Njóttu Hádegis- og Kvöldmatar

Regnbogaskál

Matur er svo miklu meira en bara næring fyrir mér. Matur þarf að vera djúsí, vel samsettur og algjört ævintýri fyrir bragðlaukana. Það er þessi regnbogaskál svo sannarlega og ég mæli mikið með að þú útbúir hana sem allra, allra fyrst!

Það tekur enga stund að græja máltíð eins og þessa, það er vel hægt að gera hana á innan við klukkutíma og því ekkert sem ætti að stoppa þig í að upplifa töfra þessarar regnbogaskálar 😉

Þú þarft eftirfarandi hráefni:

 • Ferskt rauðkál
 • Rifnar gulrætur
 • Edamame baunir
 • Spínatkál
 • Tófú
 • Edamame baunir
 • Avacado
 • Fersk paprika
 • Bakað grasker
 • Bakað brokkolí
 • Sósa: ferskt engifer, hvítlauksrif, hnetusmjör, tamarisósa, ólífuolía og vatn.

Þú gerir þetta svona

 1. Byrjaðu á því að skera niður graskerið í teninga og baka það með smá ólífuolíu, grófu salti og sítrónupipar. Bakaðu þetta við 180°C í 30 mín.
 2. Skerðu tófú í teninga, kryddaðu það að vild og settu jafnvel smá tamarisósu saman við. Blandaðu vel saman og bakaðu það svo í ofninum með graskerinu. Gott að opna ofninn af & til og hrissta aðeins í þessu til að það eldist jafnt.
 3. Skerðu niður brokkolí og bakaðu það við 200°C í 8-10 mín ca.
 4. Skerðu niður allt þetta ferska, rauðkálið, avacadoið og rífðu gulræturnar.
 5. Ef þú ert með frosnar edamame baunir – taktu þær úr frystinum og settu þær á disk svo að þær þiðni. Settu þær svo í ofninn með bakaða grænmetinu rétt í lokin.
 6. Skelltu í sósuna.

Hnetusmjörssósa

 • 3 msk gróft hnetusmjör
 • 3 msk tamari sósa
 • 2 msk ólífuolía
 • 1 cm ferskt engifer, rifið
 • 1 hvítlauksrif, rifið
 • 1 dl vatn

Hrærðu öllu saman í skál með gaffli og legðu til hliðar.

Þegar allt er klárt setur þú þetta saman í skál og setur sósuna yfir.

Þér er alveg óhætt að gera stóran skammt af þessari máltíð og eiga hana í hádeginu/kvöldmat næsta dag. Bakað grænmeti geymist í u.þ.b. 3 daga í ísskáp og ferskt grænmeti auðvitað miklu lengur.

Þegar mikið er að gera er mjög sniðugt að skipuleggja sig aðeins í eldhúsinu með því að baka fullt af grænmeti í einu eins og t.d. brokkolí og grasker í þessu tilfelli. Eins er sniðugt að skera niður ferskt grænmeti og eiga í loftþéttum glerílátum í ísskápnum, þá er hentugara að grípa í það. Svona undirbúningsvinnu er hægt að gera við gott næði með góða tónlist í bakgrunninum og þá er þetta hin besta hugleiðsla. Í framnhaldinu er svo auðvelt að setja saman máltíðir í annríki vikunnar og lítill sem enginn undirbúningur sem þarf til að gera góða máltíð.

Njóttu elsku gullmoli <3

Ást,

Anna Guðný

Þú mátt endilega deila með mér í athugasemd hvernig þér líkaði uppskriftin, svo getur þú alltaf fylgst með mér á instagram til að fá frekari heilsuhvatningu.

You Might Also Like

No Comments

Leave a Reply