Hugsaðu

Að fæða heima

17. október, 2016

Ljósmyndari: Ingibjörg Torfadóttir – itorfa.com

Að fæða barnið mitt í heiminn er án efa það magnaðasta sem ég hef upplifað. Ég las mér mikið til um heimafæðingar á meðgöngunni en hlustaði fyrst og fremst á innsæið mitt sem vissi að þetta væri það rétta fyrir okkur ef allt gengi vel. En til að geta átt heima þarf meðgangan að vera eðlileg og konan gengin 37-42 vikur með eitt barn í höfuðstöðu. Við höfðum samband við ljósmæðurnar hjá Björkinni og leist okkur báðum mjög vel á þessar hjartahlýju ljósmæður, þær Hrafnhildi og Arney. Eftir að hafa hitt þær vorum við harðákveðin í að við vildum fæða heima og hafa þær með í ferlinu.

Af hverju kusum við heimafæðingu?

Persónulegt samband við ljósmæðurnar

Það skipti okkur mjög miklu máli að geta kynnst ljósmæðrunum sem yrðu viðstaddar fæðinguna og geta farið yfir með þeim ef við hefðum einhverjar óskir. Okkur fannst einnig mikilvægt að velja ljósmæður sem að við treystum og okkur liði sjálfum vel í kringum. Ég vildi ekki láta það ráðast í fæðingunni sjálfri hvaða ljósmóðir yrði viðstödd og hvort okkur myndi líka vel við hana. Eins fannst mér óþægileg tilhugsun að maður væri ekki öruggur um að hún yrði í allri fæðingunni því maður gæti lent á vaktaskiptum.

Að vera í okkar umhverfi

Að fá að vera í okkar umhverfi þar sem okkur líður báðum vel var einnig mjög mikilvægur þáttur í okkar ákvörðun. Það skiptir mjög miklu máli að báðum foreldrum líði eins vel í fæðingunni og hægt er til að þau haldi ró sinni. Makinn er t.d. oftast afslappaðari og á auðveldara með að styðja við konuna í fæðingunni þegar hann er á sínu eigin heimili. Andrúmsloftið í fæðingunni á að vera afslappað og rólegt. Ef að konan er hrædd, kvíðin eða óörugg í fæðingunni getur það dregið úr hríðunum og tafið fæðinguna. Eins verða verkirnir sárari og fæðingin meira basl ef að konan er hrædd eða kvíðin. Það síðan kallar oft á óþarfa inngrip seinna meir í fæðingunni.

Minni líkur á inngripum

Eftir að hafa lesið nokkrar bækur um heimafæðingar sá ég hversu mikið er búið að sjúkdómsvæða meðgöngu og fæðingar. Þegar að konur fara á spítala til að fæða þá eru þær oft ósjálfrátt komnar í einhvern tímaramma. Ef að þær eru búnar að vera inni á spítalanum í einhvern x langan tíma án þess að lítið gerist þá er oft pressað á þær að nota einhverskonar inngrip. Eins las ég mikið til um aukaverkanir og áhættur sem fylgja deyfingum og inngripum í fæðingum en það er ekki mikið frætt konur um það á meðgöngunni. Ég skil þær konur vel sem að ákveða að nota deyfingar í fæðingum enda er mikill sársauki sem fylgir því að koma barni í heiminn. Eins getur stundum verið þörf á inngripum en mikilvægt er að þau séu ekki gerð að óþörfu. En slíkar ákvarðanir ættu að vera meira upplýstar að mínu mati.

Ég er við völdin

Það er mjög mikilvægt að foreldrar kynni sér vel ferli fæðingarinnar og geri sér grein fyrir því að þeir eru við stjórn. Ef að þeir hafa einhverjar óskir eða skoðanir hvernig eitthvað á að vera gert í fæðingunni þá er auðvelt að ræða það við ljósmæðurnar fyrir heimafæðinguna svo að allir séu á sömu blaðsíðu þegar kemur að stóru stundinni. Fyrir mitt leyti líður mér ekki eins og ég sé við völd þegar ég fer á spítala. Ég leyfi fagfólkinu að taka fram fyrir hendurnar á mér og leyfi þeim að taka allar þær ákvarðanir fyrir mig sem þarf að taka. Í stað þess að skoða frekar og taka ákvarðanir út frá því hvað henti mér og hvernig mér líði.

En við erum öll ólík og enginn er eins, sumum finnst þeir öruggastir á spítala og það er því frábært að þeir einstaklingar geti fætt á spítala. Eins þurfum við á spítalanum að halda þegar einhverjir áhættuþættir eru til staðar. En mikilvægast er að við höfum val og getum valið fæðingastað sem mætir okkar þörfum.

Enginn áhættuleikur

Margir halda að maður sé í einhverjum áhættuleik með því að velja heimafæðingu og vilja ólmir segja manni frá hræðilegum fæðingarsögum. Ef að ástæða þykir til að fara upp á spítala þá fara ljósmæðurnar með mann þangað um leið og þeim þykir ástæða til. Oft eru konur þá búnar að vera heima í einhvern tíma sem að þær hefðu hvort sem er eytt upp á spítala í bið og væru þá komnar undir tímapressu spítalans. Þessi tími sem konan gat verið heima áður en hún fór upp á spítala var henni þá mjög dýrmætur þrátt fyrir að hún hafi þurft að enda upp á spítala.

Enginn aukakostnaður

Það kostar ekkert aukalega að fæða heima. Maður borgar ljósmæðrunum efniskostnaðinn en fær svo þá upphæð endurgreidda frá Sjúkratryggingum Íslands.

Okkar upplifun af heimafæðingu

Ég vaknaði um miðja nótt með mikla verki sem urðu að kröftugum hríðum stuttu seinna. Við höfðum samband við Arney ljósmóður sem kom um leið og okkur fannst ástæða til. Þetta gerðist allt mjög hratt en ég var búin með útvíkkunina þegar hún kom og fór ég fljótlega í uppblásna fæðingarlaug þar sem að ég gat tekið mun betur á móti hríðunum. Harpa ljósmóðir kom stuttu seinna, Arneyju til aðstoðar. Í fæðingunni gat ég lítið ráðið við það sem var að gerast og leyfði ég líkamanum algjörlega að gera sitt. Ég andaði mig í gegnum ferlið og reyndi að halda ró minni. En kærasti minn, Snorri, var mér ómetanlegur stuðningur og studdi vel við mig allan tímann. 4 tímum eftir fyrstu verki fékk ég síðan fallega drenginn minn í fangið og ætlaði ég ekki að trúa því hvað þetta gekk hratt og vel fyrir sig. Auðvitað var sársaukafullt að ganga í gegnum hríðir og síðan að koma barninu sínu í heiminn, en á sama tíma var það svo stórkostlega magnað að maður gleymir sársaukanum um leið og barnið manns er komið í fangið á manni.

Ljósmæðurnar tóku myndir fyrir okkur í fæðingunni sem okkur þykir afar vænt um

Að geta fætt barnið sitt á stofugólfinu og farið svo fljótlega með það upp í rúm þar sem að fjölskyldan gat notið stundarinnar saman var einstök upplifun. Okkur fannst við mjög örugg í fæðingunni og völdum klárlega réttu ljósmæðurnar fyrir okkur.

Dagarnir eftir fæðingu

Ljósmæðurnar hjá Björkinni héldu vel utan um okkur eftir fæðinguna og kíktu reglulega á okkur hingað heim. Við gátum alltaf hringt í þær ef við höfðum einhverjar spurningar og fannst okkur við vera mjög örugg í þeirra höndum. Þær eru svo yndislegar, ofboðslega einlægar og með rosalega góða nærveru. Það var mjög þægilegt að fá þær hingað heim og gat maður verið 100% maður sjálfur. Mér fannst ég aldrei þurfa að taka til, hafa mig til eða neitt áður en þær komu heldur tók maður bara á móti þeim eins og maður var og leið mjög vel með það.

_MG_0131

Ljósmyndari: Ingibjörg Torfadóttir – itorfa.com

Ég er svo ótrúlega þakklát fyrir að geta haft ljósmæðurnar hjá Björkinni með í þessari fæðingu og hefði hún aldrei verið eins án þeirra. Við lítum oft til baka á þessa fallegu stund og fáum gæsahúð – þetta var algjörlega magnað. Þú getur lesið þér meira til um heimafæðingar á facebooksíðu Bjarkarinnar og á heimasíðu þeirra; www.bjorkin.is. 

Mér finnst mikilvægt að konur deili jákvæðum upplifunum sínum af fæðingum þar sem að oft er bara talað um hræðilegar reynslusögur. Það er svo ótrúlega hvetjandi og gott fyrir konur að lesa jákvæðar fæðingarsögur á meðgöngunni. Hver meðganga er einstök og enginn er eins, því er mikilvægt að foreldrar kynni sér hvað er í boði og taki ákvarðanir útfrá því hvað henti þeim best. Allar konur sem fæða börn eru hetjur, sama hvaða leið þær völdu og hvernig þær gerðu það. Það er algjört kraftaverk að koma barni í heiminn.

-Anna Guðný

You Might Also Like

No Comments

Leave a Reply