af þessu. En allt er hægt ef viljin er fyrir hendi. Hvað ætli maður eyði miklum tíma á samfélagsmiðlum yfir daginn? Þú hefur alltaf val um að setja sjálfa/n þig í fyrsta sætið og ef þú ákveður að gera svo er alltaf hægt að finna leiðir.

Ást,

Anna Guðný

You Might Also Like

No Comments

Leave a Reply